Reykjavíkurborg segir að ríkið hafi ógnað sjálfbærni sveitarfélaga á Íslandi með því að vanfjármagna ýmis verkefni sem ríkisvaldið ætlar sveitarfélögum að sinna. Þar beri vanfjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks hæst. Þetta kemur fram í umsögn sem fjármála- og áhættustýringarsvið Reykjavíkurborgar hefur gert við fjárlagafrumvarp ársins 2023.
Í umsögninni er dregið saman að borgin líti svo á að vanfjármögnun ríkisins á hinum ýmsu verkefnum sem borgin sinni, stundum í samstarfi við önnur sveitarfélög, nemi yfir 19 milljörðum króna. Þar af sé þjónusta við fatlað fólk, sem færðist frá ríki til sveitarfélaga árið 2011, vanfjármögnuð um 10,8 milljarða króna.
Umsögn borgarinnar er nokkuð hvassyrt, en meðal annars segir þar að sveitarstjórnarlög og lög um opinber fjármál renni styrkum stoðum undir þær leikreglur sem gildi um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.
„Framkvæmd ríkisins á þessum skýru lagaákvæðum hefur ekki verið í samræmi við lagaskyldur og hefur í mikilvægum ákvörðunum litið framhjá þeirri skyldu að meta fjárhagsleg áhrif lagafrumvarpa og annarra áforma ríkisins á fjárhag sveitarfélaga og tryggja þeim fjármuni til að mæta breyttum skyldum,“ segir í umsögn borgarinnar.
Í kjölfarið er svo farið yfir hina ýmsu málaflokka, sem borgin segir að hafi um árabil verið til umræðu í samskiptum ríkis og borgar og séu van- eða ófjármögnuð. Í umsögn borgarinnar segir að listinn sé ekki tæmandi, en hann er þrátt fyrir það ansi langur.
Langstærsti liðurinn er þjónusta við fatlað fólk, sem færðist sem áður segir frá ríkis til sveitarfélaga árið 2011. Borgin segir að þrátt fyrir mikið kostnaðaraðhald hafi þjónusta við málaflokkinn kostað mun meira en framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og viðbótarútvar sveitarfélagsins hafi staðið undir – og upphæðin hafi numið allt að 25,7 milljörðum króna umfram tekjur á tímabilinu 2011-2021.
Hallinn hefur aukist mikið síðustu ár og bendir borgin á að gjöld umfram tekjur hafi numið 5,7 milljörðum árið 2020 og 6,7 milljörðum króna á árinu 2021. Segir borgin að auknar kröfur um þjónustu, sem til koma vegna breytinga á lögum og reglugerðum og alþjóðlegum samþykktum, hafi valdið því að mismunur tekna og gjalda hafi vaxið.
Reykjavíkurborg er síður en svo eina sveitarfélagið sem er í þessari stöðu, og bendir á að niðurstaða starfshóps sem skipaður var til að meta kostnað við málaflokkinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að hallinn á landsvísu hafi verið um 8,9 milljarðar á landsvísu árið 2020 og að búast megi við því að hann hafi verið allt að 12-13 milljarðar á síðasta ári.
„Þar til viðbótar er mikil uppsöfnuð þörf fatlaðs fólks fyrir búsetuúrræði við hæfi. Samanlagt er talið að viðbótarútgjöld sveitarfélaganna vegna uppsafnaðrar þarfar fyrir búsetuúrræði geti varlega áætlað verið 10 ma.kr. í árlegan rekstrarkostnað til nánustu framtíðar. Þar af nemi rekstrarkostnaður vegna uppbyggingar á sértæku húsnæðisúrræði og niðurlagning herbergjasambýla í Reykjavík 3,7 ma.kr.,“ segir í umsögn Reykjavíkurborgar, sem gerir kröfu um að tryggð verði full fjármögnun í samræmi við þær niðurstöður sem fyrir liggi um vanfjármögnun þjónustunnar.
Borgin vill fá jöfnunarframlög til grunnskólastarfs
Í umsögn Reykjavíkurborgar er einnig farið yfir kröfur borgarinnar um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna reksturs grunnskóla og íslenskukennslu barna af erlendum uppruna. Eins og fram hefur komið rekur Reykjavíkurborg nú mál fyrir dómstólum vegna almennra jöfnunarframlaga, þar sem gerð er krafa um að borgin sé ekki útilokuð þeim framlögum á grundvelli stærðar borgarinnar. Sú krafa sem borgin gerir vegna þessa nemur rúmum 5,4 milljörðum króna.
Til viðbótar gerir Reykjavíkurborg svo kröfu um að fá framlög um Jöfnunarsjóði vegna íslenskukennslu barna af erlendum uppruna, en borgin rekur að greiddar séu um 150 þúsund krónur með hverju barni til sveitarfélaga um land allt, utan Reykjavíkur.
„Það að börn af erlendum uppruna í Reykjavík njóti ekki sömu jöfnunarframlaga og annarsstaðar á landinu er óásættanlegt og þess krafist að þetta verði leiðrétt,“ segir í umsögn borgarinnar, en mat borgarinnar er að 412,5 milljónir króna þyrfti til að Reykjavíkurborg væri jafnsett öðrum sveitarfélögum hvað þetta varðar.
Farsældarlögin kosti borgina 800 milljónir ofan á framlag ríkisins
Hin svokölluðu farsældarlög, sem Ásmundur Einar Daðason ráðherra barnamála beitti sér mikið fyrir á síðasta kjörtímabili og samþykkt voru í fyrra, hafa tekið gildi. Reykjavíkurborg segir að í kostnaðarmati ríkisins og mati á áhrifum á fjárhag sveitarfélaga hafi aðallega verið horft til útgjalda vegna málstjóra og tengiliða, en horft hafi verið framhjá kostnaði við að veita aukna þjónustu.
„Í fjárlögum fyrir árið 2022 var 1,1 ma.kr. veitt til Jöfnunarsjóðs til að auka snemmtæka íhlutun í málefnum barna sbr. lög um samþættingu velferðarþjónustu í þágu barna. Það er mat sveitarfélaganna að framlagið sé langt undir þörfum og telja þau fjárþörfina á landsvísu vera nær 3 – 4 ma.kr.,“ segir í umsögn borgarinnar, sem sjálf metur það sem svo að 800 milljónir króna vanti upp á að ríkið fjármagni þá þjónustu sem nýju lögin skyldi sveitarfélagið til að sinna.
Til viðbótar segir borgin að tvö hjúkrunarheimili, á Droplaugarstöðum og í Seljahlíð, sem rekin eru fyrir ríkið á grunni daggjalda, séu ekki fullfjármögnuð af ríkisins hálfu. „Hallarekstur 2011-2020 nam samanlagt 2.684 mkr og á einkum rætur að rekja til þess að ríkið greiddi ekki hluta af stofnkostnaði en miðar daggjöld til borgarinnar við að ríkið hafi greitt 85% stofnkostnaðar. Árið 2021 nam mismunur tekna og útgjalda 337 m.kr.,“ segir í umsögn borgarinnar.
Einnig er sagt mikilvægt að ríkið komi „með afgerandi hætti að því að treysta fjárhagslegan grunn Strætó vegna þeirra fjárhagslega áfalla sem reksturinn hefur orðið fyrir á tímum heimsfaraldurs kórónaveiru og komi áfram að rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með myndarlegum hætti,“ en fjárhagslegt tap Strætó, vegna tapaðra fargjaldatekna í kórónuveirufaraldrinum, er samtals metið á 1,7 milljarða króna samkvæmt umsögn borgarinnar.
Borgin vill hlutdeild í fleiri tekjustofnum
Reykjavíkurborg leggur fram ýmsar tillögur um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Meðal annars vill borgin að tekjur af gistináttaskatti eða brottfarargjaldi renni að minnsta kosti að stærstum hluta til sveitarfélaga „vegna stóraukins álags og viðhaldsþarfar á samgöngumannvirkjum, kostnaðar vegna hreinsunar gatna, gönguleiða og almenningsrýma í kjölfar mikillar fjölgunar ferðamanna“, auk þess sem borgin vill að ríkið greiði sveitarfélögum með beinum hætti tap útsvarstekna vegna skattfrjálsrar úttektar á séreignasparnaði. Fram kemur í umsögn borgarinnar að tekjutap sveitarfélaga vegna þessarra úttekta frá árinu 2014 nemi tæplega 16 milljörðum króna að nafnvirði.
Í umsögn Reykjavíkurborgar um fjárlagafrumvarpið er einnig vikið að því að aldrei hafi verið sýnt fram á raunkostnað sem sveitarfélög greiða ríkinu fyrir það að innheimta útsvar fyrir sveitarfélögin, en innheimtuþóknunin nemur 0,5 prósentum af útsvarsstofni. Vill borgin að þetta verði tekið til endurskoðunar.
Einnig leggur Reykjavíkurborg áherslu á það Alþingi endurskoði lög um tekjuskatt, með það fyrir augum að fella niður fjármagnstekjuskott af lánsviðskiptum innan samstæðu borgarinnar. „Í þessu samhengi er rétt að benda á að eitt af markmiðum fjármálaráðuneytisins er að endurlána ríkisfyrirtækjum í stað þess að heimila þeim lántökur með ríkisábyrgð. Eðlilegt væri að gera sveitarfélög jafnsett ríkinu og fyrirtækjum þess að þessu leyti,“ segir í umsögn borgarinnar um þetta efni.