Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur ákveðið að staðfesta ákvörðun bæjarstjórnar Grindavikurbæjar um að nýja hraunið úr eldgosinu í Geldingadölum fái nafnið Fagradalshraun.
Þetta kom fram í fundargerð bæjarráðs Grindavíkur í vikunni. Bæjarstjórnin í Grindavík ákvað þetta nafn, eins og lög um örnefni gera ráð fyrir, enda er eldgosið og hraunið nýja innan sveitarfélagamarka Grindavíkurbæjar.
Tvö nöfn voru til skoðunar hjá bæjarstjórninni, sem leitaði til íbúa í bænum eftir uppástungum að nafni á nýja hraunið skömmu eftir að eldgosið hófst í lok mars. Þau tvö nöfn sem oftast voru nefnd af hálfu íbúa voru Fagradalshraun og Fagrahraun, en alls bárust um 340 tillögur að nafni á nýja hraunið.
Þessar tillögur að örnefnum sendi bæjarstjórnin svo inn til örnefnanefndar, sem ráðherra skipar, og þótti nefndinni ekkert því til fyrirstöðu að nota hvort örnefnið sem væri.
Bæjarstjórnin ákvað þó að endingu að gera tillögu um heitið Fagradalshraun og eins og lög um örnefni gera ráð fyrir hefur ráðherra nú staðfest það formlega.
Eldgosið virðist í rénun
Eldgosið í Geldingadölum hefur nú staðið í rúma fjóra mánuði og merki eru um að farið sé að draga úr virkni þess.
Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði sagði við Ríkisútvarpið í gær að svo virtist sem framboðið af kviku, sem virðist vera að koma beint úr möttli jarðar en ekki úr kvikuhólfi, virðist vera að minnka.
„Það er líklegt að við munum horfa á minnkandi gos sem svo fjarar út en tímasetningar eru mjög erfiðar,“ sagði Magnús Tumi við RÚV.
Það er því óljóst enn hversu mikið Fagradalshraun mun stækka.