Rúm 40 prósent svarenda í kosningabaráttukönnun Íslensku kosningarannsóknarinnar (ÍSKOS) vilja sjá Katrínu Jakobsdóttur formann Vinstri grænna áfram á stóli forsætisráðherra eftir kosningar.
Þetta kemur fram á vef sem Félagvísindastofnun Háskóla Íslands hefur sett upp með niðurstöðum úr könnuninni, en alls hafa 2.171 einstaklingar svarað könnuninni undanfarna 23 daga.
Næstflestir vilja sjá Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins í embætti forsætisráðherra, eða 16 prósent þeirra sem hafa tekið afstöðu til þessarar spurningar. Athygli vekur að það eru umtalsvert færri en telja að þeir komi til með að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum.
Í þriðja sæti í könnuninni er svo Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar, en 9,5 prósent vilja sjá hann taka við lyklunum að Stjórnarráðinu. Þar á eftir koma þau Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata með 8,6 prósent og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar með 8,2 prósent.
Á eftir þeim koma svo Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins með 6,6 prósent og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem 5,8 prósent svarenda vilja sjá taka við af Katrínu sem forsætisráðherra.
Inga Sæland formaður Flokks fólksins og Gunnar Smára Egilsson forsprakki Sósíalistaflokksins njóta svo, hvort um sig, rúmlega 2 prósenta stuðnings til þess að taka við sem forsætisráðherra.
Lestina rekur svo Guðmundur Franklín Jónsson formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins, en 0,2 prósent segjast vilja sjá hann leiða næstu ríkisstjórn.
Könnun sem uppfærist á hverjum degi
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands birti í gær nýja síðu með niðurstöðum úr kosningabaráttukönnun á vegum Íslensku kosningarannsókninnar um kosningaætlan almennings og fleira. Þessar nýju niðurstöður um forsætisráðherrastólinn duttu inn á síðuna í dag. Niðurstöðurnar úr þessari könnun hvað varðar kosningaætlan í komandi kosningum eru þegar byrjaðar að vigta inn í kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar.
Þessi könnun er ólík öðrum sem eru í gangi núna fyrir kosningar að því leyti að hún uppfærist daglega, en á hverjum einasta degi er könnunin send á 184 einstaklinga sem svara því hvað þeir myndu kjósa ef gengið væri til kosninga í dag. Hægt er að leika sér með tölurnar og skipta niðurstöðum upp eftir því hvort karlar eða konur svara eða eftir aldurshópum.
Fylgi flokka og sömuleiðis svörin við öðrum spurningum sem birtast eru uppfærð á hverjum degi og þannig er hægt að merkja hvernig þróunin er, samkvæmt mælingunum.