Vladimír Pútín, forseti Rússlands, er sagður hafa fengið heilablóðfall og þess vegna aflýst opinberri heimsókn sinn til Astana, höfuðborgar Kasakstan. Talsmenn forsetaembættisins í Kreml vísa þessu á bug og segja Pútín við hestaheilsu.
Eftir að ferð forsetans var aflýst sagði heimildarmaður innan kasösku ríkisstjórnarinnar að Pútín væri alvarlega veikur. Í kjölfarið fór orðrómur á flug á samfélagsmiðlum um að rússneski forsetinn hafi fengið heilablóðfall og að hann væri jafnvel látinn.
Talsmaður Kremlar sagði hins vegar við fréttastofu Reuters að hinn 62 ára gamli forseti væri „eilíft á fundum,“ og að hann eigi fundi á morgun. „Ég veit ekki hvaða fundi við gerum opinbera.“
Í rússneskum stjórnmálum eiga orðrómar frjóan jarðveg vegna þeirrar miklu leyndar sem ríkir um ferðir og fundi forsetans. Þetta er arfleið frá skipulagi Sovétríkjanna þar sem reglulega spruttu orðrómar um að leiðtogarnir væru veikir.
Týndur síðan 5. mars
Pútín átti síðast opinberan fund með Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, 5. mars síðastliðinn. Fundinum var sjónvarpað beint en síðan hafa aðeins birtst ljósmyndir af forsetanum á vef Kremlar sem dagsettar eru 10. og 11. mars.
Í gær átti Pútín svo að hitta sendinefnd frá Suður Ossetíu í Georgíu en þeir lögðu aldrei af stað frá Georgíu, samkvæmt heimildum Reuters. Fjarvera forsetans og orðrómur um heilsu hans hefur ekki haft áhrif á markaði í Rússlandi.
Síðast var heilsa Pútíns í sviðsljósinu árið 2012 þegar hann sást haltra á opinberum vettvangi. Þá var hann sagður þjást af bakverkjum. Kreml hafa alltaf hafnað þeim sögum.