Stofnuð verður sérstök Íbúðastofnun sem á að taka við hluta þeirra verkefna sem Íbúðalánasjóður hefur haft á sinni könnu. Meðal annars á Íbúðastofnun að sjá um að veita stofnframlög til bygginga eða kaupa á leiguíbúðum sem eru ætlaðar tekju- og eignalitlum leigjendum. Þetta kemur fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir veturinn, sem hefur verið birt á netinu. Frumvarp um Íbúðastofnun verður eitt þeirra frumvarpa sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hyggst leggja fram í haust.
Íbúðastofnun á líka að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld þegar kemur að mótun húsnæðisstefnu, hún mun annars söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði húsnæðismála og á að meta þörf á búsetuúrræðum.
Rætt hefur verið um breytingar á Íbúðalánasjóði og stofnun nýrrar stofnunar frá því að verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála skilaði sínum tillögum til ráðherra, og frumvarpið sem nú er lagt fram byggir á þeim tillögum.
Matthías Imsland, aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur, sagðist ekki geta gefið Kjarnanum frekari upplýsingar um málið en þær sem koma fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið sé ekki tilbúið. Hann sagðist ekki geta sagt neitt um breytingarnar sem verða á starfsemi Íbúðalánasjóðs með tilkomu þessarar nýju stofnunar.
Kjarninn hefur ekki náð í Hermann Jónasson, forstjóra Íbúðalánasjóðs. Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir stjórnarformaður sjóðsins benti á ráðuneytið þegar rætt var við hana í dag. Hún sagðist ekki geta tjáð sig um málið.
Lögðu til að Íbúðalánasjóði yrði skipt upp
Í tillögum verkefnisstjórnarinnar um framtíðarskipan húsnæðismála var lagt til að Íbúðalánasjóði yrði „breytt varanlega og núverandi verkefnum hans skipt upp, annars vegar í nýtt húsnæðislánafélag og hins vegar verði mörgum þeim verkefnum sem Íbúðalánasjóður sinnir í dag, ásamt viðbótarverkefnum sem lögð eru til af verkefnisstjórn, sinnt sérstaklega af opinberum aðilum“. Húsnæðislánafélagið ætti að reka á sömu forsendum og önnur húsnæðislánafélög, með engri ríkisábyrgð á skuldbindingum þess.
Til þess að finna framkvæmd húsnæðisstefnu stjórnvalda traustan farveg var lagt til að stofnuð yrði Húsnæðisstofnun, ný stofnun húsnæðismála, auk þess sem verkefnum yrði fundinn staður í núverandi stofnanaumhverfi.
„Samhliða þessum breytingum hætti Íbúðalánasjóður lánveitingum samkvæmt núverandi fyrirkomulagi. Lánasafn Íbúðalánasjóðs verði látið renna út og lántakendur sjóðsins fái þjónustu frá húsnæðislánafélagi í eigu ríkissjóðs eða umsýslan verði boðin út.“
Svo virðist því sem boðuð Íbúðastofnun muni hafa svipað hlutverk og Húsnæðisstofnunin sem lögð var til í tillögunum.
Norðvesturnefndin vill að stofnunin verði á Sauðárkróki
Norðvesturnefndin svokallaða, sem skilaði af sér skýrslu til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í desember síðastliðnum, lagði til að höfuðstöðvar slíks nýs húsnæðislánafélags og nýrrar húsnæðisstofnunar yrði á Sauðárkróki. Fréttablaðið greindi frá þessu í apríl síðastliðnum en þá sagði Eygló Harðardóttir að ekki væri búið að taka endanlega ákvörðun, enda hefði stofnunin ekki verið samþykkt af Alþingi. „Þingið mun síðan koma að því hvar staðsetning þeirrar stofnunar á að vera. Fyrst og fremst mun staðsetning stofnunarinnar ráðast af því hvar hún getur á sem auðveldastan hátt sinnt störfum sínum sem best fyrir alla landsmenn,“ sagði hún.
Íbúðalánasjóður dregið saman starfsemi
Í síðustu viku kynnti Íbúðalánasjóður nýtt skipulag, þar sem framkvæmdastjórum var fækkað og starfsemin einfölduð. Þetta er gert í kjölfar þess að vinnu við úrlausn skuldamála í kjölfar hrunsins er að mestu lokið. Nýja skipulagið er liður í stefnumótunarvinnu stjórnar ÍLS í framhaldi af skilum á skýrslu verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála.
Nú ætlar sjóðurinn að „aðlaga reksturinn frekar að kjarnastarfsemi sjóðsins sem er að veita þjónustu í almannaþágu með húsnæðislánveitingum til almennings um allt land,“ samkvæmt því sem fram kom í fréttatilkynningu um málið í síðustu viku. Samhliða þessu ætlar sjóðurinn að halda áfram að selja eignir og draga úr þeim hluta starfseminnar sem tengdist úrlausn skuldamála, enda sé þeirri vinnu að mestu lokið.
Óvissa um framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs hefur verið mikil frá því að verkefnisstjórnin var skipuð. Bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Efnahags- og framfarastofnunin hafa lagt til að sjóðurinn verði lagður niður.