Ríkiskaup hafa gert samkomulag við söluvefinn Bland.is um að taka að sér að selja lausamuni fyrir stofnanir ríkisins. Samkomulagið er gert til reynslu og gildir út maímánuð árið 2015. Í frétt um málið á vef Ríkiskaupa segir að tilgangur þessa tilraunaverkefnis sé að „auðvelda stofnunum sölu á lausamunum sínum, s.s. húsbúnaði, tölvubúnaði, skrifstofutækjum og öðrum seljanlegum búnaði eða munum“.
Vegna þessa samkomulags hafa Ríkiskaup og Bland.is sett upp ákveðið verklag. Það felur meðal annars í sér að allar stofnanir ríkisins verða að stofna aðgang á Bland.is. Notendanafn þeirra verður að vera RK og svo stofnananúmer viðkomandi stofnunar. Að öðru leyti skulu stofnanir fara í einu og öllu eftir leiðbeiningum frá Bland.is um hvernig skal staðið að sölu muna á vefnum.
Samkomulagið var undirritað 22. maí síðastliðinn en Ríkiskaup tilkynnti ekki um það á heimasíðu sinni fyrr en í dag, 5. september.
Hægt er sjá samkomulag Ríkiskaupa og Bland.is hér.
Bland er stærsta sölu- og markaðstorg á Íslandi á netinu og hefur verið það um árabil.