Rignir af meiri ákefð nú en áður?

Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.

Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Auglýsing

Á ósköp venjulegum fimmtudegi um miðjan ágúst í fyrrasumar þegar COVID lá í tímabundnum dvala, rigndi af mikilli ákefð suðvestanlands. Þar sem ég stóð við stofugluggann heima hjá mér og horfði á regnið belja niður götuna, velti ég því fyrir mér hvort að niðurföll og regnvatnslagnir myndu örugglega ekki anna vatnsflaumnum. Vitanlega brást ekki kerfið frekar en vanalega og dagurinn leið tíðindalítill.

Engu að síður reyndist þetta vera einn fremur fátíðra daga að sumarlagi þegar sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist 20 mm eða meiri. Á síðustu 40 árum hefur svo mikið rignt að jafnaði annað til þriðja hvert sumar. En mest öll úrkoman þarna 13. ágúst 2020 féll á 5-6 klukkustundum.

Úrkomuákefðin var mest 4,4 mm/klst um miðjan daginn. Mjög rakt loft barst til okkar úr suðvestri, upprunnið frá hafsvæðunum austur af Norður-Ameríku. Þar var sjávarhitinn um þetta leyti 2 til 3 stigum hærri en að jafnaði síðsumars.

Í háloftaathugun sem gerð var á Keflavíkurflugvelli í hádeginu þennan dag mátti í 1.000 til 4.000 metra hæð sjá sérlega hlýtt og rakamettað loft. Þegar loft er rakamettað er daggarmarkið það sama og lofthitinn. Í 1.000 metra hæð var daggarmarkið 12 stig. Væri það loft dregið niður til yfirborðs án þess að rakinn félli úr því, jafngilti það 18°C og með 100% raka. Ekki ósvipuð tilfinning og að vera í vel vökvuðu gróðurhúsi á sólardegi, þó að við þær aðstæður geti vissulega orðið hlýrra þar inni!

13. ágúst 2020 kl. 14:08 Skýjabakki á undan kuldaskilum með áköfu regni suðvestanlands. Þennan dag í hnúkaþeynum hlémegin fjalla komst hitinn yfir 26 stig austur á fjörðum og þó var sólarlítið. Þetta reyndist hlýjasti dagur sumarsins. (Veðurstofan, NOAA20-VIIRS)

Við vorum lánsöm að því leyti að bakkinn með rakasta loftinu hreyfðist ákveðið til austurs og þá var loftið stöðugt eins og það er kallað, og getan til uppstreymis var takmörkuð. Aðstæður hefðu getað verið aðrar, úrkomubakinn hægfara eða því sem næst kyrrstæður yfir Höfuðborgarsvæðinu. Eins háloftarastir við landið sem knúið hefðu aukið uppstreymi. Þá hefði úrhellið líka orðið meira og af aukinni ákefð – sannkallað steypiregn.

Flæðir upp úr brunni við Fríkirkjuna í Reykjavík 27. júlí 2015. Þá gerði kröftuga hitaskúr og á Veðurstofunni mældust rúmlega 10 mm á einni klukkustund. Í austurhverfunum rigndi hins vegar lítið sem ekkert. Mynd: Júlíus Sigurjónsson

Mjög staðbundið úrhelli

Í miðborg Óslóar átti fólk á skemmtanagaleiðunni fótum sínum fjör að launa aðfaranótt sunnudagsins 4. ágúst 2019. Þrumuveður með úrhelli barst úr norðri og yfir borgina. Athyglisvert var að steypiregnið var mjög staðbundið. Á kortinu sést að bæði í austur- og vesturhlutanum varð ekki vart við rigningu. Safnað var saman öllum mögulegum mælistöðvum, flestum í görðum áhugafólks frá þeim sem kallast óopinberir mælar. Hæsta gildi sólarhringsúrkomu var 35,4 mm i viðurkenndum mæli, en a.m.k. 23 aðrir mælar sýndu hærri gildi. Veðurratsjá á Óslóarsvæðinu staðfesti trúverðugleika þeirra. Flæddi í kjallara og veggöng. Tjón var verulegt. Lærdómurinn er engu að síður sá að steypiregn getur verið mjög staðbundið. Á verstu stöðunum lyftust brunnlok og vatnið spýttist upp þegar kerfið réði ekki við ástandið.

Úrkomumælingar í Ósló 4. ágúst 2019. Mjög staðbundið úrhelli. Safnað var mælingum héðan og þaðan, ekki eingöngu þeim opinberu á vegum sveitarfélagsins eða Norsku Veðurstofunnar. Handhægar veðurstöðvar í Android stýringu ætluðum almenningi hafa notið vinsælda hjá Norðmönnum. Stöðvarnar eru tengdar alheimsneti og birtast á korti. Nokkrir hér á landi hafa keypt þessar stöðvar eins og sjá má hér: https://weathermap.netatmo.com/ . (Myndin er frá Netatmo.com og birtist í Aftenposten 21. júlí 2021)

Í hönnun er miðað við 5 ára mestu úrkomu

Hér á Íslandi eru fráveitukerfi í þéttbýli hönnuð til að taka við aftakaúrkomu. Grundvöllurinn eru mæligögn og reikningar á fimm ára endukomutíma hámarkssólarhringsúrkomu. Í því skyni hafa verið útbúin stöðluð kort, svokölluð IM5 kort. Veðurstofan réðist nýverið í það verkefni með aðkomu Ofanflóðasjóðs að endurreikna hámarsúrkomuna. Þar var 5 ára regnið í Reykjavík hækkað úr 34 í 42 mm á sólarhring. Þá miðað við Veðurstofuna á Bústaðaveg. Greindar voru lengri mæliraðir og stuðst að auki við endurgreiningu á veðri frá 1979-2016.

En viðbótin í Reykjavík er samt einkum tilkomin vegna annarra aðferða en áður voru viðhafðar, útgildatölfræði, og einnig því að stuðst var við hlaupandi sólarhringsmeðaltöl í stað fastra mælitíma eins og í eldri útreikningum. Nýja IM5 kortið fyrir landið gagnast við hönnun mannvirkja og flóðavarna, en tekið er sérstaklega fram að ekki sé lagt mat á óvissuna sem breytingar á endurkomutíma sem kunna að verða samfara loftslagsbreytingum. Því miður vitum við enn lítið um þessi tengsl hér á landi.

Óvissu þarf að mæta með þekkingu

Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar frá 2018 er einmitt nefnd sérstaklega óvissan sem uppi er um hugsanlega aukna úrkomuákefð samfara hlýnandi loftslagi. Þar er líka tekið fram að aukning í úrkomuákefð sé vart marktæk hér á landi síðustu áratugina.

Nýtt kort, svokallað IM5, sem sýnir 24 stunda úrkomu fyrir atburð með 5 ára endurkomutíma, byggt á sögulegum gögnum. (Úr nýrri skýrslu Veðurstofunnar, VI-2020-008)

Í Danmörku hefur lengi verið starfræktur þverfaglegur vettvangur; “regnudvalget”. Þar er lagt á ráðin um staðla og kröfur um fráveitur, gagnagreiningar úrkomu og mælingar, sem og spár og viðbrögð við aftakaúrkomu. Saman koma verkfræðingar og vísindamenn úr ólíkum greinum, sveitarfélög, stofnanir, tryggingafélög og viðbragðsaðilar. Svipað fyrirkomulag væri æskilegt hér á landi m.a. til fyrirbyggja eins og kostur er skaða af völdum stórrigninga, einkum í þéttbýli. En líka viðbragð við slíkum atburðum sem allar líkur eru á að verði algengari á næstu áratugum samfara hlýnandi loftslagi.

Ég gerði fremur óvísindalega talningu á fjölda rigningardaga að sumri í Reykjavík síðustu 40 árin. Sumarveðráttan var markvert kaldari fyrir aldamót 1981-2000 samanborið við árabilið 2001-2020. Almenna kenningin um tengsl hlýnunar við úrkomubreytingar segir að úrkomudögum ætti að fækka, sérstaklega þegar lítið rignir, en tilvikum aftakaúrkomu muni fjölga. Rigningardagarnir í Reykjavík eru vissulega örlítið færri síðustu 20 árin. Það munar 3 dögum.

Engin greinileg aukning er hins vegar á tilvikum með mikilli sólarhringsúrkomu þegar miðað er við 20 mm á síðustu 40 árum. Meira að segja er veik vísbending um fækkun þeirra! En á það ber líka að líta að eiginleg rigningarsumur hafa verið færri á þessari öld en þau voru 1981-2000. Lofthringrásin hefur í raun verið önnur, að jafnaði þurrara suðvestanlands að sumarlagi, Meira um A- og NA-áttir og minna um SV-áttir.

Með hlýnun fjölgar dögum með mikilli úrkomu.

Á endanum skola öfgarnar í regni einnig hér á land

Hraðsoðinn veðurfarssamanburður eins og þessi segir okkur líka að loftslagsbreytingar geta dulist í áratugi og heppilegra er alla jafna að líta á stærri svæði og varast að draga víðtækar ályktanir frá einni mælistöð. Annar mikilvægur fyrirvari er sá að rými fyrir náttúrulegan breytileika í veðurfari er óvíða meiri en hér við norðanvert Atlantshafið. Jafnvel á tímakvarða áratuga. Því þarf að fara varlega í að hrópa; loftslagsbreytingar! – þegar jafnvel rigningar þykja óvenjulegar eða stakir mánuðir eða ár skera sig úr í hita, sólskini, vindi, loftþrýstingi eða öðru því sem mótar veðurfarið.

Ekkert svar er því enn til við spurningunni um það hvort rigni af meiri ákefð nú en áður. Hins vegar er fátt sem bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannar okkar beggja vegna Atlantshafsins hafa upplifað á síðustu árum.

Auglýsing

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit