Mynd: Samsett

Ríkisstjórnin fallin og framtíðin virðist geta ráðist á miðjunni

Nýjasta kosningaspá Kjarnans sýnir sviptingar í fylgi flokka sem breyta möguleikum á myndum meirihlutastjórna umtalsvert. Skyndilega eru miðjuflokkar komnir í kjörstöðu, leiðir Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn virðast hverfandi og Vinstri græn eiga á hættu að sitja eftir í stjórnarandstöðu.

Ríkisstjórnin er fallin samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar. Sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna þriggja mælist nú 46,6 prósent og hefur ekki mælst lægra síðan að farið var að keyra kosningaspánna í apríl. 

Hægt yrði að mynda þrjú mismunandi mynstur af fjögurra flokka meirihlutastjórnum sem innihalda ekki Sjálfstæðisflokkinn miðað við núverandi stöðu. Og allar þeirra mælast með meira fylgi en ríkisstjórn sitjandi stjórnarflokka: Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Sú þeirra sem myndi hafa mest fylgi er ríkisstjórn Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Pírata með 49,2 prósent fylgi. Miðjuflokkarnir fjórir: Samfylking, Framsóknarflokkur, Píratar og Viðreisn gætu líka myndað ríkisstjórn og skilið Vinstri græn eftir í stjórnarandstöðu, en sameiginlegt fylgi þeirra mælist nú 47,9 prósent.

Niðurstöður kosningaspárinnar 15. september 2021

Ríkisstjórn sem samanstendur úr þeim flokkum sem eru með meirihluta í Reykjavík, Samfylkingu, Vinstri grænum, Pírötum og Viðreisn, mælist svo með 47,8 prósent fylgi.

Vert er þó að taka fram að allir ofangreindir möguleikar velta á því að Flokkur fólksins fái einn kjördæmakjörinn þingmann og nái ekki upp fyrir fimm prósent þröskuldinn til að fá jöfnunarmenn. Nái Flokkur fólksins tveimur kjördæmakjörnum þingmönnum inn, eða bæti lítillega við sig fylgi, þá breytist staðan umtalsvert og gerir fjögurra flokka meirihlutastjórnir sem samanstanda af miðju- og vinstriflokkum ósennilegri.

Enginn möguleiki er á myndun þriggja flokka stjórnar þar sem Samfylking og Píratar hafa bæði útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokknum. Leið þess flokks í ríkisstjórn liggur því sem stendur í gegnum það að sitjandi ríkisstjórn sannfæri annað hvort Viðreisn eða Miðflokk um að ganga til liðs við stjórnina, standi vilji þeirra til að starfa áfram saman á slíkum forsendum. Hinn möguleiki Sjálfstæðisflokks liggur í því að skipta Vinstri grænum út fyrir Viðreisn og Miðflokk og mynda þannig fjögurra flokka stjórn með Framsóknarflokknum. Í slíkri ríkisstjórn myndu þá sitja þeir tveir flokkar sem oftast hafa stýrt Íslandi og nýleg klofningsframboð úr þeim báðum. 

Þá væri hægt að mynda fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri með aðkomu Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata, Vinstri grænna og Viðreisnar sem væri með rúmlega 60 prósent atkvæða á bakvið sig og myndi líkast til fá allt að 40 þingmenn af 63. 

Er framtíðin að fara að ráðast á miðjunni?

Framsóknarflokkurinn hefur keyrt sína kosningabaráttu á tveimur slagorðum. Annað er í formi spurningar þar sem spurt sé hvort „það sé ekki bara betra að kjósa Framsókn?“. Hitt fullyrðir að framtíðin ráðist á miðjunni. 

Auglýsing

Ýmislegt bendir til þess að sífellt fleiri séu að falla fyrir fyrra slagorðinu og nokkur augljós tilhneiging hefur verið hjá kjósendum að færa sig yfir á miðjuflokkanna á síðustu vikum, líkt og rakið var hér að ofan.

Fimm flokkar skilgreina sig við miðju íslenskra stjórnmála. Þeir eru, auk Framsóknar, Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og Miðflokkur. Allir nema Miðflokkurinn hafa bætt ágætlega við sig undanfarið en hann er líka sá flokkur sem ósennilegast er að hinir flokkarnir á miðjunni myndu vilja vinna með. Samfylkingin og Píratar hafa til að mynda gefið það út opinberlega að ekki sé grundvöllur fyrir samstarfi við Miðflokkinn.

Framsókn mælist nú með 12,2 prósent fylgi eftir að hafa náð að kljúfa tólf prósenta múrinn í fyrsta sinn á þessu ári með kosningaspá sem gerð var í byrjun viku. 

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda kosninga til Alþingis 2021.
B C D F M P S V Aðrir

Samfylkingin er einnig að hressast umtalsvert og mælist nú með 12,6 prósent fylgi. Hún hefur ekki mælst með svo mikið fylgi síðan í lok apríl og hefur nú endurheimt sæti sitt sem næst stærsti flokkur landsins, þótt ekki megi miklu muna. Píratar rífa sig einnig upp eftir að hafa dalað framan af ágústmánuði og mælast nú með 12,1 prósent fylgi. Viðreisn mælist svo með 10,9 prósent fylgi, sem er það mesta sem flokkurinn hefur mælst með í kosningaspánni síðan í byrjun júní. 

Frjálslyndu miðjuflokkarnir, Samfylking, Píratar og Viðreisn fengu samtals 28 prósent atkvæða í kosningunum 2017. Þeir eru nú með 35,6 prósent og hafa samanlagt aukið fylgi sitt um 7,6 prósent á kjörtímabilinu. 

Sjálfstæðisflokkurinn í lægð

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 24,1 prósent fylgi í byrjun septembermánaðar. Síðan þá hefur flokkurinn tapað tveimur prósentustigum og mælist nú með 22,1 prósent fylgi. Það er minnsta fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með í kosningaspánni í aðdraganda þessara kosninga. Þetta fall, verði það að veruleika, mun skipta sköpum um möguleika flokksins á að mynda ríkisstjórn. Það myndi einnig þýða að Sjálfstæðisflokkurinn fengi sína verstu niðurstöðu í sögu sinni og fá 1,5 prósentustigi minna en flokkurinn fékk í fyrstu kosningunum eftir bankahrunið, árið 2009. 

Bjarni Benediktsson getur verið hugsi yfir stöðu flokks síns nokkrum dögum fyrir komandi kosningar.
Mynd: Bára Huld Beck

Annar flokkur sem tapar nokkuð milli kosningaspáa er Sósíalistaflokkur Íslands. Hann mælist nú með 6,8 prósent fylgi en var með yfir átta prósent fylgi í síðustu viku. 

Miðflokkurinn bætir lítillega við sig og skríður aftur upp fyrir sex prósent markið á meðal að Flokkur fólksins fellur niður í 4,5 prósent og næði líkast til einungis einum manni inn.

Auglýsing

Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:

  • Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 8 – 10. september (vægi 14,6 prósent)
  • Skoðannakönnun ÍSKOS/Félagsvísindastofnunnar 23. ágúst – 13. september (14,8 prósent)
  • Skoðanakönnun Prósent í samstarfi við Fréttablaðið 2 – 7. september (14,8 prósent)
  • Þjóðarpúls Gallup 30. ágúst-12. september (vægi 20,1 prósent)
  • Skoðanakönnun Maskínu í samstarfi við Fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis 8 – 13. september (35,7 prósent)

Hvað er kosn­inga­spá­in?

Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.

Auglýsing

Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.

Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.

Kosn­­inga­­spálíkan Bald­­urs Héð­ins­­sonar miðar að því að setja upp­­lýs­ing­­arnar sem skoð­ana­kann­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­inga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar