Í tilkynningu sem send var til Kauphallar Íslands í morgun tilkynning Bankasýsla ríkisins, sem fer með hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka, að umsjónaraðilar útboðs með hluti í bankanum hafi ráðlagt að leiðbeinandi lokaverð fyrir útboðið sem nemur 79 krónur á hvern hlut. „Líkur eru fyrir því að lægri tilboð verði ekki samþykkt“.
Þetta eru efri mörk útboðsbilsins og ef allt sem mögulega er til sölu verður selt, sem er sennilegt í ljósi þess að mikil umframeftirspurn er eftir bréfum í bankanum, mun ríkissjóður fái um 53 milljarða króna fyrir 35 prósent hlutinn sem seldur verður.
Þegar skráningarlýsing Íslandsbanka var birt í byrjun síðustu viku kom fram að hið leiðandi verðbil í því væri frá 71 til 79 krónur á hlut. Miðpunktur þess reiknaði að virði bankans væri 150 milljarðar króna, en eigið fé bankans er 185 milljarðar króna. Nú er ljóst að virði bankans verður vel umfram það enda eftirspurn eftir bréfum langt umfram framboð. Þar þykir ráða mestu að bréfin teljast ódýr, sérstaklega í samanburði við gengi bréfa í Arion banka, hinum kerfislega mikilvæga bankanum sem skráður er á markað.
Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi, Capital World Invsestors og RWC Asset Management hafa þegar skuldbundið sig til að kaupa um það bil tíu prósent af öllu útgefnu hlutafé Íslandsbanka í hlutafjárútboði bankans og verða svokallaðir hornsteinsfjárfestar. Búist er við mikilli þátttöku almennings í útboðinu þar sem að hægt er að skrá sig fyrir mjög litlum hlutum.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í maí að hann vilji selja það sem eftir mun standa af eignarhlut Íslandsbanka við fyrsta tækifæri á næsta kjörtímabili. Ríkið er skuldbundið samkvæmt skilmálum hlutafjárútboðsins að selja ekki fleiri hluti í hálft ár eftir fyrstu sölu. Bjarni sagði við Fréttablaðið í síðasta mánuði: „Ef ég fengi einhverju um það ráðið þá myndum við klára þennan áfanga og við myndum nota fyrsta tækifæri á nýju kjörtímabili til að halda áfram að losa okkur við eignarhluti í bankanum.“ Það verði verkefni næsta kjörtímabils.
Bjarni sagðist líka vilja selja 35 til 50 prósent hlut í Landsbankanum, sem ríkið á líka. Sá hlutur sem ríkið myndi halda væri til þess fallið að tryggja að á Íslandi yrði áfram höfuðstöðvar banka.