Ekki verður betur séð en að Seðlabanki Íslands sé að auka peningamagn markvert með inngripum sínum á gjaldeyrismarkaði og stefnir í að svo verði áfram þar sem eftir lifir árs. Mikilvægt er að bregðast við þeirri stöðu til að styðja við virkni peningastefnunnar.
Þetta er mat Samtaka atvinnulífsins sem birtu í dag grein þar sem spurt er hvort Seðlabankinn sé að draga úr virkni peningastefnunnar með kaupum á gjaldeyri. Í greininni er Seðlabankinn sagður í undarlegri stöðu. Hann sé byrjaður að hækka stýrivexti á ný og boðar frekari vaxtahækkanir, á sama tíma og bankinn eykur peningamagn í umferð með inngripum á gjaldeyrismarkaði, sem stuðlar að aukinni verðbólgu.
Seðlabankinn hefur keypt mikið af gjaldeyri á undanförnum tveimur árum í þeim tilgangi að stækka óskuldsettan gjaldeyrisforða sinn og koma í veg fyrir verulega styrkingu krónunnar. SA segir að útlit sé fyrir að gjaldeyriskaup bankans á þessu ári gætu numið yfir 200 milljörðum króna.
„Inngrip Seðlabankans eru þó ekki án kostnaðar en Seðlabankinn greiðir gjaldeyriskaup sín með „peningaprentun“, m.ö.o. auka inngrip Seðlabankans peningamagn í umferð. Inngrip Seðlabankans eru um þessar mundir að mestu leyti óstýfð inngrip en það þýðir að Seðlabankinn grípur ekki til mótvægisaðgerða til að draga úr aukningu peningamagns. Þessu til viðbótar fylgir því kostnaður fyrir ríkið af miklum vaxtamun, einkum þegar stjórnvöld og í raun Seðlabankinn hafa lofað nánast óbreyttri krónu,“ segir í greiningunni.
„Til marks um það má nefna að innistæður fjármálastofnana bundnar til mánaðar í senn nema tæpum 116 mö.kr. og hafa lítið breyst samhliða inngripum Seðlabanka. Kaup Seðlabankans upp á 200 ma.kr. frá ársbyrjun 2014 eru því hrein viðbót við það peningamagn sem er nú þegar í umferð og ef fram fer sem horfir verður aukningin orðin tæpir 340 ma.kr. í lok árs miðað við okkar áætlanir.
Seðlabankinn er því í nokkuð undarlegri stöðu. Annars vegar er hann byrjaður að hækka stýrivexti á ný og boðar frekari vaxtahækkanir á næstu mánuðum, en um leið eykur hann peningamagn í umferð með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Verðlagsáhrif þess að auka peningamagn í umferð eru þau sömu og ef Seðlabankinn lækkar vexti, því slíkt stuðlar að verðbólgu, lækkar virði krónunnar til lengri tíma litið og skapar þrýsting á markaðsvexti til lækkunar. Seðlabankinn er því m.ö.o. að draga úr áhrifum sinna eigin vaxtahækkana með inngripum á gjaldeyrismarkað.“
Gjaldeyrisútboð framundan
Í greiningu SA er einnig farið yfir horfurnar framundan og fjallað um komandi gjaldeyrisútboð. „Í aðgerðaáætlun stjórnvalda er gert ráð fyrir að útboð verði haldið í haust þar sem aflandskrónueigendum verða boðnar þrjár leiðir, skuldabréfaskipti í krónum og evrum eða gjaldeyrisútboð þar sem þeir geta skipt aflandskrónum yfir í evrur. Gjaldeyrisforðinn verður nýttur til að mæta þeim krónum sem fara í gegnum gjaldeyrisútboð Seðlabankans en stærð útboðsins verður ekki kunn fyrr en í útboðinu sjálfu. Innistæður aflandskrónueigenda standa í dag í 116 mö.kr. og geta gefið ágæta vísbending um umfangið en færu allar þær krónur í gegnum útboðið væri í raun verið að draga úr peningamagni um sem nemur þeirri upphæð. Þrátt fyrir að svo færi hefði peningamagn skv. áætlun okkar aukist um 225 ma.kr. frá ársbyrjun 2014 til loka þessa árs vegna inngripa Seðlabankans. Ólíklegt er því að gjaldeyrisútboð Seðlabankans muni eitt og sér duga sem mótvægisaðgerð gegn þeirri aukningu peningamagns sem verið hefur.
Allt bendir því til þess að Seðlabankinn þurfi að huga að frekari mótvægisaðgerðum til að draga úr peningamagni eða að öðrum kosti að stöðva peningaprentun. Seðlabankinn gæti selt eignir úr eignasafni sínu og þar með dregið úr peningamagninu. Jafnframt mætti hugsa sér að í stað þess að Seðlabankinn myndi áfram kaupa þann gjaldeyri sem kemur til landsins þá yrði losað frekar fyrir kaup annarra innlendra aðila. Gert er ráð fyrir í aðgerðaáætlun stjórnvalda að á næsta ári verði vinna hafin við að losa í skrefum höft á gjaldeyriskaup, en velta má fyrir sér hvort við höfum efni á að bíða svo lengi. Í því samhengi má nefna að uppsöfnuð erlend fjárfestingaþörf lífeyrissjóða er metin í kringum 180 ma.kr.2 Í aðgerðaáætlun um losun hafta er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðum verði hleypt út fyrir 10 ma.kr. árlega sem er aðeins í dropi í hafið í hlutfalli við þann gjaldeyri sem streymir inn í landið. Svigrúmið mætti auka og vera meira í takt við þá þróun sem verið hefur“
Grein Samtaka atvinnulífsins í heild.