Um fimmtíu íbúar á Stöðvarfirði rituðu fyrir skemmstu nafn sitt á undirskriftalista gegn útgáfu rekstrarleyfis til Laxeldis Austfjarða, sem hyggst setja á fót 7.000 tonna laxeldi í firðinum. Innan við tvö hundruð manns búa í þorpinu, sem er hluti sveitarfélagsins Fjarðabyggðar, og er því rúmur fjórðungur íbúa gegn áformunum.
Ungur maður á Stöðvarfirði, Þórir Snær Sigurðsson, tók að sér safna undirskriftum íbúa saman og koma þeim á Matvælastofnun í síðustu viku, en tillaga stofnunarinnar að rekstrarleyfi fyrir eldið var birt í upphafi nóvembermánaðar.
Sjónmengun og önnur mengun fyrir fá störf í bænum
Þórir Snær segir við Kjarnann að hann telji málið koma öllum bæjarbúum við. Það sem hann og margir aðrir finna helst að áformunum er það að útsýni yfir fjörðinn spillist með tilkomu sjókvíanna, sem áætlað er að verði beint á móti bæjarstæðinu. Stöðvarfjörður er fremur grunnur og ekki er fýsilegt vegna öldugangs og strauma að fara með laxeldið utar í fjörðinn, fjær bænum.
Þetta gæti dregið úr aðdráttarafli Stöðvarfjarðar, segir Þórir. Hann nefnir sérstaklega að mikið líf hafi verið í Sköpunarmiðstöðinni í gamla frystihúsi bæjarins og hluti af aðdráttarafli þess staðar og „bissnessnum“ þar sé að leigja út vinnuaðstöðu, jafnvel með útsýni yfir fjörðinn.
Einnig segir hann að störfin sem skapist á Stöðvarfirði verði ekki mörg, að minnsta ekki nándar nærri nógu mörg til þess að ásýnd fjarðarins verði spillt. Náttúran eigi að fá að njóta vafans.
Fiskeldi Austurlands er með framleiðslu nú þegar í Berufirði og Fáskrúðsfirði og segir Þórir talað um að laxinum verði slátrað á Djúpavogi. Einu störfin sem fyrirsjáanlega verði til á Stöðvarfirði í skiptum fyrir breytta ásýnd hafflatarins gegnt bæjarstæðinu verði þannig „örfá störf“ við kvíarnar.
Fiskeldi Austfjarða talar um 10-20 störf í Stöðvarfirði
Í frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar áætlaði Fiskeldi Austfjarða að þetta 7.000 tonna eldi í Stöðvarfirði myndi skapa alls 91 beint starf hjá Fiskeldi Austfjarða og auk þess 70 óbein störf á svæðinu. Þar af mætti reikna með 15-20 stöðugildum í Stöðvarfirði. Á öðrum stað í sömu skýrslu er reyndar talað um 10-20 störf.
Þessar áætlanir Fiskeldis Austfjarða byggja á útreikningum frá Byggðastofnun, þess efnis að fyrir hver þúsund tonn af fiski í eldi geti hugsanlega orðið til 23 störf, 13 bein og 10 óbein. Útreikningarnir voru settir fram í skýrslunni Byggðaleg áhrif fiskeldis árið 2017.
Samkvæmt nýlegri samantekt Deloitte um fiskeldi á Íslandi voru í fyrra 525 launþegar í fiskeldi á Íslandi og framleiðslan stóð í 40,6 þúsund tonnum, sem þýðir að launþegar í greininni voru 12,7 talsins á hver þúsund framleidd tonn. Mat Byggðastofnunar virðist nærri lagi, miðað við þessar tölur.
Í áliti Skipulagsstofnunar vegna frummatsskýrslunnar má lesa að athugasemdir bárust frá nokkrum aðilum við þann fjölda starfa sem Fiskeldi Austfjarða heldur fram að skapast geti á Stöðvarfirði vegna eldisins. Fram kom í umsögnum að störf yrðu flest á Djúpavogi þar sem laxinum yrði öllum slátrað þar. Störf gætu skapast við umhirðu búra og fóðrun á Stöðvarfirði, en aldrei mörg – og ekki væri loku fyrir það skotið að mannskapur frá Djúpavogi gæti sinnt búrunum í Stöðvarfirði. Tæpir 80 kílómetrar eru á milli bæjanna.
Sveitarfélagið Fjarðabyggð kom því svo á framfæri í sinni umsögn til Skipulagsstofnunar að eldið í Stöðvarfirði uppfyllti ekki að fullu markmið sveitarfélagsins um að efnahagslegur og samfélagslegur ábati af fiskeldinu nýttist sveitarfélaginu til framtíðar, þar sem flest störf yrðu til þar sem fisknum yrði slátrað – á Djúpavogi í Múlaþingi.
Sjái fyrir sér síldarævintýri sem ekki verði
Þórir Snær segir að málið hafi verið mikið rætt í bænum að undanförnu nú þegar hillir undir útgáfu rekstrarleyfis. „Það eru margir sem eru á móti þessu en eru samt ekki til í að skrifa undir. Eru hræddir um að styggja einhvern eða eitthvað svoleiðis,“ segir hann og bætir við að það hann telji áberandi meiri stuðningur við laxeldisáformin í firðinum sé hjá eldra fólki, sem hætt sé að vinna.
„Kannski er það bara ímyndun í mér, en mér finnst fólk sem er ekki lengur á vinnumarkaði vera hlynntara þessu. Ég held að þau kannski haldi að þetta verði næsta síldarævintýri. Séu að sjá þetta fyrir sér þannig,“ segir Þórir Snær.
Leyfisferlið á lokametrunum
Hvort undirskriftir íbúa gegn fiskeldisáformunum í firðinum muni hafa einhver áhrif á útgáfu rekstrarleyfisins á eftir að koma í ljós, en ljóst er að ekki er sátt í samfélaginu á Stöðvarfirði með áformin, sem hafa verið lengi í skipulagsferli.
Í raun má segja að málið sé nú á lokametrunum, en fiskeldið er þegar búið að fara í gegnum umhverfismat og þar áður var búið að gera burðarþolsmat fyrir fjörðinn af hálfu Hafrannsóknastofnunar.
Guðmundur Gíslason framkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða lýsti þeim áfanga að fá útgefna tillögu frá Matvælastofnun að rekstrarleyfi sem stórum, í samtali við Austurfrétt í upphafi nóvembermánaðar.
„Að því gefnu að rekstrarleyfið fáist, þá eigum við eftir að hanna svæðið, rækta seiði og koma svo öllu fyrir á staðnum. Við vorum lengi að gæla við að hefja starfsemina á næsta ári en það er meira en að segja og við gætum verið að horfa á eitt til tvö ár áður en allt verður komið á sinn stað og starfsemin hafin,“ var haft eftir Guðmundi á vef Austurfréttar.