Geta regnskóga til að binda kolefni gæti minnkað samhliða loftslagsbreytingum. Þetta gæti gerst bæði vegna þess að hærra hitastig dregur úr ljóstillífun sem á sér stað í laufblöðum og vegna þess að náttúruleg kælikerfi trjáa hætta að starfa í þurrkum. Hærra hitastig ógnar ákveðnum tegundum í regnskógunum sem eru mikilvæg til bindingar kolefnis.
Þetta er niðurstaða rannsóknar sem unnin var við Háskólann í Gautaborg.
Vissulega eru sumar trjátegundir í hitabeltinu færar um að ráða við hækkun hitastigs – að draga í sig vatn og breyta því í gufu til kælingar. Þetta á einkum við um ung og hraðvaxta tré regnskóganna. Öðru máli gegnir, segir í rannsókninni, um trén í elstu hlutum þeirra. Þau vaxa mun hægar. Stofnar þeirra eru meiri um sig og lauf þeirra ekki jafn fær um að kæla þau með útgufun.
Í tilkynningu frá Gautaborgarháskóla um rannsóknina segir að ísaldir fyrri tíma hafi ekki náð til hitabelta jarðar og því hafi loftslag þar verið stöðugra í sögulegu tilliti en annars staðar.
En með loftslagsbreytingum hefur orðið hlýnun í hitabeltinu og því er spáð að sú þróun eigi eftir að halda áfram. Það hefur, að því er rannsóknin sýna, orðið til þess að ákveðnar trjátegundir hafa látið undan og drepist. „Hingað til höfum við ekki vitað af hverju,“ segir Maria Wittemann, höfundur rannsóknarinnar.
Landnemar og hástigsplöntur
Wittemann hefur rannsakað margar trjátegundir regnskóganna sem hún segir að megi í grófum dráttum skipta í tvennt: Landnema (s. Pionjärarter) og hástigsplöntur (s. Climaxarter). Landnemarnir festa fyrstir rætur er skógur er að þróast en hástigsplöntur, koma til sögunnar þegar meiri stöðugleiki hefur náðst. Slík tré vaxa hægar en verða að lokum stór og mikil. Það eru þau sem binda mest af kolefni regnskóganna.
Hins vegar er stórkostlegur munur á því hvernig trjátegundir í þessum tveimur flokkum fást við hita. Landnemarnir draga í sig vatn, útgufun verður í gegnum laufblöðin sem kælir þau. Þetta er því nokkuð fullkomið kælikerfi. En hástigsplönturnar búa ekki yfir jafn öflugu kælikerfi og eiga þess vegna erfiðara uppdráttar er hitastig hækkar í lengri tíma.
Maria Wittemann segir þetta hafa komið bersýnilega í ljós í rannsóknum hennar. Mikill hitamunur hafi verið í blöðum trjáa þessara tveggja flokka, trjáa sem uxu á sömu svæðum, eða allt að tíu gráður.
Wittemann segir að loftslagsbreytingar gætu líka haft áhrif á landnemana. Útgufunin, kælikerfið þeirra, þarfnast mikils vökva. Á þurrkatímum, sem hafa orðið tíðari og meiri, geta þessi tré ekki ræst kerfið og kælt sig. Því sáu Wittemann og teymi hennar merki um að landnemarnir ættu erfitt uppdráttar í þurrkum. Slík tré hafa þá enga aðra kosti en að fella laufin. Hástigsplöntur eru hins vegar betur í stakk búnar til að fást við þurrka.
Þannig að báðir þessir hópar trjáa gætu misst hæfni sína til að binda kolefni vegna loftslagsbreytinga en við ólíkar aðstæður.
„Niðurstöður okkar sýna að það dregur úr ljóstillífun trjáa þegar laufblöð þeirra hitna,“ segir Wittemann. Það aftur verður til þess að þau drepast því það er hið merkilega fyrirbæri ljóstillífun sem heldur í þeim lífinu.
Með ljóstillífun grænna plantna er koltvíoxíð (CO2) úr andrúmslofti notað til að mynda kolvetni eða sykur. Um leið er vatnssameind (H2O) klofin í frumum til að halda uppi ljóstillífun og afleiðing þess er sú að súrefni (O2) losnar.
Umfangsmikill trjádauði hefur áhrif á allt vistkerfi svæðis. Alls konar dýr og aðrar lífverur lifa í skjóli og af ávöxtum trjáa regnskóganna.
Fyrri rannsóknir á kolefnisbindingu regnskóganna hafa sýnt, segir í tilkynningu Gautaborgarháskóla, að ástandið sé einna verst í Amazon. Þar er því spáð að losun frá skóginum verði orðin meiri en binding árið 2035.
Rannsókn Wittemann og félaga beindist hins vegar að regnskógum Afríku og þar virðist ástandið ekki jafn slæmt. Sjónum var m.a. beint að skógum í Rúanda og rannsóknin unnin í samstarfi við þarlenda vísindamenn.
Í Rúanda er lítið eftir af frumskógi. Honum hefur verið eytt í gegnum tíðina, landið brotið undir jarðrækt í stórum stíl. En nú vilja stjórnvöld breyta um kúrs og fá skógana aftur. Þá verða þau að vita hvaða tegundum eigi að planta í því loftslagi sem nú er og í breyttu loftslagi í nánustu framtíð.