Mynd: Samsett

Ríkisstjórnin fallin og framtíðin virðist geta ráðist á miðjunni

Nýjasta kosningaspá Kjarnans sýnir sviptingar í fylgi flokka sem breyta möguleikum á myndum meirihlutastjórna umtalsvert. Skyndilega eru miðjuflokkar komnir í kjörstöðu, leiðir Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn virðast hverfandi og Vinstri græn eiga á hættu að sitja eftir í stjórnarandstöðu.

Rík­is­stjórnin er fallin sam­kvæmt nýj­ustu kosn­inga­spá Kjarn­ans og Bald­urs Héð­ins­son­ar. Sam­eig­in­legt fylgi stjórn­ar­flokk­anna þriggja mælist nú 46,6 pró­sent og hefur ekki mælst lægra síðan að farið var að keyra kosn­inga­spánna í apr­íl. 

Hægt yrði að mynda þrjú mis­mun­andi mynstur af fjög­urra flokka meiri­hluta­stjórnum sem inni­halda ekki Sjálf­stæð­is­flokk­inn miðað við núver­andi stöðu. Og allar þeirra mæl­ast með meira fylgi en rík­is­stjórn sitj­andi stjórn­ar­flokka: Vinstri grænna, Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar.

Sú þeirra sem myndi hafa mest fylgi er rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Vinstri grænna, Fram­sókn­ar­flokks og Pírata með 49,2 pró­sent fylgi. Miðju­flokk­arnir fjór­ir: Sam­fylk­ing, Fram­sókn­ar­flokk­ur, Píratar og Við­reisn gætu líka myndað rík­is­stjórn og skilið Vinstri græn eftir í stjórn­ar­and­stöðu, en sam­eig­in­legt fylgi þeirra mælist nú 47,9 pró­sent.

Niðurstöður kosningaspárinnar 15. september 2021

Rík­is­stjórn sem sam­anstendur úr þeim flokkum sem eru með meiri­hluta í Reykja­vík, Sam­fylk­ingu, Vinstri græn­um, Pírötum og Við­reisn, mælist svo með 47,8 pró­sent fylgi.

Vert er þó að taka fram að allir ofan­greindir mögu­leikar velta á því að Flokkur fólks­ins fái einn kjör­dæma­kjör­inn þing­mann og nái ekki upp fyrir fimm pró­sent þrösk­uld­inn til að fá jöfn­un­ar­menn. Nái Flokkur fólks­ins tveimur kjör­dæma­kjörnum þing­mönnum inn, eða bæti lít­il­lega við sig fylgi, þá breyt­ist staðan umtals­vert og gerir fjög­urra flokka meiri­hluta­stjórnir sem sam­an­standa af miðju- og vinstri­flokkum ósenni­legri.

Eng­inn mögu­leiki er á myndun þriggja flokka stjórnar þar sem Sam­fylk­ing og Píratar hafa bæði úti­lokað sam­starf með Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Leið þess flokks í rík­is­stjórn liggur því sem stendur í gegnum það að sitj­andi rík­is­stjórn sann­færi annað hvort Við­reisn eða Mið­flokk um að ganga til liðs við stjórn­ina, standi vilji þeirra til að starfa áfram saman á slíkum for­send­um. Hinn mögu­leiki Sjálf­stæð­is­flokks liggur í því að skipta Vinstri grænum út fyrir Við­reisn og Mið­flokk og mynda þannig fjög­urra flokka stjórn með Fram­sókn­ar­flokkn­um. Í slíkri rík­is­stjórn myndu þá sitja þeir tveir flokkar sem oft­ast hafa stýrt Íslandi og nýleg klofn­ings­fram­boð úr þeim báð­um. 

Þá væri hægt að mynda fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri með aðkomu Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar­flokks, Pírata, Vinstri grænna og Við­reisnar sem væri með rúm­lega 60 pró­sent atkvæða á bak­við sig og myndi lík­ast til fá allt að 40 þing­menn af 63. 

Er fram­tíðin að fara að ráð­ast á miðj­unni?

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hefur keyrt sína kosn­inga­bar­áttu á tveimur slag­orð­um. Annað er í formi spurn­ingar þar sem spurt sé hvort „það sé ekki bara betra að kjósa Fram­sókn?“. Hitt full­yrðir að fram­tíðin ráð­ist á miðj­unn­i. 

Auglýsing

Ýmis­legt bendir til þess að sífellt fleiri séu að falla fyrir fyrra slag­orð­inu og nokkur aug­ljós til­hneig­ing hefur verið hjá kjós­endum að færa sig yfir á miðju­flokk­anna á síð­ustu vik­um, líkt og rakið var hér að ofan.

Fimm flokkar skil­greina sig við miðju íslenskra stjórn­mála. Þeir eru, auk Fram­sókn­ar, Sam­fylk­ing­in, Pírat­ar, Við­reisn og Mið­flokk­ur. Allir nema Mið­flokk­ur­inn hafa bætt ágæt­lega við sig und­an­farið en hann er líka sá flokkur sem ósenni­leg­ast er að hinir flokk­arnir á miðj­unni myndu vilja vinna með. Sam­fylk­ingin og Píratar hafa til að mynda gefið það út opin­ber­lega að ekki sé grund­völlur fyrir sam­starfi við Mið­flokk­inn.

Fram­sókn mælist nú með 12,2 pró­sent fylgi eftir að hafa náð að kljúfa tólf pró­senta múr­inn í fyrsta sinn á þessu ári með kosn­inga­spá sem gerð var í byrjun viku. 

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda kosninga til Alþingis 2021.
B C D F M P S V Aðrir

Sam­fylk­ingin er einnig að hress­ast umtals­vert og mælist nú með 12,6 pró­sent fylgi. Hún hefur ekki mælst með svo mikið fylgi síðan í lok apríl og hefur nú end­ur­heimt sæti sitt sem næst stærsti flokkur lands­ins, þótt ekki megi miklu muna. Píratar rífa sig einnig upp eftir að hafa dalað framan af ágúst­mán­uði og mæl­ast nú með 12,1 pró­sent fylgi. Við­reisn mælist svo með 10,9 pró­sent fylgi, sem er það mesta sem flokk­ur­inn hefur mælst með í kosn­inga­spánni síðan í byrjun jún­í. 

Frjáls­lyndu miðju­flokk­arn­ir, Sam­fylk­ing, Píratar og Við­reisn fengu sam­tals 28 pró­sent atkvæða í kosn­ing­unum 2017. Þeir eru nú með 35,6 pró­sent og hafa sam­an­lagt aukið fylgi sitt um 7,6 pró­sent á kjör­tíma­bil­in­u. 

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn í lægð

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn mæld­ist með 24,1 pró­sent fylgi í byrjun sept­em­ber­mán­að­ar. Síðan þá hefur flokk­ur­inn tapað tveimur pró­sentu­stigum og mælist nú með 22,1 pró­sent fylgi. Það er minnsta fylgi sem Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefur mælst með í kosn­inga­spánni í aðdrag­anda þess­ara kosn­inga. Þetta fall, verði það að veru­leika, mun skipta sköpum um mögu­leika flokks­ins á að mynda rík­is­stjórn. Það myndi einnig þýða að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn fengi sína verstu nið­ur­stöðu í sögu sinni og fá 1,5 pró­sentu­stigi minna en flokk­ur­inn fékk í fyrstu kosn­ing­unum eftir banka­hrun­ið, árið 2009. 

Bjarni Benediktsson getur verið hugsi yfir stöðu flokks síns nokkrum dögum fyrir komandi kosningar.
Mynd: Bára Huld Beck

Annar flokkur sem tapar nokkuð milli kosn­inga­spáa er Sós­í­alista­flokkur Íslands. Hann mælist nú með 6,8 pró­sent fylgi en var með yfir átta pró­sent fylgi í síð­ustu viku. 

Mið­flokk­ur­inn bætir lít­il­lega við sig og skríður aftur upp fyrir sex pró­sent markið á meðal að Flokkur fólks­ins fellur niður í 4,5 pró­sent og næði lík­ast til ein­ungis einum manni inn.

Auglýsing

Þær kann­anir sem liggja til grund­vallar nýj­ustu kosn­inga­spánni eru eft­ir­far­andi:

  • Skoð­ana­könnun MMR í sam­starfi við Morg­un­blaðið 8 – 10. sept­em­ber (vægi 14,6 pró­sent)
  • Skoð­anna­könnun ÍSKOS/­Fé­lags­vís­inda­stofn­unnar 23. ágúst – 13. sept­em­ber (14,8 pró­sent)
  • Skoð­ana­könnun Pró­sent í sam­starfi við Frétta­blaðið 2 – 7. sept­em­ber (14,8 pró­sent)
  • Þjóð­ar­púls Gallup 30. ágúst-12. sept­em­ber (vægi 20,1 pró­sent)
  • Skoð­ana­könnun Mask­ínu í sam­starfi við Frétta­stofu Stöðvar 2, Bylgj­unnar og Vísis 8 – 13. sept­em­ber (35,7 pró­sent)

Hvað er kosn­­inga­­spá­in?

Fyrir hverjar kosn­ingar um allan heim birta fjöl­miðlar gríð­ar­legt magn af upp­lýs­ing­um. Þessar upp­lýs­ingar eru oftar en ekki töl­fræði­leg­ar, byggðar á skoð­ana­könn­unum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upp­lifir stjórn­málin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórn­mála­fræð­ingar og fjöl­miðlar kepp­ast svo við að túlka nið­ur­stöð­urnar og veita almenn­ingi enn meiri upp­lýs­ingar um stöð­una í heimi stjórn­mál­anna.

Auglýsing

Allar þessar kann­anir og allar mögu­legar túlk­anir á nið­ur­stöðum þeirra kunna að vera rugl­andi fyrir hinn almenna neyt­anda. Einn kannar skoð­anir fólks yfir ákveðið tíma­bil og annar kannar sömu skoð­anir á öðrum tíma og með öðrum aðferð­um. Hvor könn­unin er nákvæm­ari? Hverri skal treysta bet­ur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vand­inn er að hinn almenni kjós­andi hefur ekki for­sendur til að meta áreið­an­leika hverrar könn­un­ar.

Þar kemur kosn­inga­spáin til sög­unn­ar.

Kosn­­­inga­­­spálíkan Bald­­­urs Héð­ins­­­sonar miðar að því að setja upp­­­lýs­ing­­­arnar sem skoð­ana­kann­­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­­inga. Nið­ur­stöður spálík­ans­ins eru svo birtar hér á Kjarn­anum reglu­lega í aðdrag­anda kosn­inga.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar