Þau 90 prósent landsmanna sem eiga minnst eigið fé eru samanlagt með 52,2 prósent eiginfjárhlutfall í heimilisbókhaldi sínu, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Hópurinn, meginþorri allra Íslendinga, á eignir sem metnar voru á 4.679 milljarða króna í lok síðasta árs og eigið fé hans, eignir umfram skuldir, var 2.446 milljarðar króna.
Í efsta laginu, hjá þeim hópi sem mest eigið fé, er staðan öðruvísi. Hjá 224 ríkustu fjölskyldum landsins voru eignirnar 330,1 milljarðar króna í lok síðasta árs og eigið féð 325,2 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfallið var 98,5 prósent og skuldirnar á bakvið eignirnar einungis 4,9 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um eignir og tekjur ríkasta hóps landsmanna á síðasta ári. Svarið var birt á vef Alþingis fyrr í þessum mánuði.
Hjá ríkasta eina prósentinu, sem telur 2.240 fjölskyldur af þeim 243.855 sem gögn Skattsins ná yfir, námu eignirnar 1.040 milljörðum króna í lok árs 2021, og eigið féð var 995,5 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfallið var því 95,7 prósent og skuldirnar á bakvið eignirnar 44,5 milljarðar króna.
Vert er að taka fram að ríkustu hópar samfélagsins eiga að þorra þeirra verðbréfa sem eru í eigu einstaklinga í landinu. Það þýðir til að mynda hlutabréf í skráðum félögum eða hluti í einkahlutafélögum. Inni í þeim félögum geta verið miklar skuldir.
Flestir eiga sína hreinu eign í steypu
Flestir Íslendingar eiga þorra sinnar hreinu eignar í íbúðarhúsnæði sínu. Eigið fé þeirra 90 prósent landsmanna sem áttu minnst eigið fé um síðustu áramót í fasteignum var 2.374 milljarðar króna. Það þýðir að 87 prósent af eigin fé þeirra var bundið í fasteignum. Hlutfallið er mun lægra hjá efstu tíundinni, eða 65 prósent. Sá hópur er líka mun líklegri til að eiga fleiri fasteignir en íbúðina sem viðkomandi býr í.
Samkvæmt tölum sem Hagstofan birti fyrr á þessu ári var tæplega 76 prósent af þeirri aukningu sem varð á eigin fé í fyrra vegna hækkandi fasteignaverðs. Slík hækkun eru ekki peningar í hendi hjá þeim sem eiga eina eign, og þurfa að búa í henni, þótt auður verði til á blaði samhliða miklum hækkunum. Flestir þurfa að kaupa sér nýja eign ef þeir selja gömlu, og nýju eignirnar hafa líka hækkað að jafnaði jafn mikið í virði. Þótt eiginfjárstaðan batni í opinberum tölum þá fjölgar krónunum sem eru til ráðstöfunar og fjárfestingar ekki, nema að viðkomandi skuldsetji nýju eignamyndunina til að losa um fé.
Hægt að losa um fé í umframeignum
Þeir sem eiga fleiri en eina fasteign, og stunda áhættufjárfestingar með slíkar, geta hins vegatr hagnast vel á svona ástandi. Og losað um þann ávinning en samt átt þak yfir höfuðið.
Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá voru það á fimmta þúsund einstaklingar og lögaðilar, sem áttu á milli sín um 53 þúsund íbúðir í lok síðasta árs. Þá áttu alls 71 einstaklingar og 382 lögaðilar fleiri en sex íbúðir, 155 einstaklingar og 101 lögaðilar áttu fimm íbúðir og 579 einstaklingar og 165 lögaðilar áttu fjórar íbúðir. Fjöldi þeirra einstaklinga sem áttu þrjár íbúðir var 2.974 og fjöldi lögaðila sem áttu sama magn íbúða var 285. Þá áttu 16.501 einstaklingur og 688 lögaðilar tvær íbúðir.
Það sem af er árinu 2022 hefur fjöldi þeirra íbúða sem eru í eigu aðila sem eiga fleiri en eina slíka aukist um 735, og hlutfallslega um 0,2 prósentustig af heildaríbúðareign. Nú eru 14,6 prósent allra íbúða í eigu einhverra sem eiga fleiri en eina íbúð. Ef farið er 15 ár aftur í tímann, til ársins 2006, þá var það hlutfall 10,6 prósent og fyrir árið 2003 var það ætið undir tveggja stafa tölu, allt niður í 8,1 prósent árið 1994.