Hugmyndin um góða byggð

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir segir að hugmyndafræði varðandi skipulagsmál skorti ekki hér á landi þrátt fyrir að það séu dæmi um tilviljanakenndar skipulagsákvarðanir og metnaðarlausar byggingar og umhverfismótun.

Auglýsing

Árið 2021 voru liðin 100 ár frá sam­þykkt fyrstu lög­gjafar um skipu­lags­mál á Íslandi, laga um skipu­lag kaup­túna og sjáv­ar­þorpa. Í til­efni þess­ara tíma­móta fékk Skipu­lags­stofnun fólk úr ólíkum áttum til liðs við sig til að deila hug­myndum sínum um byggð og skipu­lag í pistlum sem birst hafa á Kjarn­anum og á vef­miðlum Skipu­lags­stofn­unar yfir afmæl­is­ár­ið. Þar hafa verið viðr­aðar margar snarpar hug­leið­ing­ar. Þeirra á meðal í grein Andra Snæs Magna­son­ar, Hver er hug­mynd­in?.

Þar spyr Andri Snær hvort skýr hug­mynda­fræði sé horfin úr borg­ar­skipu­lagi okkar tíma. Hann veltir upp dæmum um skort á fag­ur­fræði, stað­ar­vit­und og heild­ar­hugsun í skipu­lags­á­kvörð­unum nýlið­inna ára. Hugsun sem hafi verið til staðar í skipu­lagi áður, bæði í elstu hlutum Reykja­vík­ur, eins og í Gamla Vest­ur­bænum norðan Hring­brautar og líka miklu síðar þegar Árbæj­ar­hverfið var hannað og byggt upp á 7. ára­tugn­um. Heild­stæð og góð hverfi, með til­tek­inn brag, þar sem gert er ráð fyrir lífi, starfi, tóm­stundum og þörfum fólks á öllum aldri.

Eins og Andri Snær dregur fram, þá liggur galdur þess­ara hverfa ekki síst í heild­stæðri og skýrri skipu­lags­legri hug­mynda­fræði og ákveðnum aga, skiln­ingi, virð­ingu og þraut­seigju við að standa með þeirri hug­mynd í áranna rás. En hann bendir líka á að þróun síð­ustu ára­tuga, með bílmið­uðum ákvörð­unum um stað­setn­ingu versl­unar og þjón­ustu á jaðri hverf­anna og á stundum hóf­stilltum kröfum til arki­tekt­úrs og borg­ar­hönn­un­ar, hafi höggvið skörð í gæði hverf­anna og þar með lífs­gæði íbú­anna.

Þessi grein­ing er rétt­mæt, þótt vissu­lega sé líka mjög margt í skipu­lags­gerð okkar tíma gert af alúð, metn­aði, færni og þekk­ingu. En hefur þessi þróun orðið vegna þess að okkur skorti hug­mynda­fræði í skipu­lags­mál­um, eða er skýr­ing­anna að leita í öðru?

Auglýsing

Hug­mynda­fræði skipu­lags­mála

Seinni­hluti 20. aldar ein­kennd­ist af átökum ólíkra strauma í skipu­lags­mál­um. Þar vék smám saman fyrir annarri nálgun hug­mynda­fræði sem hafði verið ráð­andi við upp­bygg­ingu borga um mið­bik 20. aldar um allan hinn vest­ræna heim og víð­ar. Þetta var móderníska skipu­lagið með áherslu sína á mikla inn­viða­upp­bygg­ingu fyrir einka­bíl­inn, dreifða byggð og hverfi aðgreind eftir teg­und hús­næðis og starf­semi. Sú hug­mynda­fræði sem hefur smám saman tekið yfir sem ráð­andi skóli í skipu­lags­gerð, borg­ar­hönnun og sam­göngu­verk­fræði er stundum kennd við end­ur­reisn borga (urban rena­issance) en hefur fleiri yfir­skriftir tengdar borg­ar­hönnun (urban design) og úrban­isma.

Þessar nýju hug­myndir fag­heims skipu­lags­mála end­ur­spegl­ast orðið í opin­berri stefnu stjórn­valda, bæði erlendis og hér­lend­is. Má í því sam­bandi nefna New Urban Agenda og Heims­mark­mið Sam­ein­uðu þjóð­anna og New European Bauhaus átak Evr­ópu­sam­bands­ins úti í hinum stóra heimi. Og hér uppi á Íslandi lands­skipu­lags­stefnu, svæð­is­skipu­lag höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins og mörg aðal- og deiliskipu­lög, bæði á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og út um land­ið.

Þetta eru kenn­ingar sem leggja áherslu á  mann­vænt, lif­andi og fjöl­breytt umhverfi og sam­fé­lag í borg og bæ og fjöl­breytta ferða­máta. Þetta eru um leið kenn­ingar sem eru vel til þess fallnar að vinna gagn í lofts­lagstilliti, með því að tak­marka það land sem tekið er undir byggð, bæta rekstr­ar­skil­yrði þjón­ustu nærri heim­ilum með þéttri, bland­aðri byggð og með því að útfæra bæj­ar­rými og götur þannig að öðrum ferða­mátum en einka­bílnum sé gef­inn við­eig­andi gaum­ur. Vel hönnuð bæj­ar­rými og við­eig­andi þétt­leiki og blöndun byggðar styttir vega­lengdir í dag­legu lífi og gefur kost á að auka hlut­deild göngu, hjól­reiða og almenn­ings­sam­gangna, en það eru þeir ferða­mátar sem skila fljótt sam­drætti í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda, taka minna land­rými og gefa þann bónus að ýta undir heil­næma hreyf­ingu í dag­legu lífi.

Mynd: Aðsend

Af þessum meiði eru skipu­lags­hug­myndir um svo­kall­aðar 15 eða 20 mín­útna borgir, bæi og hverfi sem ryðja sér til rúms um allan heim þessi árin. Þær fela í sér að innan hverfa sé fjöl­breytt úrval íbúð­ar­hús­næðis fyrir ólíka hópa, að umhverfi sé mótað út frá mann­legum mæli­kvarða og að íbúar þurfi ekki að ferð­ast lengra frá heim­ili sínu en sem nemur stuttri ferð gang­andi, hjólandi eða með almenn­ings­sam­göngum til að sinna helstu póstum dag­legs lífs – mat­vöru­versl­un, skóla, heilsu­gæslu, lík­ams­rækt, vinnu og svo fram­veg­is.

Reyndar er svo rétt, ekki síst vegna 100 ára afmælis skipu­lags­lög­gjaf­ar­inn­ar, að halda til að haga að ýmsar áherslur fyrstu skipu­lags­lag­anna frá 1921 eru enn í fullu gildi sem leið­ar­ljós fyrir skipu­lags­gerð á okkar tím­um. Það eru áherslur eins og að skipu­lag taki „tillit til atvinnu bæj­ar­búa, heil­brigð­is- og þrifn­að­ar­nauð­synja, greiðrar umferð­ar, bruna­hættu og feg­urðar bæj­ar­ins“. Einnig að gætt sé sér­stak­lega að því „að opin­berum og öðrum helstu bygg­ingum sje smekk­lega skip­að“, götur hafðar með hæfi­legum halla og hæfi­legt bil haft milli húsa með til­liti til sól­ar­hæðar á „að­alsól­ar­hlið húsa“.

Hvernig birt­ast þessar hug­myndir okkur í dag­legu lífi?

Þær birt­ast okkar í fjöl­breytni í hverf­inu okk­ar, þar sem fólk af ólíkum meiði getur allt átt sinn sama­stað og hægt er að flytja sig til innan hverf­is, þegar hús­næð­is­þarfir breyt­ast.

Þær birt­ast okkur í fal­legum og vönd­uðum bygg­ingum sem sóma sér vel í umhverfi sínu og halda vel utan um íbúa og starf­semi.

Þær birt­ast okkur í sköp­un­ar­krafti og gleði – mál­verki á hús­gafli, götu­mark­aði á sum­ar­degi.

Þær birt­ast okkur í heil­næmu umhverfi, hreinu lofti og góðri hljóð­vist.

Þær birt­ast okkur í vænt­um­þykju fólks um sitt nán­asta umhverfi.

Þær birt­ast okkur í skjóli og sól­ríkum úti­svæð­um.

Þær birt­ast okkar í sam­spili bygg­inga og bæj­ar­rýma sem þró­ast í tím­ans rás og þar sem ólík tíma­bil bygg­inga og bygg­ing­ar­stíla flétt­ast sam­an.

Heildstæð götumynd húsa við Ingólfsstræti í Reykjavík í samsvarandi mælikvarða þrátt fyrir mismunandi byggingarstíl sem endurspeglar ólíkan byggingartíma – Arnarhvoll frá 1929, Hæstiréttur frá 1996 og Safnahúsið frá 1907. Mynd: Aðsend

Þær birt­ast okkur í göt­unni þar sem bíla­um­ferð er hæg og nóg pláss fyrir gang­andi og hjólandi.

Þær birt­ast okkur í götum og hverfum þar sem fólk er á ferli.

Þær birt­ast okkur í versl­unum og annarri nær­þjón­ustu sem er í göngu- eða hjóla­færi.

Þær birt­ast okkur í því að við veljum að ganga á milli staða, heilsumst og tökum fólk tali.

Þær birt­ast okkur í góðum almenn­ings­sam­göngum sem gera okkur kleift að sleppa því að fara allar lengri ferðir á einka­bíl.

Þær birt­ast okkur í bygg­ingum sem standa um langan aldur og geta tek­ist á við og aðlag­ast breyttum hlut­verkum í áranna rás.

Íshús sem varð að skemmtistað sem varð að listasafni. Bygging Listasafns Íslands sómir sér vel í götumynd Fríkirkjuvegar í Reykjavík, milli Fríkirkjunnar og Kvennaskólans. Byggingin var reist árið 1916 fyrir íshúsið Herðubreið. Síðar hýsti byggingin frægan skemmtistað, Glaumbæ. Eftir bruna og gagngerar endurbætur tók listasafnið til starfa i húsinu 1987. Ljósmynd birt með góðfúslegu leyfi Listasafns Íslands.

Þær birt­ast okkur í gróðri og fugla­lífi sem færa okkur skynjun á nátt­úru og árs­tíðum inn í borg og bæ.

Þær birt­ast okkur í görð­um, hús­hliðum og gluggum að götu sem vekja áhuga okkar og eft­ir­tekt og skapa til­finn­ingu fyrir lífi og nánd.

Þær birt­ast okkur í vönd­uðum bæj­ar­rým­um, hvort heldur eru göt­ur, smá­garð­ar, torg eða almenn­ings­garðar þar sem fólk er í fyr­ir­rúmi og ungir og aldnir geta notið sín sumar og vet­ur.

Þær birt­ast okkur í nátt­úr­unni sem umlykur og vefst inn í byggð­ina eða er við sjón­deild­ar­hring við götu­end­ann – strönd­inni, ánni, skóg­in­um, heið­inni, fjöll­un­um.

Landslag fengið að láni inn í byggðina. Keilir trónir við enda Óðinsgötu í Reykjavík. Mynd: Þráinn Hauksson.

Hvernig tryggjum við vandað skipu­lag?

Hug­mynda­fræð­ina skortir sem sagt ekki, en þrátt fyrir það sjáum við dæmi um til­vilj­ana­kenndar skipu­lags­á­kvarð­anir og metn­að­ar­lausar bygg­ingar og umhverf­is­mótun sem þjónar fremur skamm­tíma- og einka­hags­munum en hags­munum sam­fé­lags­ins til lengri tíma. Og þá er rétt að spyrja, hvað er til ráða? Eins og svo oft í skipu­lags­mál­um, er ekki ein­falt og ein­hlítt svar við því. Ábyrgðin liggur víða. Hún liggur hjá sveit­ar­stjórnum sem halda á skipu­lags­kefl­inu og bera ábyrgð á að skipu­lag sé hugsað til langs tíma og útfært með almanna­hag að leið­ar­ljósi. Hún liggur hjá upp­bygg­ing­ar­að­ilum sem ber að fylgja lögum og reglum og stefnu stjórn­valda en hafa líka sið­ferði­lega skyldu til að vanda til verka. Hún liggur hjá fjár­mögn­un­ar­að­ilum sem lána til og kosta upp­bygg­ingu hús­næðis og inn­viða. Hún liggur hjá borg­ur­un­um, að kynna sér mál og gera kröfur til stjórn­valda og upp­bygg­ing­ar­að­ila um gæði. Hún liggur hjá lög­gjaf­an­um, að setja skýrar kröfur til skipu­lags­gerðar og umhverf­is­mót­unar í lög­um. Hún liggur hjá stjórn­völdum á lands­vísu, að fylgja lögum eftir með skýrum regl­um, metn­að­ar­fullri stefnu og fræðslu og hvatn­ingu til fram­úr­skar­andi byggð­ar- og umhverf­is­mót­un­ar. Og hún liggur hjá fag­fólk­inu, hönn­uð­un­um, að láta til sín taka og sýna hvað í þeim býr. Ábyrgðin er okkar allra. Og ávinn­ing­ur­inn er okkar allra.

Höf­undur er for­stjóri Skipu­lags­stofn­un­ar.

Þessi pist­ill er hluti greinar­aðar í til­efni af því að 100 ár eru liðin frá form­legu upp­hafi skipu­lags­gerðar hér á landi með setn­ingu laga um skipu­lag kaup­túna og sjáv­ar­þorpa árið 1921.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar