Tryggvi Marteinsson, kjarafulltrúi hjá Eflingu, var rekinn úr starfi í gær eftir 27 ára starf. Hann greinir frá því í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar segir hann að starf hans haf verið „virt að vettugi enda kommúnistar við stjórn. Það er mikil reisn yfir þessu félagi og þetta var það fyrsta sem ný stjórn sýndi til að leysa vandann sem Sólveig skapaði. Skömmin er mikil hjá þeim sem eru titlaðir yfirmenn í dag.“
Í upphaflegri færslu Tryggva sagði hann einnig: „Ég galt þess að vera íslendingur og karlmaður“. Hann breytti færslunni í nótt og tók þá setningu út.
Sú Sólveig sem Tryggvi vísar til er Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, en hún sagði af sér formennsku í síðustu viku.
Í ummælum við stöðuuppfærsluna Tryggva lýsa ýmsir yfir óánægju með ákvörðun Eflingar. Á einum stað spurði maður hvað „gengi að þessu fólki“. Tryggvi svaraði: „þetta er einhver pólsk útgáfa af stéttarfélagi“. Hann eyddi síðar þeim ummælum en skjáskot af þeim má sjá hér að neðan.
Sagður vera sá sem ásakaður er um hótanir
Kjörinn varaformaður Eflingar, Agnieszka Ewa Ziólkowska, tók við embætti formanns stéttarfélagsins á stjórnarfundi fyrir átta dögum. Hún er pólsk að uppruna, en um helmingur félagsmanna í Eflingu eru aðkomufólk. Agnieszka er fyrsti formaður Eflingar sem er af erlendu bergi brotinn.
Á sama fundi var afsögn Sólveigar Önnu úr embætti formanns Eflingar afgreidd. Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sagði einnig upp störfum í síðustu viku.
Stjórn Eflingar fundaði í fyrsta skipti í gær eftir að ný forysta tók við og í kjölfarið var haldinn mánaðarlegur fundur í trúnaðarráði Eflingar.
Í Morgunblaðinu í dag segir að blaðið hafi heimildir fyrir því að Tryggvi sé sá maður sem ásakaður er um að hafa hótað að vinna Sólveigu Önnu mein á meðan að hún var enn formaður Eflingar.
„Augljóslega einhvers konar ofbeldi“
Sólveig Anna greindi frá því máli í viðtali við Kjarnann sem birtist um síðustu helgi án þess að nafngreina Tryggva. Hún sagði að einn af karlkyns starfsmönnum skrifstofu Eflingar hefði „lýst því yfir við annan starfsmann að hann væri mjög reiður út í mig og væri að hugsa um að fara heim til mín og vinna mér þar skaða sem ekki var lýst nánar en var augljóslega einhvers konar ofbeldi.“
Hún hefur ekki tilgreint nánar hvað það var sem maðurinn ætlaði að gera henni en í stöðuuppfærslu á Facebook sagði hún að maðurinn, sem hafi verið ósáttur með að hafa ekki fengið stöðuhækkun, hefði lýst því að hann „hefði í tvö ár rispað bíl manns sem honum var illa við. Það sannaði að honum væri alvara og að hann væri fær um að fremja glæp. Hann bætti því við, að hann hefði ekki áhyggjur af að verða dæmdur í fangelsi vegna þess sem hann kynni gera mér, af því að jafnvel þó að hann yrði dæmdur þá þyrfti hann aldrei að sitja inni, þar sem hann væri með hreint sakavottorð.“
Kallaði Sólveigu Önnu „konuna“
Í viðtalinu við Kjarnann sagði Sólveig Anna: „Þegar mér er tilkynnt um þetta, þessa brjálsemi um að þarna væri maður sem kynni svona illa við mig, væri hættur að tala um mig með nafni heldur kalli mig „konuna“, sem gekk á milli starfsfólks og segið að ég væri fífl og fáviti sem kynni ekki neitt og væri núna farinn að stíga skrefinu lengra og farinn að orða fyrirætlanir sínar um að koma heim til mín og gera mér mein, þá var það mjög erfitt. Þetta var og er allt raunverulegt, staðfest. Ég fæ þessa vitneskju og var mjög brugðið. Ég tók mér marga daga í að íhuga hvað ég ætti að gera. Og aldrei hugsaði ég hvort það ætti að segja honum upp, vegna þess að ég vissi alveg að það myndi ekki geta gerst. Staða mín innan skrifstofunnar væri það slæm. Ég kemst svo að þeirri niðurstöðu að þetta væri mjög alvarlegt, að maðurinn væri farinn að orða þessa óra sína. Að heiftin væri svo mikil að hann geti ekki hamið sig um að lýsa því í frekar miklum smáatriðum að hann ætli að gera þetta. Að hann hafi áður framið glæp og hafi ekki áhyggjur af því að vera dæmdur vegna þess að hann væri með hreint sakavottorð. Ég hugsaði að ég gæti ekki boðið fjölskyldunni minni upp á þetta. Dóttir mín er 21 árs býr á þessu heimili. Átti ég að segja við hana að við værum í einhverskonar umsátursástandi?“
Hún sagðist síðar hafa fengið vitneskju um það að manneskjan sem að hefði móttekið hótunina í smáatriðum, og brugðið svo mikið að hún sagði tveimur öðrum samstarfsmönnum frá, hafi ekki viljað skaða vinnusamband sitt við umræddan mann. Því myndi hún ekki standa við frásögn sína. „Þá ákvað ég að ég gæti ekkert gert án þess að þessi ályktun trúnaðarmanna um að ég væri með „aftökulista“ yrði dregin fram og sett í það samhengi að þessi maður sem væri að hóta mér ofbeldi væri á honum. Það kom svo í ljós núna eftir að ég sagði frá þessu. Þá er sagt að ég sé að ljúga. Að þetta sé uppspuni frá rótum og enginn kannast allt í einu neitt við þetta. Þrátt fyrir að ég sé með þessa frásögn staðfesta í tölvupósti og hafi látið færa það til bókar hjá lögreglunni.“
Sólveig Anna segir að hún hafi haft samband við lögreglu vegna málsins nokkru áður en sú atburðarás sem leiddi til afsagnar hennar hófst í lok október.