Um 7,6% af öllum núlifandi Íslendingum, fimmtán ára og eldri, höfðu komið í meðferð til SÁÁ í árslok 2014, 10,6% allra karla en 4,5% allra kvenna 15 ára og eldri. Þetta kemur fram í frétt á vef SÁA, en samkvæmt gögnum sem birt eru á vefnum hafa 14,6 prósent núlifandi karlmanna á aldrinum 50 til 59 ára komið í meðferð til SÁÁ en 14,1% karla 60 til 69 ára. „Alls höfðu 23.580 einstaklingar leitað meðferðar hjá SÁÁ í árslok 2014 en samtökin tóku til starfa síðla árs 1977. Af þessum 23.580 hafa 11.684 eða 49,4% komið einu sinni. 18.350, eða 77,8% alls hópsins, hafa komið þrisvar sinnum eða sjaldnar. Hins vegar hafa 699 núlifandi Íslendingar, 501 karl en 198 konur, komið oftar en 10 sinnum til meðferðar en það eru 3% alls sjúklingahópsins. 199 einstaklingar úr þessum hópi endurkomufólks komu á Vog árið 2014, 139 karlar en 60 konur,“ segir í fréttinni á vef SÁÁ.
Á árinu 2014 komu 1.552 einstaklingar í afeitrun á Vogi, 1.060 karlar en 492 konur. Innlagnir voru alls 1.997. Samtals komu 576 einstaklingar í fyrsta skipti á Vog á árinu 2014, að því er segir á vef SÁÁ.