Reykjanesbær vill hærri arðgreiðslur frá HS Veitum, til að bregðast við grafalvarlegri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Samkvæmt heimildum Kjarnans er þessa hugmynd að finna í sérstakri aðgerðaráætlun sem Reykjanesbær hyggst ráðast í vegna skuldavanda sveitarfélagsins.
Arðgreiðslur HS Veitna á þessu ári, vegna rekstrarársins 2013, námu 300 milljónum króna, en samkvæmt heimildum Kjarnans mun Reykjanesbær fara fram á að arðgreiðslur á næsta ári vegna yfirstandandi rekstrarárs, verði um 600 milljónir króna.
Reykjanesbær fékk 200 milljónir í arðgreiðslur á þessu ári
Reykjanesbær á í dag rétt ríflega helmingshlut í HS Veitum hf., en sveitarfélagið fékk um 200 milljónir króna í sinn hlut í formi arðgreiðslna á þessu ári vegna rekstrarársins 2013. Þá átti sveitarfélagið tæplega 67 prósenta hlut í veitufyrirtækinu, en síðan þá hefur samlagsfélagið Ursus I, sem er í meirihlutaeigu Heiðars Más Guðjónssonar fjárfestis, eignast fimmtán prósenta hlut Reykjanesbæjar í veitufyrirtækinu. Þá tryggði Ursus sér sömuleiðis ríflega 16,8 prósenta hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Veitum í febrúarmánuði síðastliðnum, fyrir rúma 1,5 milljarða króna. Við söluna samþykkti Orkuveita Reykjavíkur að arðgreiðslur vegna ársins 2013 rynnu í sjóði Ursus, eða um 70 milljónir króna. Endanlegt söluverð hækkaði í samræmi við arðgreiðsluna.
Ef hugmynd Reykjanesbæjar hlýtur framgöngu á meðal hluthafa veitufyrirtækisins, mun sveitarfélagið fá um 300 milljóna króna arðgreiðslu á næsta ári. Aðrir hluthafar í HS Veitum eru eins og áður segir Ursus I, sem fer með ríflega 34 prósenta hlut, Hafnarfjarðarbær, sem á ríflega 15 prósenta hlut, og Sandgerðisbær, sem fer með 0,1 prósents hlut í veitufyrirtækinu.
Sveitarfélagið getur ekki staðið við skuldbindingar
Þann 14. október síðastliðinn sagði DV frá neyðarfundi sem haldinn var í bæjarstjórn Reykjanesbæjar daginn áður, þar sem lögð voru fram frumdrög svartrar skýrslu enduskoðunarfyrirtækisins KPMG um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Samkvæmt heimildum DV skortir bæjarsjóð Reykjanesbæjar 15 milljarða króna til að geta staðið við lögbundnar skuldbindingar sínar um að koma skuldum niður fyrir 150 prósent af árlegum tekjum sveitarfélagsins.
Reykjanesbær hyggst kynna niðurstöður skýrslu KPMG á opnum íbúafundi, sem verður opinn fjölmiðlum, í Stapa á miðvikudaginn. Þar verður samhliða kynnt fyrrgreind aðgerðaráætlun sveitarfélagsins, sem er í samræmi við tillögur KPMG. Áætlunin hefur hlotið nafnið "Sóknin."
Til marks um alvarlega skuldastöðu Reykjanesbæjar hefur varla króna runnið úr sjóðum sveitarfélagsins til niðurgreiðslu skulda á síðastliðnum árum, samkvæmt heimildum Kjarnans.