Þrátt fyrir að Vladimír Pútín forseti Rússlands hafi verið fordæmdur af vestrænum leiðtogum og fregnir berist nú daglega af hörmulegum voðaverkum rússneska innrásarliðsins í Úkraínu hefur forsetinn aukið vinsældir sínar meðal almennings í Rússlandi gríðarlega frá því að stríðið, sem ekki má kalla stríð í Rússlandi, hófst.
Samkvæmt nýjustu mælingu óháða könnunarfyrirtækisins Levada Center í Rússlandi segjast nú, í fyrsta sinn frá árinu 2018, fleiri en 80 prósent Rússa ánægð með embættisfærslur Pútíns, en Levada framkvæmir mánaðarlegar mælingar á viðhorfum rússnesks almennings til starfa forsetans. 83 prósent aðspurðra sögðust sátt með störf forsetans þegar spurt var í marsmánuði, en einungis 15 prósent ósátt. Um tvö prósent tóku svo ekki afstöðu í aðra hvora áttina.
Ánægja með störf Pútíns hafði dalað
Vinsældastökk Pútíns nú er mjög svipað og það sem átti sér stað árið 2014, er Rússar innlimuðu Krímskaga. Við þá atburði reis ánægja með störf Pútíns úr rúmum 60 prósentum og upp í tæp 90 prósent og hélst yfir 80 prósentum allt fram á mitt ár 2018, en dalaði þá niður í 60-70 prósent með nokkrum sveiflum á milli mánaða.
Ánægja með störf Pútíns mældist minnst í upphafi kórónuveirufaraldursins, en í apríl árið 2020 sögðust einungis 59 prósent svarenda í könnun Levada ánægð með störf forsetans. Síðan þá hafði ánægjan ekki farið upp fyrir 70 prósent, fyrr en í febrúar 2022 – og reis síðan upp í 83 prósent í síðasta mánuði sem áður segir.
Sá hópur sem lýsir yfir óánægju með forsetann hefur að sama skapi meira en helmingast, en í desember síðastliðnum sögðust 34 prósent svarenda óánægð með frammistöðu Pútíns í embætti. Það hlutfall var komið niður í 27 prósent í febrúar og mældist svo 15 prósent í mars, sem áður segir.
70 prósent sátt með störf ríkisstjórnarinnar
Ánægja með störf ríkisstjórnarinnar heilt yfir hefur einnig vaxið mjög frá því að stríðsreksturinn í Úkraínu hófst og segjast nú 70 prósent sátt með störf rússnesku stjórnarinnar en einungis 27 prósent ósátt. Undir lok síðasta árs voru um það bil jafn margir sem sögðust sáttir og ósáttir með störf stjórnarinnar.
Þegar spurt er hvort svarendur telji Rússland almennt vera að færast í rétta átt eða í ógöngur hefur einnig orðið mikil viðhorfsbreyting. 69 prósent sögðu í könnun Levada í mars að Rússland væri á réttri leið, en einungis 48 prósent í desembermánuði. Að sama skapi töldu einungis 22 prósent að Rússland væri á rangri leið þegar spurt var í mars, en 44 prósent þegar spurt var í desember.
Viðhorf til Vesturlanda snarversna
Viðhorf rússnesks almennings til Vesturlanda hafa einnig snarversnað frá því að stríðið í Úkraínu hófst. Í nóvember síðastliðnum sögðust 45 prósent vera jákvæð í garð Bandaríkjanna en 42 prósent neikvæð. Í mars voru hinsvegar einungis 17 prósent svarenda jákvæð í garð Bandaríkjanna en 72 prósent neikvæð.
Hvað Evrópusambandið hafa viðhorf einnig snarversnað, en í mælingum Levada hafa fleiri Rússar verið jákvæðir en neikvæðir gagnvart ESB í nær öllum mælingum frá árinu 2019. Nú er öldin önnur – 67 prósent aðspurðra sögðust neikvæð gagnvart Evrópusambandinu er spurt var í mars.