Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að ekki standi til að afnema verðtryggingu. Þess í stað skoði ríkisstjórnin að lengja lágmarkstíma verðtryggra lána í tíu ár og stytta hámarkstíma þeirra úr 40 árum í 25 ár. Unnið er að frumvarpi um breytingar á verðtryggðum lánum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og mögulegt er að það verði lagt fram á haustþingi. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Alls eru verðtryggð húsnæðislán Íslendinga um 1.200 milljarðar króna. Veitt húsnæðislán eru því að langstærstu leyti verðtryggð, sem tryggir lægri afborganir. Undanfarin misseri, samhliða lágri verðbólgu, hefur orðið aukning í töku verðtryggðra lána. Hjá Landsbankanum voru til að mynda 65 prósent allra nýrra íbúðarlána sem bankinn veitti í fyrra verðtryggð.
Lofuðu afnámi verðtryggingar
Í stefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar 2013 kom skýrt fram að flokkurinn ætlaði sér að afnema verðtryggingu á neytendalánum. Undir þeim lið sagði: „Fyrsta skrefið verði að setja þak á hækkun verðtryggingar neytendalána. Skipaður verði starfshópur sérfræðinga til að undirbúa breytingar á stjórn efnahagsmála samhliða afnámi verðtryggingarinnar, meðal annars til að tryggja hagsmuni lánþega gagnvart of miklum sveiflum á vaxtastigi óverðtryggðra lána. Starfshópurinn skili niðurstöðum fyrir árslok 2013.“
Í stefnuskrá Framsóknar fyrir síðustu kosningar var talað mjög skýrt um að afnema ætti verðtryggingu.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var fjallað nokkuð mikið um verðtryggingu. Þar kom meðal annars fram að leiðrétta ætti verðtryggð lán sem hefðu orðið fyrir verðbólguskoti og að samhliða þeirri skuldaleiðréttingu ætti að „breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð“.
Starfhópur um afnám verðtryggingu skilaði af sér í fyrra og komst að þeirri niðurstöðu að ekki ætti að afnema verðtryggingu.
Vill auka vægi óverðtryggðra lána
Bjarni Benediktsson talar í takt við þá niðurstöðu í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hann að ekki verði lagt upp með að afnema verðtryggingar heldur að auka vægi óverðtryggðra lána. „Við höfum verið að ræða ákveðna hluti, eins og til dæmis hvort rétt væri að lengja lágmarkstíma verðtryggðra lána, en þau geta í dag verið að lágmarki í fimm ár. Það hafa komið fram hugmyndir í þessum hópi um að fara með það upp í tíu ár, þannig að það verði ekki veitt skammtímalán, það er að segja lán til allt að tíu ára, sem eru verðtryggð. Þetta er eitt atriðið.
Annað var að taka til skoðunar hvort við ættum að þrengja að 40 ára verðtryggðum jafngreiðslulánum og fara með þau niður í 25 ár. Það getur gert ákveðnum hópum erfiðara fyrir að standast greiðslumat og fá lán og það þarf að gera sér vel grein fyrir því og tímasetja slíkar aðgerðir vel miðað við stöðuna á húsnæðismarkaðnum, en það er svona hitt atriðið sem við höfum verið að skoða."