Lögreglan hefur í rúman sólarhring leitað að tvítugum karlmanni, Gabríel Douane Boama, sem slapp úr haldi lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur í gærkvöldi. Gabríel var í síbrotagæslu vegna fjölda mála og fór aðalmeðferð í einu máli hans fram í héraðsdómi í gær og flúði hann lögreglu þegar verið var að leiða hann úr dómsal.
Leit hefur ekki borið árangur en í dag barst lögreglu ábending um að Gabríel væri í strætisvagni. Það reyndist ekki rétt en sérsveit ríkislögreglustjóra hafði afskipti af 16 ára unglingi, dökkum á hörund, sem var í vagninum. Lögregla hefur verið gagnrýnd fyrir aðgerðir sínar í dag. Í tilkynningu sem ríkislögreglustjóri sendi frá sér í kvöld segir að um leið og sérsveitarmenn fóru inn í vagninn hafi þeir séð að ekki var um að ræða einstaklinginn sem leitað er að og því hafi þeir yfirgefið vagninn.
Móðir drengsins hafði samband við ríkislögreglustjóra og lýsti áhyggjum af þeirri stöðu sem komin var upp, þar sem ungmenni í minnihlutahópi óttist að vera tekin í misgripum vegna útlits. „Í samtalinu komu fram mikilvægar áherslur sem ríkislögreglustjóri ætlar að bregðast við, þ.m.t. samtal við samfélagið um fordóma,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir einnig að ríkislögreglustjóra þyki leitt að drengurinn hafi í dag orðið hluti af þessum aðgerðum lögreglu en ábending barst um að hann væri sá sem var lýst eftir, sjálfur hafði drengurinn ekkert unnið sér til sakar.
Ríkislögreglustjóri hvetur til varkárni í samskiptum um málið og önnur mál sem tengjast minnihlutahópum. „“Fordómar eiga aldrei rétt á sér. Leit að hættulegu fólki má ekki verða til þess að minnihlutahópar í okkar samfélagi upplifi óöryggi eða ótta við að samferðafólk þeirra tilkynni það til lögreglu án tilefnis,“ segir í tilkynningu ríkislögreglustjóra, sem var meðal annars deilt á Facebook-síðu embættisins.
Borið hefur á rasískum ummælum við fréttir af málinu, bæði í athugasemdakerfum fjölmiðla og á samfélagsmiðlum. Í tilkynningu ríkislögreglustjóra, sem meðal annars er birt á Facebook-síðu ríkislögreglustjóra, segir að fordómafullar athugasemdir verði áfram fjarlægðar af miðlum lögreglunnar um málið og lokað verði fyrir frekari athugasemdir. Ábendingum sem tengjast málinu skulu eftir sem áður berast Lögreglunni í síma 112.
Þarf að fara varlega með valdbeitingu til að viðhalda trausti
Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, telur að störf lögreglu í málinu sýni að það sé frekar við hæfi að auka eftirlit með lögreglu áður en rannsóknarheimildir hennar verði auknar, eins og lagt er til í frumvarpsdrögum dómsmálaráðherra. Í færslu á Facebook bendir hún á að lögreglan er eina stofnunin á Íslandi sem hefur heimild í lögum til að beita borgara ofbeldi.
„Með svoleiðis heimildir í lögum þarf að fara mjög varlega með valdbeitingu til að viðhalda trausti og það að vopnuð sérsveit ásamt tveimur öðrum lögreglubílum taki 16 ára barn úr strætó einungis vegna húðlitar er ekki til þess fallið. Ég get ekki ítrekað hversu hættulegt þetta er ef þetta eru viðbrögð lögreglunnar í hvert skipti sem einhver af öðrum kynþætti er eftirlýstur,“ segir Lenya í færslunni.
Hún hefur áður gagnrýnt frumvarpsdrög dómsmálaráðherra um að efla forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögreglulögum til að að skýra og efla heimildir lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum hvað varðar skipulagða brotastarfsemi og öryggi ríkisins, að því er fram kemur í samráðsgáttinni.
Í síðasta mánuði deildi hún fast á áform ráðherra á þingi. „Lögreglan á að fá auknar heimildir til að njósna um fólk og nálgast gögnin þeirra, ef að lögreglan telur mögulegt að þetta fólk geti hugsanlega orðið glæpamenn í framtíðinni,“ sagði Lenya. Að hennar mati þarf lögregla að sæta öflugara eftirliti eigi hún að fá að sinna öflugara eftirliti.