Afar fáir Íslendingar eru andvígir lagningu Sundabrautar, eða einungis 6,2 prósent, samkvæmt könnun sem Maskína framkvæmdi í febrúarmánuði. Rúm 66 prósent segjast hins vegar mjög eða fremur hlynnt framkvæmdinni og 27,5 prósent svara því til að þau séu í meðallagi hlynnt eða andvíg lagningu Sundabrautar.
Maskína spurði fólk út í afstöðu til framkvæmdarinnar, burtséð frá því hvort Sundabrautin yrði á brú eða í göngum, en báðir kostir koma enn til greina af hálfu yfirvalda og ekki er útséð með hvernig útfærslan verður.
Flestir hlynntir á Vesturlandi og Vestfjörðum
Niðurstöður Maskínu eru brotnar niður eftir kyni, aldri, búsetu, menntun, tekjum og hjúskaparstöðu, auk stuðnings við einstaka stjórnmálaflokka.
Þegar bakgrunnsbreyturnar eru skoðaðar kemur í ljós að stuðningur við Sundabraut er mestur á Vesturlandi og Vestfjörðum, en þar segjast 76,2 prósent mjög hlynnt framkvæmdinni og 12,4 prósent til viðbótar fremur hlynnt.
Í Reykjavíkurborg, þar sem framkvæmdir vegna Sundabrautar fara fram, er stuðningur á pari við landsmeðaltalið, en andstaðan mælist þó ögn meiri eða 9,2 prósent.
Ekki er neinn æpandi munur á stuðningi við lagningu Sundabrautar eftir tekjuhópum, kynjum eða menntunarstigi, þó að reyndar fari hlutfall þeirra sem lýsa sig andvíga framkvæmdinni yfir 10 prósent hjá þeim sem segjast hafa lokið framhaldnámi á háskólastigi og yfir 12 prósent hjá þeim sem hafa tekjur yfir 1,2 milljónum á mánuði.
Mest andstaða í kjósendahópi Samfylkingarinnar – en þó mjög lítil
Er horft er á pólitíska sviðið segist meirihluti stuðningsfólks allra flokka vera hlynnt lagningu Sundabrautar. Alls 92 prósent þeirra svarenda sem segja að þeir myndu kjósa Miðflokkinn til Alþingis eru hlynntir Sundabraut og í þeirra hópi sagðist enginn svarandi vera andvígur framkvæmdinni. Hið sama átti við um stuðningsfólk Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins.
Í öllum öðrum væntum kjósendahópum mátti finna einhverja sem sögðust andvígir framkvæmdinni. Mest andstaða við framkvæmdina er á meðal þeirra sem segja að þeir myndu kjósa Samfylkinguna til þings, en þar segja 13,5 prósent vera andvíg eða mjög andvíg lagningu Sundabrautar. Í þeim sama kjósendahópi segjast þó rúm 61 prósent hlynnt framkvæmdinni.
Brú eða göng?
Könnun Maskínu var framkvæmd dagana 7.-14. febrúar og var lögð fyrir svokallaða Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er af handahófi úr Þjóðskrá. Um netkönnun var að ræða.
Svarendur voru alls voru alls 926 talsins, en 811 tóku afstöðu til þeirrar spurningar sem hér er fjallað um og byggja prósentutölur í fréttinni á svörum þess hóps. Alls 6,5 prósent allra svarenda könnunarinnar komu þeirri skoðun á framfæri að afstaða þeirra til Sundabrautar færi eftir því hvort hún yrði lögð á brú eða í göngum.