Mikilvægt er að hið opinbera leggist á eitt og auki aðhald í ríkisrekstri á næstu árum, segja Samtök atvinnulífsins í umsögn sinni um fjármálastefnu ríkisstjórnar.
Aðhaldsleysið vandinn
Í umsögninni, sem birtist á vef Alþingis í dag, sögðu samtökin að aðhaldsleysi væri vandinn í ríkisrekstri. Ekki væri að sjá með skýrum hætti í fjármálastefnu að ráðist verði í neina hagræðingu eða aðhaldsaðgerðir á næstu árum, þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir framleiðsluspennu í hagkerfinu á næsta ári.
Samkvæmt samtökunum leiðir niðurfelling sértækra aðgerða ríkisstjórnarinnar til minni framleiðsluspennu, sem styður við peningastefnuna. Auk þess væri það mikilvægt að bæta undirliggjandi afkomu hins opinbera með því að hamla útgjaldaaukningu.
Einnig vilja samtökin að fjárveitingar ríkisins verði reglulega endurmetnar til að skoða hvort þær nái tilætluðum árangri. Með því væri hægt að stuðla að auknu samhengi á milli markmiðasetningar annars vegar og fjárveitinga og gagnadrifinni ákvarðanatöku hins vegar.
Allir vinna framlengt
Samtök iðnaðarins, sem er langstærsta aðildarfélag SA, kölluðu eftir auknum útgjöldum hins opinbera til byggingarfamleiðslu og viðhalds í gegnum framlengingu átaksins „allir vinna“ í umsögn sinni í síðustu fjárlögum.
Fjármálaráðuneytið varaði hins vegar við slíkri framlengingu, þar sem það fæli í sér innspýtingu á fjármagni í þegar þanið hagkerfi.Framlengingunni var þó bætt við fjárlagafrumvarpið eftir að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis mældi með henni. Búist er við að afkoma ríkissjóðs verði sjö milljörðum króna verri vegna hennar.
Í umsögn Samtaka atvinnulífsins um fjármálaáætlunina var minnst á að hagspár og afkomuspár hins opinbera hefðu tilhneigingu til að verða of bjartsýnar. Því til stuðnings bentu þau á að hagvöxtur í Evrópusambandslöndum frá 1998 til 2019 var að meðaltali prósentustigi minni en áætlanir gerðu ráð fyrir, en samkvæmt þeim er tregða til að aðlaga rekstrarniðurstöðu hins opinbera að breyttum veruleika, sem geti leitt til bjögunar í átt að viðvarandi rekstrarhalla.