Skoðanakönnun sem „áhugahópur um framtíð verkalýðshreyfingarinnar“ lét Gallup framkvæma fyrr í þessum mánuði sýndi að Drífa Snædal naut mests traust hjá stuðningsfólki allra stjórnmálaflokka til þess að leiða ASÍ næstu tvö árin, nema hjá væntum kjósendum Sósíalistaflokks Íslands.
Í þeirra hópi var Ragnar Þór Ingólfsson, sem 20,9 prósent allra þeirra sem á annað borð tóku afstöðu í könnuninni sögðust treysta best til að leiða ASÍ, með mest traust, en 38 prósent kjósenda Sósíalistaflokks sögðu að þau treystu Ragnari Þór best til þess að leiða ASÍ. 32 prósent völdu Drífu, sem sagði af sér sem forseti ASÍ á meðan að verið var að framkvæma könnunina.
Í könnuninni var auk Ragnars Þórs og Drífu hægt að velja á milli verkalýðsleiðtoganna Vilhjálms Birgissonar, Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar.
Væntir kjósendur Vinstri grænna báru samkvæmt könnuninni mest traust til Drífu, en 69 prósent þeirra sögðust helst treysta Drífu til þess að leiða ASÍ. Á meðal kjósenda Samfylkingar sögðust 59 prósent treysta Drífu best, en 22 prósent nefndu Ragnar Þór.
Vilhjálmur á eftir Drífu hjá kjósendum D og B
Hjá væntum kjósendum bæði Framsóknar og Sjálfstæðisflokks treystu 47 prósent Drífu best til að leiða ASÍ, en hjá báðum flokkum mældist traustið næstmest í garð Vilhjálms Birgissonar.
29 prósent þeirra sem sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokk sögðu að Vilhjálmi, sem er formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, væri best treystandi til að leiða ASÍ og 21 prósent þeirra sem sögðust ætla að kjósa Framsókn voru þeirrar sömu skoðunar. Vilhjálmur hefur þó tilkynnt að hann komi ekki til með að bjóða sig fram til forseta ASÍ, og segist sjálfur vilja að Ragnar Þór taki við sem forseti ASÍ.
Örfáir í hópi væntra kjósenda þessara tveggja flokka nefndu Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflingar, sem alls 6,1 prósent þeirra sem tóku afstöðu treystu best til að leiða ASÍ.
Einungis rúmur helmingur svarenda tók afstöðu
Könnun Gallup, sem fjallað var um í Fréttablaðinu í morgun, var lögð fyrir á netinu dagana 4.-15. ágúst. Alls voru 1.673 manns í úrtakinu og þar af svöruðu 842 þeim spurningalista sem lagður var fyrir.
Einungis 466 þeirra tóku þó afstöðu til spurningarinnar sem áhugahópurinn, sem Ólöf Helga Adolfsdóttir ritari Eflingar hefur verið í forsvari fyrir, lét leggja fyrir, eða 55,3 prósent svarenda.
Háskólaborgarar og Reykvíkingar treystu helst Drífu
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, sem nálgast má í heild sinni hér, er töluverður munur á trausti til verkalýðsleiðtoganna eftir bæði menntunarstigi svarenda og búsetu þeirra. Þannig voru þeir svarendur sem tóku afstöðu og höfðu háskólapróf líklegri til að treysta Drífu en aðrir, en 58 prósent þeirra sögðust best treysta Drífu til að leiða ASÍ. Hún naut svo mests stuðnings hjá 50 prósentum þeirra sem lokið hafa framhaldsskólaprófi og 38 prósent þeirra sem höfðu grunnskólapróf treystu Drífu best, sem er öllu lægra hlutfall.
Ef horft er til búsetu kemur í ljós að svarendur búsettir í Reykjavík báru mest traust til Drífu, en 63 prósent svarenda í höfuðborginni sögðust helst treysta Drífu til að leiða ASÍ. Í nágrannasveitarfélögum borgarinnar sögðust 42 prósent helst treysta Drífu, en Ragnar Þór naut mest trausts 27 prósenta svarenda í Kraganum.
Í öðrum sveitarfélögum landsins, landsbyggðunum, sögðust 40 prósent svarenda helst treysta Drífu. Hjá þessum hópi svarenda sögðust 26 prósent treysta Vilhjálmi Birgissyni best til þess að leiða ASÍ, en 20 prósent sögðust helst treysta Ragnari Þór.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar var hvorki marktækur tölfræðilegur munur á svörum ef horft var til kyns, aldurs né fjölskyldutekna.