Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir í samtali við Kjarnann að lífeyrissjóðir virðist ekki hafa mikinn hvata til að leita réttar síns ef grunur leikur á brotlegri eða siðlausri háttsemi stjórnenda fyrirtækja sem þeir fjárfesta í, þrátt fyrir fagurgala um siðferðisviðmið og alþjóðleg samfélagsleg viðmið.
Kjarninn leitaði álits Ragnars Þórs vegna umfjöllunar miðilsins um ásakanir ungrar konu á hendur þriggja valdamanna í íslensku viðskiptalífi. Einn þeirra, Þórður Már Jóhannesson, var stjórnarformaður Festi þangað til í dag og eru stærstu eigendur fyrirtækisins lífeyrissjóðir. Fram kom í umfjöllun Kjarnans að stjórn Festi hefði vitað af málinu í dágóðan tíma og lífeyrissjóðirnir í margar vikur.
Vísar hann í þessu sambandi í viðmið umhverfislegra og félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS) en það eru viðmið sem fjárfestar nota til að meta fjárfestingar út frá aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Félagsleg viðmið snúa að því hvernig fyrirtæki kemur fram við starfsfólk sitt, birgja, viðskiptavini og samfélagið sem það starfar í. Ragnar Þór segir að slík viðmið séu auðvitað orðin tóm ef ekki er farið eftir þeim þegar á reynir.
Enn langt í land að eitthvað breytist
Nefnir Ragnar Þór einnig að fjöldi sakamála sem lífeyrissjóðir fóru í eftir hrun beri vott um að meiri hvati sé til þöggunar en skoðunar. „Samanber Mílu-málið, Bakkavarar-málið, förgun skipa hjá Eimskip og fjölda annarra mála þá hefur lítið heyrst í stjórnum lífeyrissjóðanna, bara hreint ekki neitt. Þrátt fyrir kröfu almennings um viðbrögð.“
Hann telur hins vegar að umræða um hversu virkir og óvirkir eigendur lífeyrissjóðir eiga að vera í fyrirtækjum sé að aukast og margt jákvætt verið að gerast, sérstaklega hjá þeirra sjóði LIVE. „En það er enn langt í land að eitthvað raunverulega breytist.“
Snýst um að komast upp með að gera það sem þeim sýnist
Ragnar Þór segir enn fremur að meðvirknin eigi sér fleiri birtingarmyndir. „Við stingum höfðinu í sandinn fyrir óeðlilegum hagsmunatengslum stjórnmálamanna, tengslum þeirra við skattaskjól eða stórfyrirtæki á meðan kollegar þeirra í Skandinavíu segja af sér fyrir að hafa notað vitlaust kort í strætó.
Fjölmörg dæmi eru um að viðskiptablokkir í miklum minnihluta stjórni fyrirtækjum sem eru að mestu í eigu lífeyrissjóða. Fyrirtækjum og sjóðum sem stjórnað er af nafntoguðu fólki sem hefur orð á sér fyrir að skeyta engu um samfélagsleg áhrif gjörða sinna, skeyta engu um almennt siðferði eða kröfu um óflekkað mannorð. Allt snýst um gróðann og græðgina. Og ekki síst að komast upp með að gera það sem þeim sýnist,“ segir hann.
Oft horft framhjá alvarlegum málum
Varðandi viðtalið við konuna sem um ræðir sem birtist í fyrradag þá segir Ragnar Þór að málið sé auðvitað hrikalegt og að átakanlegt hafi verið að horfa á það. „Við erum óþolandi meðvirkt samfélag,“ segir hann í þessu sambandi.
Hann segir jafnframt að oft sé horft framhjá alvarlegum málum ef þau komast ekki í almenna umræðu eða fara á forsíðu fréttamiðla. „Þetta er ekki ósvipað og afstaða sumra innan KSÍ var á sínum tíma. Að allir vissu en ekkert var aðhafst fyrr en málin komust í hámæli fjölmiðla og urðu óþægileg fyrir það fólk. Heilög ritning PR-fólksins er að þegja af sér hlutina og það virkar best, svona í flestum tilfellum,“ segir hann að lokum.
Hægt er að lesa um viðbrögð lífeyrissjóðanna við málinu í umfjöllun Kjarnans.