Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að standa ekki nægilega vel við bakið á sveitarfélögunum í landinu í gegnum heimsfaraldurinn, í erindi sem hann hélt á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag.
Þar sagði Dagur að „pólitísk ákvörðun“ hefði verið tekin um að setja sveitarfélög landsins í „fjárhagslega spennitreyju“, sem útlit sé fyrir að þau verði í næstu 4-5 ár.
Hann sagði útlit fyrir að ríkissjóður kæmist hratt út úr faraldrinum, Reykjavíkurborg og önnur stærri sveitarfélög hefðu sömuleiðis möguleika á því að spjara sig, en minni sveitarfélög landsins væru flest einungis rétt að halda sjó í rekstrinum og ættu erfitt með að fara í fjárfestingu eða viðhald, sem hefði reyndar verið „krónískur skortur“ á fyrir faraldurinn líka.
Í erindi Dags kom fram að hann teldi að ríkisstjórnin hefði ekki skilið mikilvægi þess að sveitarfélögin stæðu sterk í gegnum faraldurinn og fjárfestu, en sömuleiðis hefðu sveitarfélögin verið nokkuð ósamstíga í sínum málflutningi um stöðu mála.
Af þeim sökum hefðu viðbrögð ríkisins hvað sveitarfélög varðar einkennst af hiki og að lokum hefði verið skilað auðu, á meðan að hin Norðurlöndin og fleiri ríki hefðu stutt myndarlega við sveitarstjórnarstigið með beinum framlögum.
Í erindi Dags kom einnig fram að hann teldi að á Íslandi væri landlægt vanmat á mikilvægi sveitarfélaga og að skökk sýn væri á fjármálalegan veruleika þeirra. Ríkið færi mun dýpra og hraðar niður þegar gæfi á bátinn, en tekjustofnar sveitarfélaga væru tregbreytanlegri, færu hægar niður og hægar upp á móti.
Það muni því taka lengri tíma fyrir sveitarfélög landsins að vinna sig út úr faraldrinum en þurft hefði að verða. Afleiðingarnar verði þær að efnahagslega áfallið muni bitna á nærþjónustu við íbúa sem sveitarfélög veita, til dæmis í skólunum, sem enginn vilji að verði niðurstaðan, hvorki sveitarfélögin né þau sem fara fyrir ríkisstjórninni.