„Utanríkisráðuneytið hefur engar upplýsingar umfram það sem hefur komið fram í fjölmiðlum. Ef á reynir verður það kannað nánar.“
Þetta segir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins í svari við fyrirspurn Kjarnans um þau tíðindi að rússnesk stjórnvöld hafa sett níu Íslendinga á svartan lista vegna þátttöku Íslands í refsiaðgerðum Evrópusambandsins vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Sama svar hafa norskir fjölmiðlar fengið frá utanríkisráðuneytinu þar í landi en í tilkynningu sem birtist á vef rússneska utanríkisráðuneytisins í gær segir að „gagnaðgerðin“ beinist einnig gegn sextán Norðmönnum, þremur Grænlendingum og þremur Færeyingum. „Þessum einstaklingum er bannað að koma til lands okkar,“ stendur í tilkynningunni.
Ekki liggur um hvaða einstaklinga er þarna um að ræða, en í tilkynningu rússneska ráðuneytisins er talað um að aðgerðirnar beinist gegn þingmönnum, ráðherrum, fólki úr viðskiptalífinu, fræðimönnum, fjölmiðlafólki og opinberum persónum sem hafi „kynt undir and-rússneskri orðræðu“ og skipulagt og komið í verk stefnumálum sem beinast gegn Rússlandi.
Samkvæmt því sem fram kemur í frétt norska ríkisútvarpsins (NRK) um málið munu einstaklingarnir sem aðgerðir Rússa ná til líklega ekki komast að því að nöfn þeirra eru á „svarta listanum“ fyrr en þeir myndu reyna að komast til Rússlands. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Norðmenn eru beittir sambærilegum refsiaðgerðum. Það gerðist einnig eftir að Rússar tóku yfir Krímskaga árið 2014 en þá beittu vesturveldin þá einnig ýmsum þvingunum.
Ísland hefur tekið undir allar þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússlandi sem gripið hefur verið til í kjölfar þess að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu í lok febrúarmánaðar.
Á vef íslenska utanríkisráðuneytisins má finna yfirlit yfir þær aðgerðir sem Ísland tekur þátt í. Þar á meðal eru ferðabönn og frysting fjármuna tiltekinna einstaklinga. Þessar aðgerðir beinast meðal annars að Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og Sergei Lavrov utanríkisráðherra, en einnig er þeim beint að meðlimum þjóðaröryggisráðs Rússlands sem studdu viðurkenningu sjálfstæðis svæðanna Donetsk og Luhansk í Úkraínu, einstaklingum sem tengjast ríkisreknum fjölmiðlum og einstaklingum úr fjármálageiranum.
Þá ná aðgerðirnar sem Ísland tekur þátt í til flestra þingmanna rússneska þingsins og beinast þær einnig að einstaklingum sem sagðir eru stunda áróðursstarfsemi fyrir rússneska ríkið, lobbíistum og rússneskum auðmönnum.
„Meira síðar...“
Míkhaíl Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi, var boðaður á fund í utanríkisráðuneytinu í gær þar sem honum var tilkynnt að nærveru hans væri ekki óskað við hátíðahöld 17. júní en sendiherrum erlendra ríkja er jafnan boðið til þeirra.
Á fundinum ítrekuðu íslenskir embættismenn fordæmingu stjórnvalda á innrás Rússlands í Úkraínu.
Tilkynningin um „gagnaðgerðirnar“ á vef rússneska utanríkisráðuneytisins í gær er ekki löng. Telur aðeins tvær málsgreinar. En í ensku útgáfu hennar má finna þessa setningu neðst: „Meira síðar...“ (To be continued).