Samkvæmt könnun sem Maskína vann fyrir utanríkisráðuneytið undir lok maímánaðar eru tæplega 71 prósent landmanna jákvæð í garð aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og hefur jákvæðnin í garð aðildar aukist mikið frá fyrri sambærilegum mælingum.
Athygli vekur, er niðurstöðurnar eru brotnar niður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka, að jákvæðni í garð aðildar að bandalaginu var umfram landsmeðaltal hjá þeim hópi svarenda sem sagðist ætla að kjósa Vinstri græn. Flokkurinn er sá eini á þingi sem hefur það beinlínis á stefnuskrá sinni að Ísland ætti að ganga úr NATO.
Það virðist þó litlu skipta um þessar mundir, en 72,3 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa flokkinn eru jákvæð í garð aðildar Íslands að bandalaginu. Einungis 6,4 prósent þeirra sem sögðust ætla sér að kjósa Vinstri græn sögðust neikvæð gagnvart aðild Íslands að bandalaginu.
Þetta er gjörbreytt staða frá fyrri mælingum. Í könnun sem Maskína framkvæmdi í mars 2020 voru 35,4 prósent væntra kjósenda Vinstri grænna jákvæð í garð NATO-aðildar Íslands og 30,1 prósent þeirra sögðust neikvæð. Í mælingu Maskínu í maí 2021 sögðust 38,4 prósent kjósenda Vinstri grænna svo jákvæð í garð aðildar og 24,7 prósent neikvæð.
Kjósendur Sósíalistaflokks neikvæðastir í garð aðildar
Jákvæðni í garð NATO meðal væntra kjósenda Samfylkingar, Pírata og Flokks fólksins var lægri en í væntum kjósendahópi Vinstri grænna, og mælist á bilinu 63-65 prósent í könnun Maskínu. Þau sem sögðust ætla að kjósa Sósíalistaflokkinn voru síst jákvæð í garð aðildar – einungis 48 prósent væntra kjósenda flokksins sögðust jákvæð gagnvart aðildinni að bandalaginu.
Neikvæðni í garð aðildar Íslands að NATO mælist mest hjá væntum kjósendum Sósíalistaflokks, en næst mest hjá kjósendum Pírata og þá Samfylkingar, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Kjósendur Viðreisnar eru allra jákvæðastir í garð NATO-aðildar, eða 95,5 prósent vænts kjósendahóps flokksins. Næst komu kjósendur Sjálfstæðisflokks, en um 92 prósent þeirra eru jákvæðir í garð aðildar og um 80 prósent kjósenda Framsóknarflokks og Miðflokks.
Könnun Maskínu fyrir utanríkisráðuneytið var framkvæmd dagana 19.-27. maí, en hún var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Svarendur voru 957 talsins. Spurt var út í viðhorf almennings til ýmissa þátta í utanríkisþjónustu.