Fasteignafélagið Reitir hefur náð samkomulagi við félagið Íslenskar fasteignir ehf. um að síðarnefnda félagið kaupi hinn svokallaða Orkureit, fasteignina Ármúla 31 og allar nýbyggingarheimildir á lóðinni í tengslum við nýtt deiliskipulag sem auglýst hefur verið. Kaupverðið nemur 3,83 milljörðum króna.
Þetta kom fram í tilkynningu Reita til Kauphallarinnar síðdegis í gær, en þar var sérstaklega tekið fram að kaupin nái ekki til fasteignarinnar að Suðurlandsbraut 34, gamla Rafmagnsveituhússins, sem ráðgert er að muni standa áfram á lóðinni.
„Kaupverðið er greitt með peningum við undirritun kaupsamnings. Samkomulagið er gert með fyrirvara um áreiðanleikakönnun á hinu selda og gildistöku deiliskipulags. Gert er ráð fyrir að undirritun kaupsamnings og afhending eigi sér stað á fyrsta ársfjórðungi 2022,“ segir í tilkynningu Reita.
Þar kemur einnig fram að fasteignafélagið skuldbindi sig til samstarfs um hönnun, útfærslu og kaupa á um 1.520 fermetrum af atvinnuhúsnæði sem byggt verður á lóðinni.
Söluhagnaður áætlaður um 1.300 milljónir króna
Í tilkynningu Reita kemur fram að salan muni ekki hafa áhrif á rekstrarafkomu félagsins fyrir yfirstandandi ár, þar sem afhending eignanna muni ekki fara fram fyrr en á næsta ári. Reitir ráðgera að með sölunni muni rekstrarhagnaður félagsins lækka um 70 milljónir á ársgrundvelli, en söluhagnaður vegna viðskiptanna er hins vegar áætlaður um 1,3 milljarðar króna.
Reitir hafa unnið að fasteignaþróunarverkefninu á Orkureitnum undanfarin fimm ár eða svo og hafa forsvarsmenn félagsins áður viðrað þá hugmynd að selja verkefnið í heild sinni eða að hluta.
„Það getur vel verið að verkefnið að hluta til eða öllu leyti verði selt og þeir sem halda á því áfram hafi hærri rödd en við um það hvernig þetta verði nákvæmlega útfært,“ sagði Guðjón Auðunsson forstjóri félagsins í samtali við Kjarnann í mars á þessu ári, en þá hafði hann fyrir hönd Reita undirritað samkomulag við Reykjavíkurborg um uppbyggingu á reitnum.
Deiliskipulagstillagan sem auglýst var í sumar gerir ráð fyrir því að allt að 436 íbúðir verði byggðar á reitnum í 3-8 hæða húsum, ásamt um 4-6 þúsund fermetrum af atvinnuhúsnæði. Hámarksbyggingarmagn á lóðinni samkvæmt skipulagstillögunni nemur rúmlega 44 þúsund fermetrum.