Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál, segir að vaxtamunur sé orðinn of mikill á Íslandi, að bankar landsins eigi að lækka vexti á lánum heimila og fyrirtækja í ljósi þess sem hún kallar ofurhagnað þeirra. „ Ég tel óábyrgt að ríkissjóður borgi allan reikninginn fyrir faraldurinn og tel að bankarnir eigi að styðja við þau heimili og fyrirtæki, sér í lagi í ferðaþjónustu, sem koma einna verst út úr faraldrinum. Þá vísa ég í þá samfélagslegu ábyrgð sem fjármálastofnanir í landinu þurfa að sýna þegar vaxtastigið er farið að hækka.“ Geri bankarnir það ekki sjálfir gæti þurft að „endurvekja bankaskatt, eins og við gerðum á sínum tíma, til að dreifa þessum byrðum.“
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Hagnaðurinn verður nálægt 80 milljörðum
Tveir af þremur kerfislega mikilvægum bönkum landsins, Arion banki og Landsbankinn, hafa birt uppgjör sín fyrir árið 2021 og sá þriðji, Íslandsbanki, gerir það í dag. Arion Banki hagnaðist um 28,6 milljarða króna á síðasta ári og ætlar sér að greiða 79 prósent þess hagnaðar út í arð til hluthafa. Til viðbótar ætlar bankinn að kaupa eigin bréf fyrir að minnsta kosti 3,4 milljarða króna á árinu 2022. Hann skilaði alls 31,5 milljarði króna til hluthafa sinna í gegnum arðgreiðslur eða endurkaup á bréfum í fyrra og hefur áform um að greiða þeim um 30 milljarða króna til viðbótar í nánustu framtíð. Gangi þau áform eftir munu hluthafar bankans hafa fengið allt að 88 milljarða króna greidda út úr honum frá byrjun árs 2021. Arion banki hefur líka tekið upp kaupauka- og kaupréttarkerfi fyrir starfsmenn. Bankinn bókfærði tæplega 1,6 milljarða króna kostnað vegna kaupaukagreiðslna í fyrra.
Íslandsbanki birtir sitt ársuppgjör í dag. Hann hagnaðist um 16,6 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs og því er samanlagður hagnaður þessara þriggja banka kominn upp í 74,1 milljarða króna áður en að hagnaður Íslandsbanka á síðustu þremur mánuðum ársins 2021 er talinn með, en hann mun alltaf hlaupa á milljörðum króna. Til samanburðar högnuðust allir bankarnir þrír samanlagt um 29,8 milljarða króna á árinu 2020. Í fyrra högnuðust bæði Arion banki og Landsbankinn um þá upphæð hvor.
Vaxtamunur miklu hærri en á Norðurlöndunum
Vaxtamunur banka er munurinn á þeim vöxtum sem bankarnir greiða fólki og fyrirtækjum fyrir innlán sem þau geyma hjá þeim og vöxtunum sem þeir leggja á útlán. Samandregið þá borgar bankinn lægri upphæð fyrir að fá peninga á láni og rukkar álag fyrir að taka þá peninga og endurlána á hærri vöxtum. Það álag stendur undir rekstrarkostnaði bankans og myndar hluta hagnaðar hans, en almennt hafa um 70 prósent tekna kerfislega mikilvægu bankanna á Íslandi verið hreinar vaxtatekjur.
Vert er að taka fram að bankar fjármagna sig líka með skuldabréfaútgáfu sem fagfjárfestar kaupa, ekki einungis með innlánum almennings, lífeyrissjóða og fyrirtækja.
Þeir sem greiða þá vexti eru að uppistöðu íslensk heimili og fyrirtæki.
Bankarnir kvörtuðu lengi yfir því að hinn svokallaði bankaskattur gerði það að verkum að vaxtamunur þyrfti að vera hár. Með því gáfu þeir til kynna að heimilin og fyrirtækin í landinu væru látin greiða skattinn. Bankaskatturinn var lækkaður úr 0,376 í 0,145 prósent árið 2020 sem hluti af fyrsta efnahagspakka ríkisstjórnarinnar til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum. Þetta rýrði tekjur ríkissjóðs vegna skattsins um meira en sex milljarða króna á ári. Skörp lækkun bankaskattsins, hefur ekki skilað því að vaxtamunur banka hafi lækkað sem neinu nemur. Vaxtamunur Arion banka á síðasta ári var 2,8 prósent og lækkaði úr 2,9 prósent árið 2020. Vaxtamunur Landsbankans var 2,3 prósent. Til samanburðar þá var vaxtamunur norræna banka sem eru svipaðir að stærð og þeir íslensku 1,68 prósent á árinu 2020. Hjá stórum norrænum bönkum er hann undir einu prósenti, samkvæmt því sem fram kom í ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja fyrir það ár.
Lækkun bankaskattsins hefur hins vegar spilað inn í miklar hækkanir á virði hlutabréfa í þeim bönkum sem skráðir eru á markað. Arion banki tvöfaldaðist til að mynda í markaðsvirði í fyrra.
Kemur til greina að endurvekja bankaskattinn
Lilja segir í viðtalinu við Morgunblaðið að eignaverð hafi hækkað mikið í faraldrinum, bæði hlutabréf og fasteignir, og við þær aðstæður sé ekki óeðlilegt að bankar skili miklum hagnaði. „Þetta er hins vegar ofurhagnaður og til þess að við öll, samfélagið, komum vel út úr faraldrinum þurfum við að jafna byrðarnar.“
Hækkun á húsnæðisverði drífi áfram verðbólgu og það muni skila vaxtahækkunum. „Ég tel því mjög mikilvægt að ákveðin heimili, sérstaklega ungs fólks og tekjulágra, sitji ekki eftir með svarta pétur. Það er því betra að bankarnir komi strax inn í þetta og fari að huga að heimilunum í landinu og ef bankarnir finna ekki einhverja lausn á því tel ég að við ættum að endurvekja bankaskattinn.“
Níu þingmenn frá Samfylkingu, Viðreisn, Flokki fólksins og Pírötum hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að stjórnvöld greini þann vanda sem hafi skapast á húsnæðismarkaði og grípi í kjölfarið inn í stöðuna með mótvægisaðgerðum.
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir í Fréttablaðinu í dag að hringl með hagstjórn, sem birtist í því að vextir voru lækkaðir hratt en síðan hækkaðir hratt skömmu síðar, hafi skapað ójafnvægi. Um þriðjungur þeirra sem keypti fasteign í þessu ástandi séu fyrstu kaupendur, að stærstum hluta ungt fólk sem er í fyrsta sinn að komast í gegnum greiðslumat. „Hættan er sú að neyðarástand geti skapast hjá þeim sem hafa skuldsett sig hátt á dýrum fasteignamarkaði [...] Við höfum sértækar leiðir til að koma peningum til þeirra sem þess þurfa, svo sem vaxtabætur, barnabætur og húsaleigubætur. Ef ástandinu er leyft að grassera er hættan sú að það komi miklu almennari krafa um launahækkanir sem verða mun dýrari fyrir fyrirtæki og ríkið.“