Tekjur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, mbl.is og K100, drógust saman um rúm fjögur prósent í fyrra og voru rúmlega 3,2 milljarðar króna. Laun og launatengd gjöld drógust saman um 187 milljónir króna og stöðugildum fækkaði að meðaltali úr 153 í 132, sem þýðir að starfsfólki útgáfufélagsins fækkaði um næstum 14 prósent á síðasta ári.
Heildarlaun og þóknanir til stjórnenda félagsins á árinu 2020 námu 141,8 milljónum króna. Það er hækkun á launum þeirra um næstum fimm prósent á milli ára á sama tíma og öðru starfsfólki var fækkað. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Árvakurs.
Í síðasta mánuði var birt frétt í Morgunblaðinu þar sem því að Árvakur hefði tapað 75 milljónum króna á árinu 2020. Í þeirri frétt fagnaði Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs og annar ritstjóri Morgunblaðsins, því að reksturinn væri að fara í rétta átt þar sem tap væri að minnka.
Í ársreikningi Árvakurs, sem varð aðgengilegur á vef Skattsins í þessari viku, kemur þó fram að rekstrartap félagsins var mun meira, eða 210,3 milljónir króna á síðasta ári. Það er aðeins minna rekstrartap en árið áður þegar það var 245,3 milljónir króna.
Sá munur var á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla árið 2020 miðað við árið 2019 að í fyrra ákvað Alþingi að veita rekstrarstuðning til þess að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldursins, og studdi við fyrirtæki með ýmsum öðrum hætti.
Rekstrarstyrkurinn sem Árvakur fékk nam alls 99,9 milljónum króna, en eitt hundrað milljóna króna þak var á styrkjum til hvers fjölmiðlafyrirtækis. Því má ætla að rekstrartapið hafi verið yfir 300 milljónir króna ef ekki hefði verið fyrir rekstrarstyrkinn.
Alþingi samþykkti undir lok maí að sambærilegir styrkir yrðu áfram veittir einkareknum fjölmiðlum út næsta ár.
Hlutdeild í afkomu dótturfélags breytti umfangi taps
Hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga, sem tengist ekki grunnrekstri Árvakurs, útskýrir þann mun sem er á endanlegri afkomu og rekstrarafkomu, en hún er jákvæð um 160 milljónir króna. Þar skiptir mestu hlutdeild í Landsprenti, sem rekur prentsmiðju sem prentar þorra þeirra prentmiðla sem gefnir eru út á Íslandi, en hún var 144 milljónir króna í fyrra. Ársreikningi Landsprents hefur verið skilað til ársreikningaskrár en ekki verið birtur á heimasíðu Skattsins. Vinnumálastofnun greindi frá því í maí í fyrra að Landsprent væri eitt þeirra fyrirtækja sem hefði nýtt sér hlutabótaleiðina svokölluðu, þar sem ríkið greiddi hluta af launum starfsfólks, fyrir sex starfsmenn eða fleiri.
Árvakur er á meðal stærstu viðskiptavina bæði Landsprents og Póstdreifingar. Í fyrra keypti Árvakur þjónustu af Landsprenti fyrir 570,3 milljónir króna. Útgáfufélagið skuldar hins vegar dótturfélagi sínu líka háar upphæðir, alls 476,5 milljónir króna um síðustu áramót. ÁRvakur keypti þjónustu af Póstdreifingu fyrir 550 milljónir króna í fyrra og skuldaði því félagi 53,6 milljónir króna í lok árs 2020. Þá jukust skuldir Árvakurs við Þórsmörk, félagi utan um eignarhaldið á útgáfufélaginu, um 12 milljónir króna í fyrra. Alls hækkuðu skuldir Árvakurs við tengda aðila um 120 milljónir króna milli ára.
Ákveðin óvissa gæti ríkt um rekstrarhæfi
Í ársreikningi Árvakurs segir að á árinu 2020 hafi verið „unnið að hagræðingaraðgerðum í rekstri félagsins til að mæta þeim rekstrarvanda sem einkareknir fjölmiðlar hér á landi búa við og mun verða haldið áfram á þeirri vegferð til að ná jafnvægi í rekstri þess, en hvenær það næst er erfitt að meta með áreiðanlegum hætti. Það er mat stjórnenda félagsins að ekki sé vafi á rekstrarhæfi félagsins eins og staða þess er í dag. En gangi áætlanir stjórnenda ekki eftir ríkir ákveðin óvissa um rekstrarhæfi félagsins til lengri tíma.“
Sá eigendahópur sem tók við Árvakri árið 2009 hefur samtals lagt félaginu til 1,9 milljarða króna í nýtt hlutafé á rúmum áratug, síðast 300 milljónir króna á árinu 2019. Samanlagt endanlegt tap félagsins á sama tímabili er yfir 2,5 milljörðum króna.
Stærsti eigandinn er Guðbjörg Matthíasdóttir og börn hennar, í gegnum félögin Hlyn A og Ísfélag Vestmannaeyja. Samanlagt á sá hópur 25,5 prósent hlut. Næst stærsti eigandinn eru Íslenskar Sjávarafurðir, í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, með 19,4 prósent eignarhlut.
Mikið tap árum saman og fallandi rekstur á prenti
Endanlegt tap Árvakurs í fyrra, 75 milljónir króna, var það minnsta allt frá árinu 2016, er félagið tapaði 50 milljónum króna. Árið 2017 nam tapreksturinn 284 milljónum og árið 2018 var útgáfufélagið rekið með 415 milljóna króna tapi og 210 milljóna króna halla árið 2019. Rekstrartapið hefur þó oft verið mun meira, líkt og rakið er hér að ofan.
Lestur Morgunblaðsins, sem er stærsti áskriftarmiðill landsins, hefur verið á undanhaldi undanfarin ár. Samkvæmt tölum Gallup um lestur dagblaða á Íslandi lesa nú innan við 20 prósent landsmanna Morgunblaðið og innan við tíu prósent fólks á aldrinum 18-49 ára.
Á sama tíma og lestur prentmiðla dvínar hefur mbl.is, sem um árabil hafði verið mest lesni vefmiðill landsins nær allar vikur ársins samkvæmt vefmælingum Gallup, verið skákað af þeim stalli það sem af er ári. Vísir.is, vefmiðill í eigu Sýnar, hefur náð að taka fram úr hvað fjölda notenda varðar.