Norsk heimili borguðu tvöfalt meira fyrir rafmagnsnotkun á þriðja ársfjórðungi en þau hafa gert á sama tímabili síðustu fimm ár. Á sama tíma hefur hið opinbera hagnast á meiri útflutningsverðmætum olíu og jarðgass, en ríkisstjórn Noregs hyggst ætla að niðurgreiða orkukostnað til heimila þar í landi um allt að helming í vetur.
Hátt verð út veturinn
Samkvæmt nýbirtum tölum frá norsku hagstofunni (SSB) nam meðalverðið á raforku rúmlega 76 norskum aurum, eða um 11,5 íslenskum krónum, á hverja kílóvattstund. Til samanburðar nemur raforkuverðið hérlendis um 5 til 7 krónum á kílóvattstund, samkvæmt reiknivél Orkuseturs.
Verðhækkanirnar eru langmestar í suðurhluta landsins, en samkvæmt nýlegri frétt norska ríkisútvarpsins (NRK) var raforkuverð í Suður-Noregi allt að 13-falt dýrara en í Norður-Noregi á tímabili í síðasta mánuði. Búast má við að verðið muni haldast hátt út þennan vetur og ekki lækka fyrr en í apríl á næsta ári, segir yfirmaður greininga hjá norska fyrirtækinu Volue Insight í samtali við NRK.
Orkuskortur og þurrt sumar
Orkumálaráðuneyti Noregs segir ástæðuna fyrir verðhækkununum vera tvíþættar. Annars vegar fylgi það orkuverð í öðrum Evrópulöndum, sem hefur hækkað töluvert á síðustu mánuðum vegna minnkandi orkubirgða, sérstaklega í formi kola og jarðgass.
Hins vegar hafi lítil úrkoma í Noregi í sumar leitt til þess að minna vatn sé í uppistöðulónunum þar í landi heldur en venjulegt er á þessum árstíma. Þetta gildi sérstaklega fyrir Vestur-Noreg, þar sem haustið hefur verið óvenju þurrt.
Bjóða niðurgreiðslur og bætur
Norska ríkisstjórnin hefur boðað miklar niðurgreiðslur á orkuverði til heimila þar í landi, en í síðustu viku tilkynnti Trygve Slagsvold Vedum, fjármálaráðherra landsins, að raforkan yrði niðurgreidd um tæpan helming frá janúar til mars á næsta ári.
Á hinum vetrarmánuðunum sagði Vedum að niðurgreiðslan myndi nema um níu prósentum. Alls munu greiðslurnar nema 2,9 milljörðum norskra króna, eða um 44 milljörðum íslenskra króna, í fjárlögum næsta árs.
Einnig hafa ríkisstjórnarflokkarnir tveir, Verkamannaflokkurinn og norski Miðflokkurinn, lagt fram frumvarp á norska Stórþinginu um auknar bótagreiðslur til lágtekjuheimila sem búa á þeim landssvæðum þar sem orkuverðið hefur hækkað hvað mest. Samkvæmt miðlinum E24 myndi þetta þýða að allt að 66 þúsund heimili í Suður- og Vestur-Noregi gætu fengið allt að þrjú þúsund norskar krónur, eða um 45 þúsund íslenskar krónur, aukalega í bætur.
Útflutningur á olíu og jarðgasi stóreykst
Á sama tíma og norsk heimili borga meira fyrir raforkuna sína hefur norska ríkið hagnast töluvert á auknum orkuútflutningi til annarra Evrópulanda. Samkvæmt nýrri frétt frá E24var útflutningsverðmæti jarðgass í síðasta mánuði fimmfalt meira en það var á sama tíma í fyrra. Sömuleiðis hefur olíuútflutningur aukist, en útflutningsverðmæti þess var 70 prósent meira í október en það var fyrir rúmu ári síðan.
Norska ríkið á tvo þriðju af öllu hlutafé olíu- og gasframleiðandans Equinor, sem skilaði um 10 milljörðum Bandaríkjadala í hagnaði á síðasta ársfjórðungi. Það jafngildir 152 milljörðum íslenskra króna.