Auglýsing

Það er flókið mál að semja fjár­lög. Hlut­verk þeirra sem ákveða hverjir fá styrk frá hinu opin­bera er ekki öfunds­vert, þar sem sjaldan er hægt að kom­ast að nið­ur­stöðu þar sem allir verða sátt­ir.

Þó ríkir tölu­verð sátt um nokkur grund­vall­ar­at­riði í þessum mál­um. Þrátt fyrir að túlk­unin sé breyti­leg eftir stjórn­mála­flokkum eru flestir þeirra sam­mála um að rekstur rík­is­ins eigi að vera sjálf­bær þegar til lengri tíma er lit­ið, að ekki eigi að magna upp hag­sveiflur og að pen­ing­ur­inn úr rík­is­kass­anum fari til þeirra sem mest þurfa á honum að halda.

Það verður ekki séð að nýleg ákvörðun Alþingis um að fella niður virð­is­auka­skatt á starf­semi tengdri bygg­ing­ar­fram­kvæmdum og við­haldi hús­næðis í ár upp­fylli neitt þess­ara skil­yrða, sama hvernig þau eru túlk­uð. Þvert á móti má búast við að að hún stuðli ekki að sjálf­bærni fyrir rík­is­sjóð og magni upp fram­leiðslu­spenn­una í ár, auk þess sem lík­legt er að efna­fólk muni fyrst og fremst græða á henni. Ákvörð­unin er ein­fald­lega slæm hag­stjórn.

Allir vinna

End­ur­greiðsl­urnar munu eiga sér stað í gegnum átak sem ber heitið „allir vinna“ , en því var fyrst komið á í kjöl­far fjár­mála­hruns­ins til að auka eft­ir­spurn eftir slíkri starf­semi og koma í veg fyrir svarta atvinnu. Á þeim tíma hafði bygg­ing­ar­geir­inn hrun­ið, en störfum þar fækk­aði um helm­ing á milli áranna 2008 og 2010.

Með átak­inu átti eft­ir­spurn eftir þjón­ustu þeirra sem vinna við upp­bygg­ingu og við­hald hús­næðis að aukast, þar sem hún yrði ódýr­ari. Þannig yrði hægt að tryggja bygg­ing­ar­geir­anum fleiri verk­efni en ann­ars og draga úr fram­leiðsluslak­anum sem hafði mynd­ast vegna hruns­ins.

Auglýsing

End­ur­greiðslan virð­ist hafa borið árang­ur. Fyr­ir­tæki í bygg­ing­ar­starf­semi hættu að skila tapi og byrj­uðu að skila millj­arða­hagn­aði þegar átakið var virkt á tíma­bil­inu 2010-2015. Á sama tíma juk­ust tekjur þeirra um meira en helm­ing og störfum geir­anum fjölg­aði um rúman fjórð­ung.

Vegna góðs árang­urs ákvað rík­is­stjórnin að end­ur­taka leik­inn í fyrra, þegar búist var við hruni í bygg­ing­ar­iðn­að­inum þar sem kreppa var yfir­vof­andi vegna heims­far­ald­urs­ins.

En slíkt hrun kom sem betur fer ekki. Sam­kvæmt nýj­ustu tölum frá Hag­stofu jókst hagn­aður fyrir skatt hjá fyr­ir­tækjum í bygg­ing­ar­starf­semi um 9 pró­sent að raun­virði á milli áranna 2019 og 2020. Vissu­lega fækk­aði starfs­mönnum í grein­inni um 6 pró­sent á tíma­bil­inu, en sú fækkun er varla sam­bæri­leg 43 pró­sent fækk­un­inni í fjölda starfs­manna í grein­inni eftir fjár­mála­hrun­ið.

Inn­spýt­ing í þegar þanið hag­kerfi

Síðan þá hafa horfur í grein­inni batnað enn frekar, en í sept­em­ber voru starfs­menn í grein­inni orðnir fleiri en þeir voru áður en heims­far­ald­ur­inn skall á. Þar að auki er búist við að horf­urnar batni enn frekar á næstu mán­uðum með auk­inni fjár­fest­ingu í upp­bygg­ingu íbúða.

Í upp­haf­lega fjár­mála­frum­varp­inu sem var lagt fram í lok nóv­em­ber var því lagt upp með að „allir vinna“ átakið yrði ekki fram­lengt í ár, þar sem ekki sé þörf á því þessa stund­ina.

Í minn­is­blaði til efna­hags- og við­skipta­nefndar Alþingis fór fjár­mála­ráðu­neytið ítar­lega yfir helstu rök gegn því að fram­lengja átakið í ár. Þar benti ráðu­neytið sér­stak­lega á síð­ustu hag­spár Seðla­bank­ans og Hag­stofu, en þær gera ráð fyrir að fram­leiðslu­spenna mynd­ist í þjóð­ar­bú­inu á þessu ári, sem þýðir að lands­fram­leiðslan verði umfram sitt jafn­væg­is­gildi. „Um væri að ræða inn­spýt­ingu á fjár­magni í hag­kerfið sem er nú þegar þan­ið,“ segir ráðu­neyt­ið.

Hag­spárnar gera einnig ráð fyrir umtals­verðum vexti í íbúða­fjár­fest­ingu, sem búist er við að muni halda áfram að aukast á næstu árum. Ráðu­neytið bætir svo við í minn­is­blaði sínu að fátt bendi til verk­efna­skorts varð­andi end­ur­bætur og við­hald íbúð­ar­hús­næð­is, en letj­andi áhrif COVID-19 á ferða­lög til útlanda hafi haft hvetj­andi áhrif á sum­ar­bú­staða­fram­kvæmd­ir.

Tóku frekar ráð­legg­ingum Sam­taka iðn­að­ar­ins

Líkt og við var að búast mót­mæltu Sam­tök iðn­að­ar­ins, sem bera hag af fram­leng­ingu átaks­ins, þessum áformum með umsögn sem þau sendu til efna­hags- og við­skipta­nefndar. Sam­kvæmt henni átti átakið sinn þátt í því að milda nið­ur­sveifl­una í bygg­ing­ar­iðn­aði á síð­asta ári, en nauð­syn­legt sé að fram­lengja það um að minnsta kosti eitt ár þar sem enn væri slaki í atvinnu­grein­inni.

Af ein­hverjum ástæðum tók meiri­hluti efna­hags- og við­skipta­nefndar frekar mark á ráð­legg­ingum sam­tak­anna heldur en fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins og ákvað hún því að mæla með því að „allir vinna“ átakið yrði fram­lengt. Þessa fram­leng­ingu sam­þykkti Alþingi svo á milli jóla og nýárs.

Guð­rún Haf­steins­dótt­ir, sem er for­maður efna­hags- og við­skipta­nefnd­ar, sat í stjórn Sam­taka iðn­að­ar­ins frá 2011 til 2013 og var for­maður þeirra frá 2014 til 2020. Hún varði ákvörðun meiri­hluta nefnd­ar­innar á Alþingi í síð­ustu viku með sömu rök­semd­ar­færslu og sam­tökin nefndu, en hún sagði að enn væri slaki til staðar í bygg­ing­ar­iðn­aði, sem hefði jafnan þurft að bera mjög þungar byrðar í sam­drátt­ar­skeiðum hér­lend­is. Enn fremur sagði Guð­rún að það væri „óyggj­andi“ að átakið myndi skila sér í ávinn­ingi fyrir rík­is­sjóð vegna minni svartrar atvinnu­starf­semi.

Er slaki í bygg­ing­ar­iðn­aði?

Stað­hæf­ing Guð­rúnar og Sam­taka iðn­að­ar­ins um að slaki mælist enn í bygg­ing­ar­iðn­aði byggir ekki á sterkum grunni.

Sam­tökin benda á að enn séu fleiri atvinnu­lausir í grein­inni en í venju­legu árferði, sam­kvæmt tölum frá Vinnu­mála­stofn­un. Ef rýnt er í fleiri hag­tölur virð­ist þó sem að sú staða sé lík­lega ekki til­komin vegna slaka í atvinnu­grein­inni, heldur vanda­mála við að leiða saman rétt störf við rétt starfs­fólk.

Mynd hér að neðan sýnir heild­ar­veltu í bygg­ingu hús­næðis eftir tveggja mán­aða tíma­bilum frá 2008 til 2021. Sam­kvæmt henni hefur veltan verið tölu­verð á síð­ustu mán­uð­um, en hún var svipuð í haust og í miðju hag­vaxt­ar­skeiði árið 2017, þrátt fyrir að tekið sé til­lit til verð­bólgu. Veltan er einnig meiri nú að raun­virði en hún var undir lok góð­ær­is­ins sum­arið 2008.

Mynd: Kjarninn. Heimild: Hagstofa

Sama staða blasir við þegar afkoma fyr­ir­tækja í bygg­ing­ar­iðn­aði er skoð­uð. Hagn­aður fyrir skatta jókst árið 2020 hjá fyr­ir­tækjum sem sjá um bygg­ingu hús­næðis og ann­arra mann­virkja, en stóð í stað hjá fyr­ir­tækjum sem sjá um við­hald hús­næðis og aðra sér­hæfða bygg­ing­ar­starf­semi.

Að vísu minnk­aði fjöldi starfs­manna í grein­inni lít­il­lega eftir að heims­far­ald­ur­inn skall á, en þeim er tekið að fjölga aft­ur. Líkt og myndin hér að neðan sýnir var með­al­fjöldi starfs­manna í hverjum mán­uði í fyrra meiri heldur en á upp­gangs­ár­unum 2015-2017 og litlu minni en þegar hag­sveiflan náði síð­ast hámarki sínu árin 2018 og 2019.

Mynd: Kjarninn. Heimild: Hagstofa. Ath: Meðaltalið fyrir 2021 nær frá tímabilinu jan-sept.

Ein leið til að mæla fram­leiðslu­spennu í atvinnu­greinum er með því að athuga laus störf í grein­inni. Mik­ill fjöldi lausra starfa bendir til auk­innar fram­leiðslu­spennu, þar sem það er merki um að fyr­ir­tæki vilji auka við sig vinnu­afl. Sam­kvæmt tölum Hag­stofu er hlut­fall lausra starfa í bygg­ing­ar­iðn­aði nú tvö­falt hærra en það var í árs­byrjun 2019. Eitt af hverjum tíu störfum í grein­inni var laust undir lok síð­asta sum­ars, en á sama tíma voru ein­ungis 3,6 pró­sent allra starfa í hag­kerf­inu laus.

Því er nið­ur­staða Sam­taka iðn­að­ar­ins um að að fram­leiðsluslaki sé til staðar í grein­inni und­ar­leg, þar sem meiri­hluti hagtalna bendir í aðra átt. Í miklum slaka væri að minnsta kosti óeðli­legt að finna marga starfs­menn, mörg laus störf, mikla veltu og góða afkomu.

Hætta á freistni­vanda

Fram­leng­ingin á „allir vinna“- átak­inu er ekki ókeypis, heldur er búist við að afkoma rík­is­ins versni um sjö millj­arða króna vegna hennar. Þessir sjö millj­arðar eru dýr­keypt­ir, þar sem rík­is­stjórnin hefur ein­sett sér að draga jafnt og þétt úr afkomu­halla og stöðva hækkun skulda­hlut­falls hins opin­bera á næstu fjórum árum í fram­lagðri fjár­mál­stefn­unni sinni.

Ákvörðun stjórn­valda að láta undan þrýst­ingi frá Sam­tökum iðn­að­ar­ins og fram­lengja íviln­andi aðgerðir – þrátt fyrir að efna­hags­leg rök hníga gegn því – sýna hversu erfitt það mun reyn­ast að fram­fylgja þess­ari stefnu þegar draga á úr mót­væg­is­að­gerð­um. Með verri hag­stjórn munu lík­urnar aukast á að hið opin­bera þurfi annað hvort að hækka skatta eða draga úr opin­berum útgjöldum ann­ars staðar til að ná mark­miði sínu.

Líkt og fjár­mála­ráð hefur bent á í áliti um fram­lagða fjár­mála­stefnu freist­ast stjórn­mála­menn oft til að horfa of stutt til fram­tíðar og eyða því umfram efni í stað þess að taka á und­ir­liggj­andi vanda­mál­um. Sömu­leiðis eru hags­muna­að­ilar ekki lík­legir til að taka til­lit til hags­muna heild­ar­innar þegar þeir berj­ast um opin­ber útgjöld, þeir hugsa frekar um sína sneið heldur en kök­una sjálfa.

Þessi vanda­mál verða þó lík­legri til að eiga sér stað þegar fjár­lög, sem eru bara til eins árs, eru sam­þykkt á undan fjár­mála­stefnu henn­ar, sem lítur til lengri tíma. Fjár­mála­stefnan hefur enn ekki verið afgreidd af hálfu Alþingis enda þótt fjár­lögin séu það, en til þess að koma í veg fyrir freist­ingar stjórn­mála­manna til að fara ógæti­lega með fjár­mál hins opin­bera hefði hún átt að liggja til grund­vallar þegar fjár­lögin voru rædd.

Furðu­leg for­gangs­röðun

Fjár­hæð­irnar sem ríkið verður af vegna fram­leng­ingar átaks­ins koma því ekki úr neinu tóma­rúmi, heldur mun aðgerðin auka skuld­setn­ingu hins opin­bera og leiða til þess að erf­ið­ara verður að fram­fylgja fjár­mála­stefnu næstu ára.

Sjö millj­arðar króna er heldur eng­inn smá­pen­ing­ur. Til að setja upp­hæð­ina í sam­hengi er hún jöfn fram­lagi rík­is­ins í fyrra fyrir bygg­ingu nýs Land­spít­ala. Sömu­leiðis hefði upp­hæðin dugað til að fjár­magna rekstur Háskóla Íslands í fimm mán­uði eða til að tvö­falda fram­lag rík­is­ins til nátt­úru­vernd­ar, skóg­ræktar og land­græðslu. Einnig hefði rík­is­stjórnin getað sleppt því að auka útgjöld og frekar aukið kaup­mátt skatt­greið­enda með því að hækka per­sónu­af­slátt um 27 þús­und krónur á mann á ári í stað þess að halda verk­efn­inu áfram.

Í ofan­greindum verk­efnum myndi ávinn­ing­ur­inn dreifast nokkuð vítt um sam­fé­lag­ið. Þeir sem hagn­ast mest á áfram­hald­andi skatta­af­slætti á upp­bygg­ingu og við­haldi hús­næðis eru aftur á móti færri. Fyrst og fremst verða það fyr­ir­tæki sem standa að jafn­aði vel fjár­hags­lega og svo ein­stak­lingar sem kaupa þjón­ustu þeirra, en þeirra á meðal eru tekju­háir ein­stak­lingar sem vilja end­ur­inn­rétta íbúð­ina sína eða gera upp sum­ar­bú­stað­inn sinn.

Fram­leng­ing „allir vinna“- átaks­ins er furðu­leg for­gangs­röðun í núver­andi ástandi. Að minnsta kosti er hægt að hugsa um margar betri leiðir til að verja þessum fjár­hæðum en með þenslu­að­gerðum á upp­gangs­tíma sem auka skuldir og gagn­ast fáum.

Höf­undur er rit­stjóri Vís­bend­ing­ar.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ráðherrar þeirrar ríkisstjórnarinnar sem sat að völdum þegar eftirlaunalögin voru samþykkt.
Tíu hlutir sem hægt væri að gera fyrir kostnað vegna eftirlauna ráðherra og þingmanna
257 fyrrverandi þingmenn og 46 fyrrverandi ráðherrar fá eftirlaun á grundvelli umdeildra eftirlaunalaga sem voru í gildi á árunum 2003 til 2009. Alls kostaði þetta 876 milljónir króna í fyrra. Hér eru tíu hlutir sem hægt væri að gera fyrir það fé á ári.
Kjarninn 22. janúar 2022
Jepplingur á ferð í Laugarnesi í Reykjavík. Bílar af þessari stærðargráðu og stærri hafa orðið æ algengari á götunum undanfarin ár.
Bílarnir á götunum þyngjast og þyngjast
Nýskráðir fólksbílar á Íslandi árið 2021 voru að meðaltali um 50 prósentum þyngri en bílarnir voru árið 1990. Þetta er alþjóðleg þróun – sem sumir segja að sé helst leidd af bílaframleiðendum sem vilja selja almenningi stærri og dýrari bíla ár frá ári.
Kjarninn 22. janúar 2022
Nokkrir valkostanna sem eru til skoðunar gera ráð fyrir jarðgöngum í gegnum Reynisfjall og að vegurinn liggi meðfram Víkurfjöru.
Sér ekki hvað nýr valkostur um Mýrdal á að leysa
Oddviti Mýrdalshrepps telur að nýjum valkosti Vegagerðarinnar við færslu hringvegarins í Mýrdal myndi fylgja umtalsvert meira jarðrask en láglendisvegi og jarðgöngum.
Kjarninn 22. janúar 2022
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Microsoft kaupir Blizzard og frábær CES
Kjarninn 22. janúar 2022
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Stefnt að því að koma Íslandi í efstu sætin á Regnbogakortinu
Forsætisráðherra hefur lagt fram framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks í 17 liðum fram í samráðsgátt stjórnvalda. Á meðal aðgerða er að stjórnendur hjá ríkinu og lögreglumenn fái fræðslu um málefni hinsegin fólks.
Kjarninn 21. janúar 2022
N1 Rafmagn er dótturfélag N1, sem er eitt dótturfélaga Festi hf., sem er að uppistöðu í eigu íslenskra lífeyrissjóða.
N1 reiknar með því að útskýra rafmagnsendurgreiðslur betur eftir helgi
N1 Rafmagn, sem áður hét Íslensk orkumiðlun, hefur verið orkusali til þrautavara frá 1. júní 2020. Fyrirtækið hefur ekki útskýrt hvers vegna það hyggst einungis endurgreiða neytendum mismun tveggja taxta frá 1. nóvember 2021.
Kjarninn 21. janúar 2022
Tímasetning uppsagnar tilfallandi og greiðslur til hluthafa „eðlilegur hluti af fyrirtækjarekstri“
Sjóvá vísar því á bug að samningi við FÍB um vegaþjónustu hafi verið sagt upp í hefndarskyni. Tímasetningin hafi verið tilfallandi. Markaðsstjóri Sjóvá segir greiðslur til hluthafa „eðlilegan hluta af fyrirtækjarekstri“.
Kjarninn 21. janúar 2022
Í austurvegi
Í austurvegi
Í austurvegi – Kínverska fjárfestinga- og innviðaverkefnið Belti og braut
Kjarninn 21. janúar 2022
Meira úr sama flokkiLeiðari