Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans ræddi hvort setja þurfi stífari ramma um starfsemi lífeyrissjóða á ársfjórðungslega fundi sínum í desember í fyrra. Nefndin taldi aukna áhættusækni vegna lágra vaxta og misræmis í líftíma eigna og skuldbindinga þeirra geta verið ógn við fjármálastöðugleika. Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar, sem birt var fyrr í vikunni.
Lágir vextir og misræmi eigna og skulda
Samkvæmt fundargerðinni að lágvaxtaumhverfið gæti skapað nýjar áskoranir fyrir lífeyrissjóðina sem séu kerfislega mikilvægir, sérlega ef ávöxtunarviðmið þeirra eru fyrir ofan áhættulausa vexti í hagkerfinu í lengri tíma.
Þessa stundina eiga lífeyrissjóðirnir að miða við 3,5 prósenta ávöxtun lífeyrisgreiðslna og iðgjalda umfram verðbólgu, samkvæmt reglugerð. Hins vegar eru áhættulausir vextir nokkuð lægri, en til viðmiðunar er ávöxtunarkrafa verðtryggðum ríkisskuldabréfum til lengri tíma í kringum 1 prósent.
Á fundinum var einnig minnst á að meðallíftími skuldbindinga sjóðanna tvöfaldur líftími eignanna. Slíkt misræmi á milli eigna og skulda, til viðbótar við hátt ávöxtunarviðmið í lágvaxtaumhverfi, telur nefndin geta aukið áhættusækni sjóðanna og minni vilja til að binda fjármagn í öruggari innlendri fjárfestingu.
Þetta gæti verið bæði ógn fyrir gjaldeyrismarkaðinn og lausafjárstöðuna í fjármálakerfinu, að mati nefndarinnar, þar sem lífeyrissjóðirnir eiga um og yfir helming af öllum útgefnum verðbréfum.
Lækkun viðmiðs engin töfralausn
Nefndin bætti þó við að ekki væri einsýnt að lækkun ávöxtunarviðmiðs myndi leysa þennan vanda, þótt slík aðgerð væri vissulega einföld, þar sem hún hefði ýmis afleidd áhrif.
Verði viðmiðið lækkað myndi reiknuð eignastaða sjóðanna umfram skuldbindingar þeirra lækka, þar sem búist yrði við minni ávöxtun á fjárfestingum þeirra í framtíðinni. Samkvæmt nefndinni gæti þessi staða sjóðanna lækkað um 7 til 10 prósent ef ávöxtunarviðmið þeirra verður lækkað úr 3,5 prósentum í 3 prósent.
Skoða hvort þurfi stífari ramma
Samkvæmt fundargerðinni þyrftu lífeyrissjóðirnir að taka mið af stöðu þeirra sem ráðandi fjárfesta hér á landi og að þeir væru kerfislega mikilvægir, en eignir þeirra árið 2019 voru 178 prósent af landsframleiðslu.
„Rætt var um að skoða hvort þurfi að setja stífari ramma um starfsemi sjóðanna og víkka út stýritæki fjármálastöðugleika svo að þau nái betur yfir starfsemi,“ stóð svo í fundargerðinni.