Ríkisstjórnin afgreiddi frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um áframhaldandi styrkjagreiðslur til einkarekinna fjölmiðla á fundi sínum á þriðjudagsmorgun.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var það gert í kjölfar töluverðra átaka og með þeirri breytingu að frumvarpið verði einungis látið gilda til eins árs, í stað tveggja líkt og drög þess gerðu ráð fyrir. Sú andstaða sem er til staðar við frumvarpið innan ríkisstjórnarinnar kemur fyrst og síðast frá ráðherrum Sjálfstæðisflokks.
Þá á að skipa nefnd sem á að móta framtíðartillögur um skipulag stuðnings til einkarekna fjölmiðla.
Tæp fimm ár eru síðan að nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla afhenti Lilju skýrslu sína með alls sjö tillögum sem gætu bætt rekstrarskilyrði einkarekinna fjölmiðla. Sú nefnd hafði starfað í meira en ár.
Eina tillaga nefndarinnar, sem leidd var af Björgvini Guðmundssyni, sem ratað hefur í framkvæmd er umrætt styrkjakerfi sem nú á að framlengja til eins árs.
Boðaði nýtt frumvarp til fimm ára
Í styrkjakerfinu felst að 377 milljónum króna verður að óbreyttu veitt í endurgreiðslur á ritstjórnarkostnaði þeirra fjölmiðla sem uppfylla ákveðin framsett skilyrði á næsta ári. Í ár fengu 25 fyrirtæki styrk. Alls 53 prósent upphæðarinnar fór til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs.
Um er að ræða framlengingu á fyrirkomulagi sem verið hefur í gildi frá 2021 en hefur verið framlengt ár frá ári um eitt ár í senn. Sú breyting átti að verða nú að frumvarpið átti að gilda til tveggja ára. Nú liggur fyrir að svo verður ekki.
Í drögum að frumvarpinu kom fram að stefna stjórnvalda væri að innan gildistíma frumvarpsins yrði „lagt fram nýtt frumvarp til fimm ára sem sé í takt við þá þróun sem er að verða á hinum Norðurlöndunum. Þannig verður Ísland ekki eftirbátur hinna landanna er kemur að stuðningi við einkarekna fjölmiðla.“
Á málþingi sem Blaðamannafélag Íslands og Rannsóknarsetur um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands stóðu fyrir í febrúar síðastliðnum boðaði Lilja að hún vildi fara „dönsku leiðina“ í málefnum fjölmiðla. Í Danmörku er DR, danska ríkissjónvarpið, ekki á auglýsingamarkaði og stutt er við einkarekna fjölmiðla með nokkrum mismunandi leiðum með það að markmiði að tryggja fjölræði á fjölmiðlamarkaði.
Styrkirnir nýttust vel
Í greinargerð með drögum þess frumvarps sem nú hefur verið breytt til að koma í gegnum ríkisstjórn sagði að við mat á stuðningi ársins 2021 hafi mátt greina að sá stuðningur sem einkareknir fjölmiðlar fengu hafi nýst afar vel. „Stuðningur við einkarekna fjölmiðla hefur meðal annars gert sumum fjölmiðlum kleift að fjölga stöðugildum á ritstjórn, halda útgáfu óbreyttri, komið í veg fyrir frekara aðhald í rekstri og bætt aðstöðu blaðamanna, svo fátt eitt sé nefnt. Styrkþegar eru sammála um að styrkurinn hafi skipt miklu máli. Þrátt fyrir framangreint hefur komið fram gagnrýni að stuðningskerfið sé ekki nægilega fyrirsjáanlegt en gildistími kafla laganna um stuðning við einkarekna fjölmiðla var einungis til tveggja ára. Til að auka fyrirsjáanleika og stöðugleika kerfisins er gert ráð fyrir að framlengja gildistíma kaflans til tveggja ára og skipa úthlutunarnefnd til sama tíma.“
Ísland er sem stendur í 15. sæti á lista samtakanna Blaðamenn án landamæra um fjölmiðlafrelsi í heiminum. Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru í efstu sætum þess lista.
Framlög til RÚV hækkað ár frá ári
Á sama tíma og fjölmiðlar hafa fengið úthlutað úr styrkjakerfinu þrívegis hafa framlög til RÚV hækkað umtalsvert. Á næsta ári er gert ráð fyrir að þau aukist um 290 milljónir króna og verði 5.375 milljónir króna. Framlög til RÚV voru hækkuð um 430 milljónir króna milli áranna 2021 og 2022 og því munu framlögin hafa hækkað um 720 milljónir króna á tveimur árum, verði fjárlagafrumvarpið samþykkt óbreytt.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði í gær frambreytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga þess efnis að framlög til RÚV verði ekki hækkuð milli ára.
Í umsögn um frumvarpsdrögin sem afgreidd voru úr ríkisstjórn á þriðjudag gagnrýndi Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins og tengdra miðla, meðal annars að stuttur gildistími styrkjakerfisins drægi úr fyrirsjáanleika í rekstri fjölmiðla. „Þá er þetta sérstaklega óheppilegt þegar um er að ræða ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla því að með skömmum gildistíma eru þessi mál til stöðugrar umfjöllunar sem getur sett frjálsa fjölmiðla í óheppilega stöðu gagnvart stjórnvöldum, sen hafa verður í huga að meðal mikilvægra hlutverka frjálsra fjölmiðla er að veita stjórnvöldum aðhald.“
Afleiðing þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi hefur átt sér ýmsar birtingarmyndir. Ein slík birtist í Menningarvísum Hagstofunnar sem birtir voru í fyrrasumar. Þar kom fram að árið 2013 hefðu 2.238 manns starfað í fjölmiðlun á Íslandi. Árið 2020 voru þeir orðnir tæplega 876 talsins. Fækkunin hafði ágerst hratt á síðustu árum. Frá árinu 2018 og út árið 2020 fækkaði starfandi fólki í fjölmiðlum 45 prósent, eða 731 manns. Staðan hefur því versnað hratt í tíð sitjanei ríkisstjórnar.
Samhliða fækkun starfsmanna fjölmiðla hefur launasumma, árleg summa staðgreiðsluskyldra launagreiðslna launafólks, einnig dregist saman meðal rekstraraðila í fjölmiðlun. Árið 2018 var launasumman 8,1 milljarður króna. Árið 2020 var hún hins vegar komin niður í 5,3 milljarða króna og hafði því dregist saman um 35 prósent á tveimur árum.
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir skilyrði fyrir rekstrarstyrk úr ríkissjóði.