Ríkisstjórnin segist hafa náð að ljúka 138 af 189 aðgerðum sem settar voru fram í stjórnarsáttmála hennar þegar Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu ríkisstjórn undir lok árs 2017. Auk þess hafi verið unnar stefnur í 73 málum því til viðbótar.
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem ríkisstjórnin hélt í Grindavík í dag, meðal annars vegna þess að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, kynnti tillögu um þingrof þann 12. ágúst á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Kosið verður til Alþingis 25. september næstkomandi.
Þar sagði Katrín að á fyrri hluta kjörtímabilsins hafi farið töluverð vinna í samtal við vinnumarkaðinn og aðgerðir til að tryggja frið á honum, sem lauk að einhverju leyti með gerð lífskjarasamninganna vorið 2019, og í að leggja grunninn að innviðauppbyggingu.
Seinni hluti kjörtímabilsins hafi farið öðruvísi en búist var við, fyrst vegna náttúruhamfara og svo vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. „Það hefur mikið verk verið unnið á þessu kjörtímabili,“ sagði forsætisráðherra á fundinum í dag.
Lærdómsríkt að vinna með Vinstri grænum
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði ríkisstjórnarsamstarfið hefði gengið vel, sérstaklega sú áhersla að fjárfesta í innviðum. „Við höfum náð að klára flest þau verkefni sem við settum okkur fyrir.“
Hann taldi það líka ríkisstjórninni til tekna að hafa staðið við það að lækka skatta þrátt fyrir þessar aðstæður og mærði sölu ríkiseigna, en þar átti hann sýnilega við sölu á 35 prósent hlut í Íslandsbanka í sumar. Bjarni sagði að í sínum huga væri augljóslega hægt að treysta ríkisfjármálin á komandi kjörtímabili með því að halda áfram á þeirri braut, og selja meira í bankanum. „Þetta hefur verð lærdómsríkt líka, bæði persónulega vil ég segja, undir lok kjörtímabils, að eiga nýjan samstarfsflokk, og það hefur þétt samstarfið að fá krefjandi verkefni í fangið,“ sagði Bjarni að lokum og vísaði þar til fyrsta stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks við Vinstri græn.
Stjórnarskrá og Miðhálendisþjóðgarður út undan
Á meðal þeirra 51 aðgerða sem tilteknar voru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem ekki tókst að ljúka á kjörtímabilinu eru til að mynda breytingar á stjórnarskrá, en frumvarp forsætisráðherra um nokkrar breytingar á henni var ekki afgreitt úr nefnd. Því munu breytingar á stjórnarskrá ekki ná fram að ganga á næsta kjörtímabili.
Annað stórt mál sem komst ekki til framkvæmda, að uppistöðu vegna ósættis innan stjórnarheimilisins, var stofnun Miðhálendisþjóðgarðs.
Önnur mál sem ekki tókst að ljúka eru meðal annars þau að móta eigendastefnu fyrir Landsvirkjun, vinna vegvísi að kolefnishlutlausu Íslandi 2040, finna lausn á húsnæðismálum Listaháskóla Íslands, stuðla að bættu aðgengi landsmanna að öruggu húsnæði, tryggja samfellu í þjónustu og aðstoð við þá sem fá alþjóðlega vernd, tryggja að Ísland nái meðaltali Norðurlandanna er varðar fjármögnun háskólastigsins árið 2025, innleiða keðjuábyrgð í ólíkum atvinnugreinum, stofna Þjóðarsjóð, hækka kolefnisgjald um 50 prósent, efla heilbrigðisþjónustu í framhaldsskólum með áherslu á geðheilbrigði, vinna gegn félagslegum undirboðum, mansali og kennitöluflakki, styrkja stöðu kærenda í kynferðisbrotamálum með því rýna lagaumhverfið, færa tekjur af gistináttagjaldi yfir til sveitarfélaga, skipuleggja framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu, vinna með Reykjavíkurborg og íþróttahreyfingunni að uppbyggingu þjóðarleikvangs í Laugardal, að endurskoða útlendingalög, gera úttekt á kjörum þeirra tekjulægstu í samfélaginu og leggja fram tillögur til úrbóta, styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila, afnema verðtryggingu á neytendalánum og koma í veg fyrir neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins.