Sá hluti rekstrar Reykjavíkurborgar sem fjármagnaður er með skatttekjum, svokallaður A-hluti, skilaði 5,8 milljarða króna tapi í fyrra.
Áætlun hafði gert ráð fyrir því að afkoma af rekstri hans yrði jákvæð um 1,5 milljarða króna. Því var afkoma A-hlutans 7,3 milljörðum króna undir áætlun.
Þetta kemur fram í ársreikningi Reykjavíkurborgar sem lagður var fyrir borgarráð í dag.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna þessa segir að rekstrarniðurstaða A-hlutans skýrist einkum af áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Sala byggingarréttar var ofáætluð um 3,2 milljarða króna, skatttekjur voru 2,7 milljörðum króna undir áætlun, launakostnaður var 1,7 milljarði króna yfir áætlun og annar ósundurliðaður rekstrarkostnaður var tæplega 1,2 milljörðum króna yfir áætlun.
Samdráttur í tekjum hjá fyrirtækjum í eigu borgarinnar
Hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.
Samanlagt nam því tap A- og B-hluta Reykjavíkurborgar alls 2,8 milljörðum króna í fyrra. Áætlun hafði gert ráð fyrir hagnaði upp á 11,9 milljarða króna. Því nemur viðsnúningurinn frá áætlun að veruleika alls 14,7 milljörðum króna.
Eignir samstæðunnar voru metnar á 730,4 milljarða króna í lok síðast árs og hækkuðu um 41,5 milljarða króna í fyrra. Skuldir hækkuðu að sama skapi um 40,9 milljarða króna og stóðu í 385,8 milljörðum króna um áramót. Eiginfjárhlutfall Reykjavíkurborgar er nú 47,2 prósent en var 49,9 prósent í lok árs 2019.
Var líka undir áætlun 2019
Afkoma borgarinnar var líka töluvert frá áætlunum árið 2019, áður en að kórónuveirufaraldurinn skall á. á var A-hlutinn rekinn með tæplega 1,4 milljarða króna hagnaði en áætlun hafði gert ráð fyrir hagnaði upp á 3,6 milljarða króna. Því var afkoma A-hlutans þá um 2,2 milljörðum króna undir áætlun.
Meiri bókfærður hagnaður var af rekstri B-hlutans en áætlanir gerðu ráð fyrir árið 2019. Þar skiptir mestu að matsbreytingar fjárfestingaeigna Félagsbústaða skiluðu 3,5 milljörðum króna hærri tekjufærslu en fjárhagsáætlun hafði reiknað með.
Þetta skilaði því að samanlögð rekstrarniðurstaða borgarinnar var 792 milljónum krónum lakari en í fjárhagsáætlun sem gerð hafði verið fyrir árið 2019, eða 11,2 milljarðar króna.
Einn bendir á græna planið, hinn á skuldasöfnun
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir í tilkynningu að Reykjavíkurborg hafi sett fram öfluga endurreisnaráætlun, Græna planið, til að mæta samdrættinum vegna COVID-19. „Það er okkar leið til að snúa vörn í sókn. Borgin stendur sem betur fer vel að vígi til að glíma við efnahagskreppuna en óvissan er engu að síður töluverð. Við sjáum nú vonandi fram á bjartari tíma og að hjólin fari að snúast af fullum krafti.“
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn, einblínir á skuldasöfnun í tilkynningu sem hann hefur sent frá sér vegna uppgjörsins, en flokkur hans er langstærstur þeirra sem mynda minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. „Enn er bætt í skuldsetninguna og engin tilraun gerð til að ná jafnvægi í rekstri. Á sama tíma og fyrirtækin í borginni eru í vanda hefur borgin stækkað báknið gríðarlega enda eru tekin lán fyrir rekstri borgarinnar og fjárfestingum. Reykjavíkurborg er með skatta í botni og glímir því ekki við tekjuvanda, enda hafa allir helstu tekjuliðir hennar hækkað um því sem nemur heilum sex milljörðum á síðasta ári þrátt fyrir dýpstu kreppu lýðveldissögunnar. Vandi borgarinnar er því fyrst og fremst útgjaldavandi en því miður sér ekki fyrir endann á honum í áætlunum borgarstjóra. Vandinn er sá að meirihlutaflokkarnir stuðluðu að skuldasöfnun borgarinnar í mesta tekjugóðæri Íslandssögunnar en hirtu ekki um að hagræða þrátt fyrir fyrirheit um annað í meirihlutasáttmálanum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reyndu ítrekað að benda á þá staðreynd þegar borgin var í miklum færum til þess að greiða niður skuldir en á það var ekki hlustað.“
Hann vill fjölga hagstæðum lóðum í útjaðri borgarinnar, selja Malbikunarstöðina Höfða og ráðast í það sem hann kallar nútímavæðingu í rekstri borgarinnar til að snúa stöðunni við.