Rússneski herinn, sem nú hefur stillt sér upp með stjórnarher Sýrlands, undir forystu Bashar al-Assad forseta landsins, hefur haldið áfram loftárásum á valin skotmörk í landinu í dag, og virðist beina skotum og sprengjum sínum að uppreisnarhópnum Ahar al-Sham, sem barist hefur við Íslamska ríkið, og stjórnarher Sýrlands. Rússar hófu loftárásir í gær og er landher í stellingum fyrir frekari aðgerðir.
Þetta kemur fram á vef New York Times, en loftárárisnar hafa verið þaulskipulagðar og drónar og gervihnettir notaðir til þess að finna skotmörk og framkvæma árásirnar.
Bandarísk stjórnvöld eru sögð uggandi yfir þróun mála í Sýrlandi, enda samþykkja þau ekki samstarf við Assad forseta og hefur Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, gengið svo langt í að kalla hann „illmenni“ sem hiki ekki við að sprengja upp börn og saklausa borgara. Hann geti aldrei verið hluti af pólitískri lausn á stríðinu í Sýrlandi. Undir þetta hafa margir aðrir þjóðarleiðtogar tekið, þar á meðal Francois Hollande, forseti Frakklands, og David Cameron forsætisráðherra Bretlands.
Russia is said to carry out airstrikes in Syria for a second day http://t.co/HrH8PLxu5u pic.twitter.com/iR2nikGyXy
— The New York Times (@nytimes) October 1, 2015
Milljónir manna eru nú á flótta frá stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi, og er talið að um tíu milljónir manna séu á flótta af um 22 milljóna heildaríbúafjölda. Um fimm milljónir hafa komist úr fyrir landmæri landsins og leitar stór hluti hópsins til Evrópu.
Rúmlega 250 þúsund manns hafa látið lífið í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi frá árinu 2011 og um 800 þúsund slasast, samkvæmt síðustu birtu upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. Í ljósi viðvarandi stríðsátaka hækka tölurnar sífellt.