Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR ætlar að bjóða sig fram til forseta Alþýðusambands Íslands á þingi sambandsins sem fram fer í lok október. Ragnar Þór kynnti starfsfólki VR þessa ákvörðun sína á fundi í morgun og var áður búinn að kynna stjórn VR um framboð sitt í gærkvöldi. Hann staðfestir þetta svo sjálfur í samtali við Kjarnann.
Ragnar Þór sagði frá því í upphafi vikunnar að hann ætlaði að tilkynna hvort hann færi fram eða ekki í dag. Síðustu daga hefur hann átt fundi með forystufólki úr aðildarfélögum innan Alþýðusambandsins, til þess að kanna hvort stuðningur við þær hugmyndir sem hann hefur um framtíð sambandsins og áherslubreytingar í störfum þess næðu út fyrir þann hóp stéttarfélaga sem staðið hefðu „dálítið þétt saman“ og átti hann þar við stéttarfélög í Grindavík, Akranesi og svo Eflingu stéttarfélag.
„Ef að viljinn til breytinga nær til dæmis inn í iðnaðarmannasamfélagið og raunverulegur vilji er til að rífa þetta upp og gera þetta að því afli sem þetta apparat á að vera, þá er það mjög spennandi verkefni að taka að sér að leiða,“ sagði Ragnar Þór í samtali við Kjarnann á þriðjudag.
Mun leiða gerð kjarasamninga í haust
Ragnar Þór, sem hefur verið formaður VR frá 2017, staðfestir í samtali við Kjarnann að hann ætli að halda áfram að leiða stjórn VR þó að hann næði kjöri sem forseti Alþýðusambandsins og segir að hann muni sinna þeim verkefnum sem lúta að kjarasamningum sem formaður stjórnar og formaður samninganefndar félagsins.
Hann mun hins vegar eftirláta öðrum að taka við sem starfandi formaður VR ef svo fer að hann nái kjöri og ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður félagsins, en kjörtímabil Ragnars Þórs sem formanns VR rennur sitt skeið snemma á næsta ári.
Ragnar Þór er 49 ára gamall. Áður en hann varð formaður VR hafði hann setið í stjórn VR frá 2009 til 2017. Hann kom að stofnun Hagsmunasamtaka heimilana árið 2009 og sat þar í stjórn, auk þess sem hann sat í stjórn Borgarahreyfingarinnar þegar hún bauð fram til Alþingis og fór svo sjálfur í framboð til Alþingis fyrir hönd stjórnmálaaflsins Dögunar árið 2016.
Sá eini sem hefur tilkynnt um forsetaframboð
Fyrir daginn í dag hafði enginn annar tilkynnt um framboð til forseta ASÍ, en undanfarnar viku hafa nokkrir verkalýðsleiðtogar útilokað að þeir gefi kost á sér. Þeirra á meðal er starfandi forseti ASÍ, Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambandsins, en hann gaf það út í upphafi síðustu viku að hann myndi ekki sækjast eftir embættinu.
Áður höfðu þau Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins og VLFA útilokað framboð til forseta ASÍ í samtölum við fjölmiðla.
Nýr forseti verður kjörinn á þingi ASÍ sem fram fer dagana 10.-12. október á Hótel Nordica í Reykjavík.
Drífa hætti vegna óbærilegra átaka
Drífa Snædal sagði af sér embætti forseta 10. ágúst og sagði hún samskipti við ýmsa kjörna fulltrúa innan sambandsins og sú blokkamyndun sem þar hefði átt sér stað gera sér ókleift að starfa áfram sem forseti.
Í yfirlýsingu sem hún birti er hún tilkynnti um brotthvarf sitt gagnrýndi hún forystu bæði Eflingar og VR og sagðist hafa þurft að „bregðast við linnulausri, en óljósri gagnrýni formanns VR“ á sín störf.
Fréttin hefur verið uppfærð eftir að Kjarninn náði tali af Ragnari.