Alls höfðu 56 prósent félaga skilað inn ársreikningi fyrir reikningsárið 2020 fyrir miðnætti 31. ágúst síðastliðinn en það var lokaskiladagur ársreikninga fyrir það ár. Samkvæmt skriflegu svari frá Skattinum við fyrirspurn Kjarnans höfðu 23.863 félög skilað inn ársreikningi fyrir miðnætti 31. ágúst síðastliðinn en alls voru 42.625 félög skráð á lista yfir skilaskyld félög fyrir reikningsárið 2020. Á miðnætti sunnudaginn 5. september, þ.e. í gærkvöldi, höfðu 24.485 félög skilað ársreikningi fyrir árið 2020 til ársreikningaskrár.
Hlutfall þeirra félaga sem skiluðu ársreikningi á réttum tíma er því eins og áður segir 56 prósent. Hlutfallið batnar á milli ára en það var 53,8 prósent í fyrra. Samkvæmt svari skattsins voru skilin í ár og í fyrra lakari en árið þar á undan og má það að einhverju leyti rekja til áhrifa kórónuveirufaraldursins.
Viðurlög bættu skil
Þrátt fyrir að hlutfall þeirra félaga sem skila ársreikningi á réttum tíma sé ekki nema um helmingur þá hefur hlutfallið batnað mikið á undanförnum árum. Til að mynda skiluðu 15,4 prósent skilaskyldra félaga ársreikningum fyrir 1. september árið 2007 en þá voru rúmlega 30 þúsund skilaskyld félög í landinu. Þegar árið var á enda runnið höfðu 60 prósent félaga skilað ársreikningi sem þýðir að fjögur af hverjum tíu félögum ákváðu heldur að greiða sekt en að skila inn ársreikningum sínum á réttum tíma og sum félög skiluðu þeim einfaldlega ekki.
Ástæðuna fyrir auknum skilum má ekki síst rekja til þess að árið 2016 voru viðurlög við því að skila ársreikningi ekki á réttum tíma hert verulega. Tilgangur viðurlaganna, til viðbótar við bætt skil, var að sporna gegn kennitöluflakki og auka gagnsæi.
Árið 2016 skilaði tæplega helmingur félaga inn ársreikningi á réttum tíma og 87 prósent þeirra gerði það fyrir árslok 2016. Til samanburðar skilaði um þriðjungur félaga ársreikningi á réttum tíma ári áður.
Reglugerð sem heimilar slit á leið í samráðsgátt
Viðurlögin sem um ræðir felast meðal annars í stjórnvaldssekt upp á 600 þúsund krónur. Þar að auki var ársreikningaskrá veitt heimild til þess að slíta félögum sem ekki skila ársreikningum innan sex mánaða eftir að upphaflegur frestur rennur út, eða alls 14 mánuðum eftir að rekstrarári lýkur.
Sú heimild hefur aldrei verið nýtt vegna þess að ráðherra hefur ekki sett reglugerð með fyrirmælum um meðferð slíkra skila.
Málefni ársreikningaskrár heyra undir atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, stýrir þeim hluta ráðuneytisins sem fer með þau málefni. Samkvæmt nýlegu svari frá ráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans er reglugerðin á lokametrunum og búist er við því að drögin fari í samráðsgátt stjórnvalda í þessari viku.