Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er kolfallinn samkvæmt nýrri könnun Prósents um fylgi flokka sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Flokkarnir þrír sem hana mynda: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, myndu tapa tólf þingmönnum ef kosið yrði í dag og fá 26.
Ellefu af þeim tólf þingmönnum myndu færast yfir til Samfylkingar og Pírata og einn til Viðreisnar. Þeir þrír stjórnarandstöðuflokkar mælast nú með 29 þingmenn, eða þremur fleiri en ríkisstjórnarflokkarnir.
Fylgishrun ríkisstjórnarflokkanna, sem samanlagt mælast nú með 39,9 prósent fylgi – 14,4 prósentustigum minna en í síðustu kosningum – má sennilega að mestu rekja til mikillar óánægju með framkvæmd sölu á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn.
Í nýlegri könnun sögðust 83 prósent aðspurðra vera óánægð með þá framkvæmd og í könnun Maskínu sem birt var í fyrradag kom fram að traust á helstu ráðherra ríkisstjórnarinnar hefur hrunið.
Sjálfstæðisflokkurinn aldrei mælst með minna fylgi
Mestu fylgi tapar Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra. Hann mælist með 17,9 prósent fylgi sem myndi skila tólf þingmönnum. Flokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða í kosningunum 2021 og tapar því 6,5 prósentustigum.
Það er í fyrsta sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn mælist með undir 18 prósent fylgi í stórri fylgiskönnun. Til samanburðar fór fylgi hans lægst niður í 20,6 prósent í einni könnun Gallup skömmu eftir bankahrunið síðla árs 2008, lægst í 22,2 prósent í kringum birtingu Panamaskjalanna í apríl 2016 og lægst í 22,6 prósent í kringum uppreist æru málið haustið 2017, en öll þessi mál felldu ríkisstjórn og leiddu til snemmbúinna kosninga.
Flokkurinn hefur einu sinni áður mælst með undir 19 prósent fylgi í stórri könnun. Það var í könnun MMR sem birt var í nóvember 2019, skömmu áður en að kórónuveirufaraldurinn skall. Þá mældist fylgið 18,1 prósent.
Fylgi Vinstri grænna og Framsóknar minnkað umtalsvert
Hinir stjórnarflokkarnir tveir tapa líka miklu fylgi. Framsóknarflokkurinn hefur tapað 4,9 prósentustigum frá kosningunum í fyrrahaust og mælist með 12,4 prósent fylgi. Hann er nú umtalsvert minni en bæði Samfylking og Píratar samkvæmt mælingum og fengi átta þingmenn í stað 13 ef kosið yrði í dag.
Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, mælist með 9,6 prósent fylgi sem er þremur prósentustigum minna en þau fengu upp úr kjörkössunum í september 2021. Það myndi skila sex þingmönnum, eða tveimur færri en Vinstri græn hafa í dag. Flokkurinn deilir nú 5-6 sæti yfir stærstu flokka á þingi með Viðreisn.
Samfylking og Píratar græða mest fylgi
Þeir flokkar sem hafa grætt mest fylgi á því sem hefur gerst að undanförnu eru Samfylkingin og Píratar. Sá fyrrnefndi mælist nú næst stærsti flokkur landsins með 16,8 prósent fylgi, sem er 6,9 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í kosningunum 2021. Það þýðir að Samfylkingin mælist með um einu prósentustigi minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, sem er munur innan skekkjumarka. Ef kosið yrði í dag, og niðurstaðan yrði í takt við könnun Prósents, myndi Samfylkingin fá jafn marga þingmenn og Sjálfstæðisflokkur, eða tólf talsins. Við það myndi þingflokkurinn tvöfaldast að stærð, en hann telur sex í dag.
Píratar hafa bætt enn meira við sig frá síðustu kosningum, alls 7,4 prósentustigum, og mælast nú með 16,2 prósent fylgi. Það myndi skila flokknum ellefu þingmönnum að óbreyttu sem er fimm fleiri en Píratar hafa nú.
Viðreisn bætir líka við sig fylgi frá síðustu kosningum og mælist 9,6 prósent. Það myndi skila flokknum sex þingmönnum í stað þeirra fimm sem hann hefur í dag.
Samanlagt fylgi þessara þriggja stjórnarandstöðuflokka mælist nú 42,6 prósent, eða 15,8 prósentustigum meira en það sem þeir fengu í kosningunum í fyrrahaust.
Þeir mælast nú með meira sameiginlegt fylgi en ríkisstjórnarflokkarnir og með þremur þingmönnum fleiri.
Miðflokkurinn nær ekki inn manni
Hinir tveir stjórnarandstöðuflokkarnir, Flokkur fólksins og Miðflokkur, hagnast ekki á stöðu mála. Sá fyrrnefndi myndi tapa einu prósentustigi af fylgi frá síðasta hausti ef kosið yrði í dag og fá fimm þingmenn, sem er einum færri en þá. Miðflokkurinn rétt skriði yfir fjögur prósent atkvæða sem myndi ekki duga honum inn á þing.
Flokkarnir yrðu þó áfram átta á Alþingi ef niðurstöður kosninga yrðu í samræmi við könnun Prósents því að Sósíalistaflokkurinn kæmist inn með 5,4 prósent atkvæða, tæki báða þingmenn Miðflokksins og einn frá Flokki fólksins.
Könnunin var framkvæmd 13. til 26. apríl og úrtak hennar var 3.500 manns. Svarhlutfallið var 50,3 prósent og um netkönnun var að ræða úr könnunarhópi Prósents.