Margt hefur breyst til hins betra á undanförnum árum í málefnum sem tengjast eignum Íslendinga á aflandssvæðum og umhverfið í málaflokknum gjörbreyst að mati Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Þetta kom fram í sérstakri umræðu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum sem fram fór í þinginu í dag.
Bjarni sagði að samkvæmt upplýsingum frá Skattinum virtust bæði skattaundanskot og -sniðganga hafa minnkað á undanförnum árum. „Það er að gerast meðal annars vegna upplýsingaskiptasamninga sem við höfum undirritað síðustu ár. Það gætir meira gagnsæis í öðrum ríkjum, sömuleiðis. Breyttar reglur hér á landi. Ný lög skipta máli. Hér má nefna lög um skráningu raunverulegra eigenda og síðast í gær vorum við að samþykkja lög um upptöku sektarákvæða vegna milliverðlagningarmála,“ sagði Bjarni.
Hann sagði það skipta máli að hóflegar og sanngjarnar álögur væri til staðar og hvatarnir til skattaundanskota þar með teknir í burtu. Undir lok ræðu sinnar benti Bjarni á að aflandsfélög sem slík væru ekki ólögleg.
„Hér vil ég að lokum segja að aflandsfélögin sem slík eru ekki ólögleg að íslenskum lögum. Við segjum hins vegar í skattalögunum að við skilgreinum það sem lágskattaríki þar sem tekjuskattur er tveimur þriðju lægri en á Íslandi og við samþykkjum ekki slíka skattlagningu og skattleggjum slíka starfsemi á Íslandi samkvæmt íslenskum skattareglum. Það er lykilatriði. Þessu höfum við verið að breyta á undanförnum árum og þess vegna stendur dálítið upp úr spurningin hvort málshefjandi hér telji að í skattareglunum sé eitthvað ábótavant eða ekki.“
Koma þurfi í veg fyrir aflandsvæðinu Íslands
Málhefjandi umræðunnar var Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og sagði hún í upphafsræðu sinni meðal annars að eftir útkomu skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum hefði verið kallað eftir frekari rannsóknum á umsvifum eigna Íslendinga á aflandssvæðum til að fyrirbyggja skattsvik. Oddný sagði núverandi ríkisstjórn hafa svarað því kalli með því að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra. Hún sagði að í skýrslunni hefði mörgum mikilvægum spurningum verið varpað fram sem vert væri að fá svör við.
Í kjölfarið beindi Oddný spurningum til fjármálaráðherra, meðal annars um hlutdeild aflandsfélaga í eignarhaldi í félögum í úrvalsvísitölu kauphallarinnar og um rannsóknir á milliverðlagningu í vöruviðskiptum.
Þá sagði Oddný að alþjóðleg samvinna hefði aukist á undanförnum árum um aðgerðir gegn skattaskjólum og að þátttaka Íslendinga í slíku samstarfi þyrfti að vera markviss. „Til að koma í veg fyrir að skaðinn sem átti sér stað við aflandsvæðingu Íslands á árunum fyrir bankahrun endurtaki sig Í einhverri mynd verður að rannsaka, kortleggja, vinna að vandaðri lagasetningu og vinna með öðrum þjóðum með notkun skattaskjóla. Skattaskjól eru nýtt af fólki sem vill fela peningana sína fyrir skattinum og láta aðra bera uppi sinn hlut í velferðarkerfinu.“
Þingmenn ósammála um mikilvægi embættis skattrannsóknarstjóra
Fjármálaráðherra rakti í seinni ræðu sinni, undir lok umræðunnar, nokkrar af þeim breytingum sem ráðist hafði verið í til þess að koma í veg fyrir skattaundanskot. Hann klykkti út með orðunum: „Ég þakka fyrir gagnlega umræðu og að lokum þetta: Við vorum ekki að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra heldur sameina það skattinum.“
Embætti skattrannsóknarstjóra hafði verið töluvert til umræðu í þessari sérstöku umræðu. Líkt og áður segir gagnrýndi Oddný að embætti skattrannsóknarstjóra hefði verið lagt niður.
Smári McCarthy sagði í ræðu sinni að sú ákvörðun að leggja embætti skattrannsóknarstjóra og fjármálaeftirlit niður og „fela öðrum vanfjármögnuð stofnunum þau verkefni er á vissan hátt rót vandans.“ Þá sagði hann að sú staðreynd að stofnanir sem þurfa að sinna rannsóknum á skattaundanskotum þurfi jafnvel að reiða sig á gagnaleka sýna að víða sé pottur brotinn. Þá gagnrýndi hann Brynjar Níelsson fyrir að vera þingmaður sem hefur „sérhæft sig í því að stækka gráa svæðið og gera útlínur þess loðnari.“
Brynjar sagði í sinni ræðu að nýlegar breytingar á embætti skattrannsóknarstjóra myndu gera eftirlit með skattaundanskotum betra. „Ég vil líka andmæla því sérstaklega sem kemur alltaf hér fram að það sé verið að reyna að draga úr skatteftirliti í nýlegum lögum. Þar sem skattrannsóknarstjóri var sameinaður skattinum, hann var ekkert lagður niður. Það er ekkert verið að hugsa um að draga úr skatteftirliti nema síður sé, það er verið að gera það betra.“
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um gerði embætti skattrannsóknarstjóra athugasemdir við þá breytingu sem gerð var á embættinu þegar það var lagt af sem sjálfstæð stofnun og varð að einingu innan Skattsins. Í athugasemdunum kom fram að hætta yrði á að sérfræðiþekking myndi glatast. Þá var breytingin einnig sögð ganga gegn tilgangi sínum um að koma í veg fyrir tvöfalda refsingu og tvöfalda málsmeðferð.