Vladímír Pútín, forseti Rússlands, segir að allt að sjö þusund hryðjuverkmenn, sem eigi rætur í ríkjum sem tilheyrðu Sovétríkjunum fyrir fall þeirra, vera að berjast með Íslamska ríkinu í Sýrlandi. Þetta kom í ræðu Pútíns í fundi í Kasakstan, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC. Hann gagnrýndi enn fremur Bandaríkjamenn fyrir að forðast viðræður um lausn á stöðu mála í Sýrlandi.
Pútín sagði enn fremur að hann hefði miklar áhyggjur af því að ótryggt ástand í Afganistan, þar sem Íslamska ríkinu hefur vaxið ásmegin, gæti haft smitandi áhrif til Mið-Asíuríkja. Þá þyrftu þjóðir heims að taka höndum saman, til þess að vinna gegn Íslamska ríkinu og uppgangi hryðjuverkahópa.
BREAKING Putin: I don't get how US can criticize Russian op in Syria if it refuses dialogue http://t.co/MEZEKADQiG pic.twitter.com/yNbdZCIzGT
Auglýsing
— RT (@RT_com) October 15, 2015
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, greindi formlega frá því í vikunni að ákveðið hefði verið að halda 5.500 hermönnum áfram í Afganistan. Til stóð að draga allan herinn úr landinu, áður en kjörtímabili Obama myndi ljúka, en af því verður ekki. Vaxandi átök og óöryggi í landinu er ástæða þess að bandarísk stjórnvöld meta stöðuna með þessum hætti.
Rússar hafa haldið uppteknum hætti í Sýrlandi og barist við hlið stjórnarhers Bashar al-Assad forseta Sýrlands gegnum uppreisnarhópum í landinu og Íslamska ríkinu. Þetta er gert í óþökk Bandaríkjanna og flestra Vesturlanda, meðal annars Frakklands og Bretlands, sem segja ótækt að starfa með Assad. Hann geti aldrei orðið hluti af pólitískri lausn í Sýrlandi.
Um tíu milljónir manna eru nú á vergangi í Sýrlandi, af um 22 milljóna heildaríbúafjölda, og samanlagður földi flóttamanna þegar Afganistan og Írak er meðtalið, er um 20 til 25 milljónir manna.