Brynjar Níelsson fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og aðstoðarmaður dómsmálaráðherra segir að þegar lögregla leitar að eftirlýstum mönnum fái hún ábendingar sem hún auðvitað verði að kanna.
Þetta kemur fram í athugasemd á Facebook þar sem hann er spurður hvort hann og dómsmálaráðherra ætli að tjá sig um alvarleika þess að lögregluembættið skuli hafa mætt í fullum skrúða í tvígang til að handtaka 16 ára ungling sem hafði ekkert gert af sér annað en að vera brúnn og með „dreadlocks“. Brynjar var jafnframt spurður hvort allir ungir brúnir menn og strákar þyrftu að vera heima hjá sér þangað til löggan hefur fundið manninn sem þeir töpuðu.
„Það er ekki nýtt að slíkar ábendingar reynist rangar og má segja að slíkt gerist í öllum svona málum. Rauðhærðir og skeggjaðir lenda oft í þessu veseni. Menn þurfa að vera sérkennilega innréttaðir til að sjá rasisma í þessu máli, og jafnvel plebbalegir,“ skrifar hann.
Skelfilegt að hann hafi lent í þessu tvisvar – en lögreglan þarf að bregðast við ábendingum
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði í samtali við RÚV í gær að það væri skelfilegt að saklaus drengur hefði í tvígang lent í að lögregla hafði afskipti af honum því hún taldi hann vera strokufanga. Saklaus ungmenni ættu ekki að þurfa að verða fyrir afskiptum lögreglu og sérsveitar.
„Það er alveg skelfilegt að hann skuli hafa lent í þessu í tvígang. En þarna er lögreglan að bregðast við ábendingum um að þarna sé á ferðinni sá einstaklingur sem við erum að leita að og saklaus drengur verður fyrir því að við þurfum að kanna réttmæti þessara ábendinga,“ sagði Sigríður Björk.
Hún sagði að það væri flókið að koma í veg fyrir að svona gerðist vegna þess að lögreglan vildi fá ábendingar frá almenningi og þyrfti að bregðast við þeim. „En hins vegar þurfum við líka að tryggja það að ungt fólk hérna um göturnar án þess að verða fyrir afskiptum að ástæðulausu af hálfu lögreglu og jafnvel sérsveitar.“
Sigríður Björk hitti foreldra drengsins tvo daga í röð vegna atvikanna. „Þetta var bara mjög gagnlegt að setjast niður og fara yfir stöðuna, bæði þeirra upplifun og þeirra í raun og veru raunveruleika, reyna að setja sig inn í það. Og að sama skapi að fara yfir verkferla lögreglu, finna út hvað við getum gert öðru vísi og betur. En þetta voru gagnleg samtöl en ég vona innilega að við þurfum ekki að setjast niður í þriðja sinn út af sömu ástæðu.“
„Aðstæður eru ekki einfaldar, þær eru flóknar og menn undir álagi hjá lögreglunni“
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is í gær að hann myndi eiga samtal við ríkislögreglustjóra og óska eftir viðbrögðum lögreglu vegna málsins.
Að sögn Jóns er það afar óheppilegt að svona lagað skuli eiga sér stað í þessari starfsemi lögreglu og að það sé mikilvægt að læra af þessu.
Spurður hvort dómsmálaráðuneytið hygðist beina einhverjum tilmælum til lögreglu varðandi verklag og framkvæmd leitarinnar sagðist Jón örugglega leita eftir upplýsingum frá lögreglu en ítrekaði að hvorki ráðuneytið né ráðherra gæti haft einhver afskipti af einstaka málum hjá lögreglunni.
Ráðherrann sagði ennfremur að sýna þyrfti lögreglunni skilning. „Menn þurfa að hafa það í huga að þetta eru erfiðar aðstæður sem lögreglan vinnur við og það þarf að sýna því skilning.“
Benti hann á að lögreglan væri að leita að eftirlýstum einstaklingi sem er talinn hættulegur umhverfi sínu. „Aðstæður eru ekki einfaldar, þær eru flóknar og menn undir álagi hjá lögreglunni.“
Krefst þess að lögreglan breyti verklagi sínu
Móðir drengsins sagði í samtali við Kjarnann í gær að hann hefði verið að algjöru áfalli eftir fyrra atvikið sem átti sér stað í strætó í fyrradag. Hann hefði fengið frí í vinnunni í gær og hefðu þau mæðgin ætlað að eiga stund saman í bakaríi í Mjóddinni en í staðinn mætti lögreglan á svæðið. Hún sagði að það hefði verið niðurlægjandi.
Hún krefst breytts verklags án tafar þar sem barnið hennar sé nú fangi á eigin heimili fyrir glæp sem hann framdi ekki. Vitundarvakning hjá lögreglunni og samfélaginu sé brýn og nauðsynleg.
Drengurinn var sjálfur með ósk sem hann vildi koma á framfæri: „Ég væri til í að geta stigið út úr mínu eigin húsi og vera með vinum mínum án þess að lögreglan stoppi mig fyrir það hvernig ég lít út.“