Lagt hefur verið til að framlög vegna málaflokksins vinnumarkaður og atvinnuleysi verði aukin um fimm milljarða króna frá því sem fjárlagafrumvarpið sagði til um. Verði sú breyting samþykkt munu framlögin verða alls 55,1 milljarðar króna, sem er um 40 milljörðum króna minna en fór í málaflokkinn á árinu 2021.
Ástæðan er minnkandi atvinnuleysi, en það mældist 4,9 prósent í síðasta mánuði sem er svipað og atvinnuleysi var áður en kórónuveirufaraldurinn skall á snemma á síðasta ári. Atvinnuleysi mældist 12,8 prósent í janúar síðastliðnum.
Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar vegna fjárlagafrumvarpsins kemur fram að ástæða þess að hækka þurfi framlög til málaflokksins á næsta ári sé aðallega út af auknu framlagi, alls 3,4 milljörðum króna, vegna ráðningastyrkja.
Um 60 prósent útgjaldanna eru hins vegar vegna hefðbundinna ráðningarstyrkja sem komu í kjölfar átaksverkefnisins.
Ráðningastyrkir kosta alls 15,1 milljarð króna
Þegar Hefjum störf átakið var kynnt í mars síðastliðnum var markmiðið sagt vera að skapa sjö þúsund tímabundin störf hjá einkafyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera. Áætlaður kostnaður við þessar aðgerðir eru 4,5 til fimm milljarðar króna.
Í álitinu, sem þingmenn stjórnarflokkanna þriggja standa að, kemur hins vegar fram að útgjöld vegna allra ráðningastyrkja sem veittir voru á árinu 2021 verði um 11,7 milljarðar króna og að 3,4 milljarðar króna fari í greiðslu þeirra á næsta ári. Samtals gera það 15,1 milljarðar króna.
Munur á upphaflegu kostnaðarmati og raunútkomu og áætlun ársins 2022 skýrist fyrst og fremst af því að ásókn í ráðningarstyrkina varð tvisvar sinnum meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Sótt var um 7.900 styrki í stað fjögur þúsund, líkt og reiknað var með.
Ásókn í aðra styrki tuttugufaldaðist
Ástæðan er sú að samhliða Hefjum störf átaki stjórnvalda margfaldaðist ásókn atvinnurekenda í hina hefðbundnu ráðningarstyrki Vinnumálastofnunar sem kallast Ráðning með styrk. „Í byrjun árs 2021 höfðu aðeins 128 samningar verið gerðir í gegnum það úrræði en þeir voru orðnir 2.800 í nóv. sl. Er því um tuttugufalda aukningu ásóknar að ræða í úrræðið. Þá sköpuðust jafnframt fleiri störf á hinum almenna markaði en áætlað var og kostnaður ríkissjóðs á hvern samning því hærri en í upphaflegu mati þar sem gert var ráð fyrir að fleiri störf sköpuðust hjá sveitarfélögum og félagasamtökum.“
Í álitinu kemur einnig fram að samkvæmt Vinnumálastofnun sé árangur af ráðningarstyrkjum sá að 20 til 30 prósent þeirra sem fari á ráðningarstyrk fari aftur á atvinnuleysisskrá þegar styrkjatímabili samnings lýkur.