Ragnar Þór Ingólfsson var endurkjörinn formaður VR í allsherjaratkvæðagreiðslu til formanns og stjórnar hjá VR sem lauk í dag. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hlaut Ragnar Þór hlaut 63 prósent atkvæða. Ragnar Þór hefur gegnt embætti formanns síðan árið 2017.
Eini mótframbjóðandi Ragnars Þórs var Helga Guðrún Jónasdóttir en hún er fyrrverandi upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar og hefur einnig starfað sem samskiptastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá var hún formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna og hefur sömuleiðis tekið sæti sem varaþingmaður flokksins. Helga Guðrún hefur áður boðið sig fram til formanns VR en hún laut í lægra haldi fyrir Stefáni Einari Stefánssyni í kosningu árið 2011.
Um helstu áherslur Ragnars segir meðal annars á vef um framboð hans: „Að víkka út kjarabaráttu VR enn frekar og halda áfram baráttunni fyrir öllu því sem styrkir stöðu okkar og eykur lífsgæði. Valdefling félagsmanna og aukinn kraftur í starfsmenntamál er svarið við fjórðu iðnbyltingunni með atvinnulýðræði og meiri áhrifum launafólks á vinnustaðnum og að sjóðfélagar kjósi stjórnir lífeyrissjóða og takmarka aðkomu atvinnurekenda að öllu leyti.“
Atkvæðagreiðsla hófst á mánudagsmorgun, 8. mars, og stóð til hádegis í dag. Á kjörskrá voru alls 35.920 félagsmenn. Atkvæðisrétt höfðu allir fullgildir félagar í VR. Þar að auki hafa félagar eldri en 67 ára, sem hætt hafa atvinnuþátttöku vegna aldurs, atkvæðisrétt hafi þeir greitt félagsgjald á 67. aldursári og höfðu greitt félagsgjöld í að minnsta kosti 50 mánuði af 60 á síðustu fimm árunum áður en þeir urðu 67 ára. Fram hefur komið í frétt Vísis að aldrei hafi þátttaka verið jafn mikil en um 28 prósent félagsmanna tók þátt í atkvæðagreiðslunni.