Þvottabrettið í World Class vill ekki að þú vitir hvernig hann sinnir viðskiptum. Innanríkisráðherra vill ekki að neinn viti hvers lags fantur hún er í raun og veru. Eigendur fjölmiðlafyrirtækis vilja ekki að þú vitir neitt um glæpi þeirra. Útgerðin vill að þú haldir að Evrópa ætli að borða frá þér alla ýsuna þína. Framsóknarflokkurinn vill að þú haldir að þú hafi unnið í lóttóinu. Morgunblaðið vill halda þér eins illa upplýstum og mögulega er hægt.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vill að þú trúir því að nefnd sem er ætluð til að færa almenningi meira vald og aukið gagnsæi sé óþarft prump. Forseti Íslands vill að þú trúir því að framtíð landsins liggi í því að fylkja sér fyrir aftan einhverja hrotta og fara í ísjakaleik.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_09_04/60[/embed]
Þetta er staðan. Þetta er stríðsástand. Fólkið í landinu gegn fólkinu sem vill ekki að þú vitir sannleikann. Fólkið sem vill halda þér hræddum og blekktum. Fólkið sem ber ekki virðingu fyrir nokkrum sköpuðum hlut nema sjálfum sér – þú ert því miður í þeirra heimi, þar sem þeirra hagsmunir eru ofar öllu. Þetta fólk vill peningana þína, með einum eða öðrum hætti, og því er nákvæmlega sama þótt það þurfi að brengla skynjun þína á raunveruleikanum til þess að komast yfir þá.
Framsóknarflokkurinn, sem er meiri one trick pony en sjálfur íslenski hesturinn, hefur nú misst frá sér 23 þúsund kjósendur. Hans 15 mínútur af frægð kostuðu þjóðina ekki nema 80 milljarða, sem er kannski algjört smotterí í stóra samhenginu. En þrátt fyrir að flokkurinn nálgist Pírataflokkinn að stærð er engin undirliggjandi krafa um að maðurinn drulli sér úr forsætisráðuneytinu. Ég meina, hann var að láta snyrta á sér augabrúnirnar og því alveg sjálfsagt að hann fái að nudda þeim aðeins í leðrið þarna uppfrá lengur.
Af hverju fer innanríkisráðherra ekki? Af hverju áttar hún sig ekki á því að hvort sem það er réttlátt eða ekki hafa aðferðir hennar og yfirlýsingar orðið til þess að fólk hefur misst trúna á réttarkerfið og það er miklu stærra og mikilvægara dæmi en hennar kósí mínímalíska heimili.
Hanna Birna – ég veit að þér þótti rosalega óþægilegt að ræða við Stefán Eiríksson um rannsókn lögreglunnar á þínu eigin ráðuneyti en trúðu mér þegar ég segi að okkur kjósendum finnst tilhugsunin um þig gargandi á lögreglustjóra á laugardegi helmingi óþægilegri.
Tilhugsunin um að hennar helstu talsmenn séu Brynjar Níelsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Björn Bjarnason er svo bara eins og hryllingssaga. Ég meina, ef „segðu mér hverjir eru vinir þínir og ég segi þér hver þú ert“-reglan er í gildi, þá ert þú, væna, annaðhvort norn eða tröllkerling í þessu samhengi.
Og Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig í könnunum. What else is new – síðast þegar ég gáði breiðir krabbamein úr sér stöðugt, nema það sé skorið í burtu.
Teningunum var kastað fyrir löngu. Hersveitir Saurons þeysast inn í Miklagarð. Stríðið er í algleymingi og það er kýrskýrt hvað er í húfi; rétturinn til þess að skrifa söguna. Sagan er skrifuð af sigurvegurum og sigurvegarinn er sá sem svífst einskis. Hvernig verður þessi saga skráð þegar fram líða stundir?
Er Reynir Traustason mannorðsmorðingi og handbendi útgerðarmanns? Var Hanna Birna fórnarlamb í ljótum pólitískum leik, sem hún betur fer stóð af sér? Er Mikael Torfason drullusokkur og Ólafur Stephensen vælukjói? Bjargaði millifærsla Framsóknarflokksins efnahag íslenskra heimila? Höfðum við öll rangt fyrir okkur, og þau rétt?
Nútíminn er því miður raunveruleikaþáttur, þar sem heiðarlega fólkið er kosið í burtu við bjarmann af kyndlum á meðan drullusokkarnir sem svífast einskis skrifa bæði reglurnar og frásögnina jafnóðum.