Reiknistofa lífeyrissjóða (RL) er búin að segja upp samningi sínum við fyrirtækið Init ehf. sem sér um rekstur og þróun á lífeyris-, iðgjalda- og verðbréfakerfinu Jóakim. Það gerði RL í síðustu viku, samkvæmt tilkynningusem birtist á vef Gildi lífeyrissjóðs í dag.
Fréttaskýringarþátturinn Kveikur greindi frá því undir lok aprílmánaðar að hundruð milljóna króna hefðu streymt út úr félaginu Init, til félags sem heitir Init-rekstur og þriggja annarra félaga.
Á árunum 2013 til 2019 fór tæpur milljarður króna út úr Init til Init-reksturs og félaga í eigu þriggja lykilstjórnenda Intit. Óljóst þótti, samkvæmt skýrslu frá endurskoðendafyrirtækinu KPMG, í hvaða tilgangi þær voru gerðar. Efasemdir voru settar fram um það hvort þessi viðskipti Init við tengda aðila stæðust skattalög.
Í umfjöllun Kveiks kom fram að meira en helmingur allrar innkomu Init á hverju ári hefði runnið út úr félaginu og til þessara fjögurra félaga, sem hefðu enga sjáanlega starfsemi sem gæti útskýrt þessar greiðslur.
Peningarnir sem um ræðir koma frá stéttarfélögum og lífeyrissjóðum, sem hafa einmitt furðað sig á miklum kostnaði við utanumhald Jóakims.
Í tilkynningunni frá RL á vef Gildis segir að þar sem Jóakim sé lykilkerfi í starfi þeirra lífeyrissjóða og stéttarfélaga sem nota kerfið hafi verið lögð áhersla á áframhaldandi rekstur kerfisins næstu mánuði, á meðan RL tekur ákvörðun um næstu skref.
Úttekt á að ljúka fyrir lok mánaðar
Einnig er sagt frá því að gengið hafi verið frá samningi við endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young um úttekt á starfsháttum Init og RL.
„Félagið mun taka út framkvæmd og efndir Init á samningi við RL og sölu félagsins á þjónustu til þriðja aðila. Einnig verður framkvæmd RL á samningnum og eftirfylgni tekin til skoðunar,“ segir í tilkynningunni sem birt er á vef Gildis.
Stefnt er að því að endurskoðunarfyrirtækið skili niðurstöðum fyrir lok þessa mánaðar og að þær verði birtar opinberlega.