Sænski sjóherinn er undir það búinn að beita vopnavaldi finnist erlendi kafbáturinn sem herinn leitar nú logandi ljósi í skerjagarðinum utan við Stokkhólm. Frá þessu greina sænskir fjölmiðlar í dag. Leitin hefur staðið yfir síðan á föstudag eftir að upplýsingar bárust um „erlendar aðgerðir neðansjávar“ milli skerjanna á Eystrasalti.
„Markmið okkar er að koma þessu upp á yfirborðið, hvað sem það kann að vera… með vopnavaldi ef þörf krefur.“
Orustuskip, tundurspillar, þyrlur og meira en 200 manna herlið hafa leitað á nokkuð stóru svæði yst í skerjagarðinum, einhverjum 30 til 60 kílómetrum frá miðborg Stokkhólms. Þrír gáfu sig fram um helgina og sögðust hafa séð óþekkt sjófar á þessum slóðum. Dagens Nyheter greinir frá því í dag að meira en 100 tilkynningar hafi borist frá sjónarvottum. Upplýsingar sjóhersins benda til þess að um erlent manngert sjófar er að ræða.
„Lykilatriði í þessari aðgerð - þá skiptir engu hvort við finnum eitthvað - er að sýna að Svíþjóð og her landsins er í viðbragðsstöðu virði einhvert ríki landamæri okkar að vettugi,“ sagði Sverker Göranson herforingi. „Markmið okkar er að koma þessu upp á yfirborðið, hvað sem það kann að vera... með vopnavaldi ef þörf krefur.“
Sænski herinn leitar á orustuskipum, tundurspillum og þyrlum auk þess sem meira en 200 manns leita.
Göranson benti jafnframt á gríðarlega erfitt getur verið að fylgjast með og finna kafbáta. Svíþjóð eða nokkru öðru landi hafi aldrei tekist það áður, sagði hann. Leit sænska hersins hefur nú staðið í fimm daga án þess að nokkuð hafi fundist. Einhver herskip hafa verið send út fyrir skerjagarðinn til leitar í Eystrasalti.