Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hélt ræðu á fjölmennum aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í gær, sem fram fór í Hörpu. Óhætt er að segja að ræðan hafi falið í sér ákveðin og sterk skilaboð til atvinnulífsins.
Eitt atriði vakti sérstaka athygli. Það voru orðin sem ráðherra lét falla um bankabónusa. Orðrétt sagði ráðherra: „Óskir um fjórfalda hækkun bankabónusa eru af sama meiði. Bankakerfi í höftum, varið að mestu fyrir erlendri samkeppni, býr ekki til slík verðmæti að það réttlæti að launakerfi þess séu á skjön við aðra markaði og réttlætiskennd almenning.“
Ekki verður betur séð, en að þarna hitti Sigmundur Davíð naglann á höfuðið. Við þær aðstæður sem eru uppi í hagkerfinu þessa dagana, þar sem bankakerfið allt er innilokað í haftabúskapnum sem stjórnmálamenn komu á með lögum í nóvember 2008, er þörfin fyrir bankabónusa engin. Nákvæmlega engin.