Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, segist ekki skilja gagnrýni Heiðu Kristínar Helgadóttur, fyrrum stjórnarformanns flokksins, á Bjarta framtíð og Guðmund Steingrímsson, formann hans. Fylgistap Bjartrar framtíðar sé ekki á ábyrgð Guðmundar fremur en einhverra annarra í forystu flokksins heldur sé það stefna hans sem skipti máli. Róbert segir það barnaskap að halda að einn maður geti híft fylgi flokka upp og niður. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar þar sem rætt var við Róbert.
Þar kom einnig fram að Björt framtíð undirbúi nú flokksfund á fimmtudagskvöldið þar sem rætt verður um stöðu flokksins. Meðal þess sem til greina kemur er að rótera embættum eins og Píratar hafa valið að gera.
Fyrrum stjórnarformaður gagnrýnir flokkinn
Heiða Kristín sagði í viðtali við Kjarnann á þriðjudag að það þyrfti mikið að gerast hjá Bjartri framtíð, flokkinum sem hún tók þátt í að stofna, til að henni finnist ákjósanlegt að stíga inn á þann vettvang á ný, en hún hætti störfum fyrir flokkinn í lok síðasta árs. „Mér finnst vandi Bjartrar framtíðar vera inni í Bjartri framtíð, hann er ekki vandi kjósenda. Vandinn er ekki tilkominn vegna þess að kjósendur skilja ekki flokkinn heldur er hann vandi formannsins [Guðmundar Steingrímssonar] og þeirra sem starfa í Bjartri framtíð,“ sagði Heiða Kristín.
Heiða Kristín bætti síðan í gagnrýni sína í þættinum Vikulokunum á Rás 1 á laugardag. Þar sagðist hún treysta sér fullkomlega til þess að verða formaður Bjartrar framtíðar. Ef það sé vilji fyrir því innan flokksins þá sé hún tilbúin að bjóða sig fram til formanns. Það getur hún gert í september næstkomandi þegar ársfundur flokksins fer fram. Í þættinum gagnrýndi hún Guðmund, formann flokksins sem stofnaði hann með henni á sínum tíma, og sagði hann hafa fengið ágætis tækifæri til að sanna sig en að forysta hans væri augljóslega ekki að virka.
Fylgi Bjartrar framtíðar hefur hríðfallið undanfarið. Í könnun sem MMR birti í vikunni sögðust einungis 4,4 prósent kjósenda ætla að kjósa flokkinn. Miðað við það fylgi myndi Björt framtíð ekki ná inn manni í komandi kosningum. Í nýjustu könnun Gallup mælist fylgi Bjartrar framtíðar fimm prósent Flokkurinn mældist með um 20 prósent fylgi í könnunum í fyrrahaust.
Hrós úr óvæntri átt
Björt framtíð fékk hrós úr óvæntri átt í dag þegar Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hrósaði þingmönnum flokksins í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar gerði Brynjar dalandi fylgi Bjartrar framtíðar að umtalsefni og sagði: "Ekki er ég stuðningsmaður BF. Hvað sem um þingmenn BF má segja finnst mér þeir hafa staðið sig hvað best stjórnarandstæðinga. Duglegir í störfum þingsins, samkvæmir sjálfum sér og umfram flesta aðra stjórnarandstæðinga hafa þeir skilning á þingræðinu. Það er mikilvægt á síðustu og verstu tímum."